Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, lýsti í upphafi ræðu sinnar hryggð yfir hinum hörmulegu hryðjuverkum á Spáni.
Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, lýsti í upphafi ræðu sinnar hryggð yfir hinum hörmulegu hryðjuverkum á Spáni. — Morgunblaðið/Jim Smart
"FJÓRFLOKKURINN verður að minnka og við að stækka," sagði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, við upphaf málþings og landsráðsfundar Frjálslynda flokksins á Hótel Loftleiðum í gær.

"FJÓRFLOKKURINN verður að minnka og við að stækka," sagði Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, við upphaf málþings og landsráðsfundar Frjálslynda flokksins á Hótel Loftleiðum í gær. "Með fleiri flokkum kemst á virkara lýðræði," sagði hann og minnti á að lengi hefðu stjórnmál á Íslandi einkennst af fjórflokknum svokallaða.

"Flokksvald ríkisstjórnarflokksins sem ævinlega keyrir fram sín mál er vont," sagði hann síðan. "Áratuga völd sömu flokka minna á flokksræði gamla Sovétsins; ráðstjórn sem ræður þinginu og afgreiðir aðeins sín mál. Góð mál stjórnarandstöðu eru fótum troðin árum saman en efni þeirra að hluta einstöku sinnum sett í ráðherrafrumvörp löngu síðar."

Guðjón sagði að til þess að brjóta upp veldi fjórflokksins yrði Frjálslyndi flokkurinn að halda velli og stækka yfir 10 prósenta fylgi. Flokkurinn ætti að stefna að tólf prósenta fylgi. "Markmið okkar er að breyta völdum í íslensku þjóðfélagi og ná þeim áhrifum að veldi fjórflokksins verði minna og að hér þurfi í framtíðinni að taka mið af sjónarmiðum fleiri stjórnmálaflokka. Sem sagt, að lýðræði verði meira, en flokksræði og ráðherravald minna."

Þátttakendur á málþingi flokksins munu starfa í málefnahópum í dag og verður rætt um niðurstöðu hópanna síðdegis. Þá hefst jafnframt landsráðsfundur flokksins, en landsráð er skipað af miðstjórn og sex fulltrúum tilnefndum af hverju kjördæmisfélagi.

Stefnir að þátttöku í sveitarstjórnarkosningum 2006

Guðjón sagði í setningarræðu sinni að flokkurinn teldi brýnt að taka í auknum mæli þátt í sveitarstjórnarmálum. Sagði hann að flokkurinn stefndi að framboði til sveitarstjórnarkosninga vorið 2006. "Það eru svo ótal mörg hagsmunamál landsmanna sem ráðast í sveitarstjórnum. Verkefnum hjá sveitarfélögum fjölgar á næstu árum og því telur flokkurinn brýnt að beita sér af auknum krafti á þeim vettvangi. Frjálslyndi flokkurinn stefnir að framboðum til sveitarstjórnarkosninga vorið 2006 með listum í eigin nafni og/eða í samstarfi við aðra stjórnmálaflokka samkvæmt ákvörðun miðstjórnar og í fullu samráði við kjördæmisfélög á hverjum stað."

Guðjón ítrekaði að stefna flokksins væri aukið lýðræði og valddreifing - bæði í sveitarstjórnum og í landsmálum. "Það er ljóst að sveitarfélögum mun halda áfram að fækka enda í takt við betri samgöngur innan landsvæða. Sveitarfélögin þurfa að stækka til þess að takast á við ný verkefni á fleiri sviðum sem færð verða til þeirra á næstu árum. Þar má nefna öldrunarmál og málefni geðfatlaðra sem líkleg verkefni sem færð verða frá ríki til sveitarfélaga. Síðan er einnig líklegt að viðhald og vetrarsamgöngur vega innan stærri sveitarfélaga færist til þeirra þó nýbyggingar vega, brúa og jarðganga verði áfram hjá ríki."

Efla byggð til sjávar og sveita

Guðjón gerði stefnumál flokksins einnig að umtalsefni og vísaði því á bug að flokkurinn væri einungis kvótaflokkur eins og stundum væri haldið fram. "Eins og þið sjáið, á lista sem hér liggur frammi yfir þingmál, hafa þingmenn Frjálslynda flokksins komið víða við í málflutningi sínum og flutt fjölda mála og tillögur af margvíslegum toga. Þeir hafa einnig tekið virkan þátt í umræðum um ótal málaflokka á Alþingi." Hann sagði að þingmenn hefðu þó einnig flutt þingmál um stjórnun fiskveiða, m.a. þingmál um aðskilnað veiða og vinnslu.

Að lokum sagði Guðjón að flokksmenn tryðu því að hægt væri að skapa réttlátara samfélag þar sem auðlindum landsmanna væri skipt meðal þeirra með sanngjarnari hætti en nú er. "Við viljum land sem er í byggð þar sem réttur fólks til búsetu um allt land er tryggður, kjósi það svo. Fólk hefur rétt til land- og sjávarnytja og jafnræði til þeirra lífsgæða að velja sér atvinnu. Ísland er vaxandi ferðamannaland og innan fárra ára verða ferðamenn á hverju ári tvöfalt fleiri en Íslendingar. Ef við ætlum að efla ferðaþjónustuna þarf landið að vera í byggð, sem er forsenda þess að þjóna ferðamönnum." Hann sagði að höfuðborgin væri landsbyggðinni mjög verðmæt og að landsbyggðin væri borgarbúum verðmæt. Sagði hann síðan að það væri eitt meginhlutverk þeirra sem störfuðu í stjórnmálum að efla byggð til sjávar og sveita.