Spánverjar ganga í rigningu í miðborg Madrídar þar sem 2,3 milljónir manna komu saman í gærkvöld til að mótmæla hryðjuverkunum í fyrradag.
Spánverjar ganga í rigningu í miðborg Madrídar þar sem 2,3 milljónir manna komu saman í gærkvöld til að mótmæla hryðjuverkunum í fyrradag. — Reuters
RÚMAR átta milljónir manna söfnuðust saman á götum spænskra borga og bæja í gærkvöldi til að sýna samstöðu í baráttunni gegn hryðjuverkum og minnast þeirra sem biðu bana í sprengjutilræðunum í Madríd í fyrradag.

RÚMAR átta milljónir manna söfnuðust saman á götum spænskra borga og bæja í gærkvöldi til að sýna samstöðu í baráttunni gegn hryðjuverkum og minnast þeirra sem biðu bana í sprengjutilræðunum í Madríd í fyrradag. Voru þetta langfjölmennustu útifundir í sögu Spánar, að sögn spænsku lögreglunnar í gærkvöld.

Fólkið lét í ljósi djúpa sorg og reiði yfir sprengingunum sem kostuðu að minnsta kosti 199 manns lífið. "Sameinuð þjóð verður aldrei sigruð," hrópaði fólkið einum rómi á útifundi í miðborg Madrídar. Að sögn lögreglunnar voru 2,3 milljónir manna á þeim fundi, 1,2 milljónir söfnuðust saman í Barcelona og alls rúmar átta milljónir í landinu öllu.

Evrópskir ráðamenn meðal viðstaddra

Margir evrópskir ráðherrar voru á útifundinum í Madríd til að votta Spánverjum samúð sína og stuðning, þeirra á meðal forsætisráðherrarnir Jean-Pierre Raffarin frá Frakklandi og Silvio Berlusconi frá Ítalíu. Á meðal viðstaddra var einnig Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Spænska konungsfjölskyldan rauf þá hefð að taka ekki þátt í slíkum fjöldafundum á götunum með því að senda Felipe prins og prinsessurnar Elenu og Cristinu á fundinn í Madríd.

Madríd. AFP, AP.