Hann tekur við Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, var kjörinn nýr stjórnarformaður SH.
Hann tekur við Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, var kjörinn nýr stjórnarformaður SH. — Morgunblaðið/Jim Smart
FJÓRIR nýir menn tóku sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í gær. Þeir Árni Tómasson, Eiríkur S.

FJÓRIR nýir menn tóku sæti í stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í gær. Þeir Árni Tómasson, Eiríkur S. Jóhannsson, Guðmundur Kristjánsson og Hjörleifur Jakobsson tóku sæti í stjórninni í stað þeirra Róberts Guðfinnssonar, Haraldar Sturlaugssonar, Rakelar Olsen og Guðbrands Sigurðssonar sem gengu úr stjórn. Þeir Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Baldur Guðnason og Þórður Már Jóhannesson sitja áfram í stjórn.

Á fyrsta fundi stjórnarinnar í gær var Gunnlaugur Sævar kjörinn formaður stjórnarinnar, í stað Róberts Guðfinnssonar. Hann sagðist í samtali við Morgunblaðið í gær hafa mjög bjarta framtíðarsýn fyrir hönd SH. Sú stefna sem forstjóri og fyrrverandi stjórnarformaður hafi fylgt á undanförnum misserum verði mörkuð áfram. Ekki séu fyrirsjáanlegar neinar breytingar á rekstrinum.

Aðspurður hvort fyrir dyrum séu breytingar á rekstri Icelandic USA, dótturfélags SH í Bandaríkjunum, í ljósi óviðunandi afkomu félagsins á síðasta ári, sagði Gunnlaugur ekkert ákveðið í þeim efnum "En við hljótum að líta til þeirra tækifæra sem bíða okkar vestanhafs og austan. Í Bandaríkjunum er árangurinn það sem af er þessu ári betri en verið hefur en auðvitað kunna að vera tækifæri þar. Ein af meinsemdunum í rekstri Icelandic USA er sú að fyrirtækið er sennilega of lítið og mætti sennilega vaxa meira. Kaupin á Ocean to Ocean á síðasta ári voru liður í því."

Gunnlaugur sagði aðspurður að sameiningarviðræður við SÍF kæmu til greina af hans hálfu eins og hvað annað. Hann benti hinsvegar á að sameiningarviðræður við SÍF hafi tvisvar farið út um í fyrra og miðað það lítist sér ekki vel á slíkar viðræður aftur. Hann segir breytt eignarhald á SH ekki skipta höfuðmáli í þeim efnum. "Nýir hluthafar hafa vonandi litið á SH sem vænlegan fjárfestingarkost. Fyrirtækið gengur vel og breytt eignarhald hefur engin áhrif á það hvort teknar verða upp viðræður um sameiningu eða samstarf við SÍF. Ég var sjálfur þátttakandi í sameiningarviðræðum við SÍF á síðasta ári. Ef nýjar viðræður eiga að byggja á sömu forsendum og lagt var upp með þá, er ég ekki bjartsýnn."

Gunnlaugur sagðist heldur ekki telja að breytt eignarhald ætti eftir að hafa áhrif á daglegan rekstur SH, jafnvel þó nýir eigendur tengist SÍF, helsta keppinauti SH.