Magnús Ragnarsson
Magnús Ragnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÍSLENSKA sjónvarpsfélagið, sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá 1, hefur náð samningum um útsendingu á enska boltanum til næstu þriggja ára, og hefjast útsendingar næsta haust. Ekki er ljóst hvort sýnt verður í opinni eða læstri dagskrá.

ÍSLENSKA sjónvarpsfélagið, sem rekur sjónvarpsstöðina Skjá 1, hefur náð samningum um útsendingu á enska boltanum til næstu þriggja ára, og hefjast útsendingar næsta haust. Ekki er ljóst hvort sýnt verður í opinni eða læstri dagskrá.

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Íslenska sjónvarpsfélagsins, segir að verðið, sem og annar kostnaður við útsendingarnar, sé trúnaðarmál milli viðsemjenda. Hann bendir á að aftur verði samið eftir þrjú ár og því sé ekki rétt að gefa upplýsingar sem muni gagnast samkeppnisaðilanum þá.

Ekki er búið að taka ákvörðun um hvernig dreifingin á efninu verður, en Magnús segir ljóst að það falli ekki að dagskrá Skjás 1 að setja allar útsendingar frá enska boltanum inn í dagskrá þeirrar stöðvar.

"Það er ekki búið að taka ákvörðun um hvernig dreifingin á efninu verður," segir Magnús, og segir hann slíkrar ákvörðunar ekki að vænta fyrr en með vorinu. Hann segir þó að þetta verði ekki til að blása aftur lífi í hugmyndina um Skjá 2, sem hætti útsendingum nýlega.

Passar ekki við dagskrá Skjás 1

Spurður hvort enski boltinn verði sýndur í heild sinni á Skjá 1 segir Magnús það ósennilegt, og telur líklegra að hann verði sýndur á annarri rás, a.m.k. að hluta til. "Ég held það myndi verða mjög truflandi fyrir þá dagskrá sem fyrir er. Það er ekki hægt að bæta þessu öllu inn á Skjá 1, ef það væri reynt myndi dagskráin sem er á Skjá 1 í dag - sem við erum mjög ánægð með - þá myndi hún raskast verulega," segir Magnús.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um nákvæmlega hversu marga íþróttafréttamenn þurfi að ráða til að ráða við þetta nýja verkefni, en Magnús segir ljóst að verulegan fjölda þurfi að ráða.

Boltinn ekki í netinu

Sigurður G. Guðjónsson, framkvæmdastjóri Norðurljósa, segir að í raun sé enski boltinn ekki kominn í netið hjá Íslenska sjónvarpsfélaginu. Hann segir að nú hafi forsvarsmenn deildarinnar 30 daga til að staðfesta að Íslenska sjónvarpsfélagið ráði við verkið, geti gert boltanum nægilega vel skil og hafi fjárhagslegan styrk til að standa við tilboð sitt.

Sigurður segir að Norðurljós hafi boðið 195 milljónir króna fyrir réttinn næstu þrjú árin, sem er 21% hærra en þeir hafa greitt síðustu þrjú ár. Hann segir ljóst að boð Íslenska sjónvarpsfélagsins hafi verið a.m.k. 10% hærra en það, annars hefði komið til annars útboðs. Ofan á það segir hann að bætast aðra eins upphæð fyrir gervihnattanotkunn.

"Þá værum við komnir í um 400 milljónir fyrir enska fótboltann [fyrir þriggja ára samning]. Til að setja það í samhengi þá kostar fréttastofan okkar um 120 til 130 milljónir á ári, og nánast öll dagskrárgerð á Stöð 2 kostar á bilinu 450 til 500 milljónir á ári. Þannig að þetta verð er út úr kortinu, og er óþekkt í knattspyrnuheiminum í Evrópu," segir Sigurður.

Sigurður þvertekur fyrir að hann hafi áhyggjur af framtíðinni hjá Sýn, sem hefur sýnt enska boltann undanfarin ár. Hann segir að aðrar deildir sem stöðin sé með séu ekki nýttar til fullnustu, og áskrifendur hafi áhuga á góðum íþróttum, ekki bara enska boltanum.

Norðurljós náðu á sínum tíma ensku knattspyrnunni af Ríkissjónvarpinu sem sýndi frá henni í mörg ár. Engar íþróttir hafa verið á Skjá einum fram að þessu en líkur eru á að nú verði breyting þar á.