Gruflarar grúska og grufla, rétt eins og Víkverji.
Gruflarar grúska og grufla, rétt eins og Víkverji. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Víkverji er gruflari, honum þykir gaman að grufla í öllu sem hann kemst í, hvort sem það er tónlist, bækur, tölvur eða garðyrkja.

Víkverji er gruflari, honum þykir gaman að grufla í öllu sem hann kemst í, hvort sem það er tónlist, bækur, tölvur eða garðyrkja. Honum mislíkar dálítið þegar blaðamenn þýða orðið "hacker" sem tölvuþrjót, því "hacker" er ósköp einfaldlega gruflari, grúskari eins og Víkverji, sem hefur gaman að því að fikta í tækjum og tólum. Tölvuþrjótar, þótt þeir séu oftast nokkurs konar grúskarar nota hæfileika sína til ills, til að valda öðrum skaða eða til að ræna aðra lifibrauði sínu.

Í þessu samhengi vaknaði Víkverji nýlega upp við vondan draum. Eru þá ekki allir sem deila tónlist á netinu tölvuþrjótar? Besti vinur Víkverja hefur án efa gerst sekur um slíka hegðun, þrátt fyrir að vera almennt dagfarsprúður og góður drengur. Þó telur Víkverji sök vinarins ekki eins mikla og sök verstu slúbbertanna, enda notar hann slíkan hugbúnað aðallega til að finna tónlist sem vekur áhuga hans og kaupir venjulega geisladiska listamannanna í kjölfarið, nema þeir séu þeim mun torfundnari.

Þar höfum við það... Víkverji er búinn að réttlæta misgjörðir vinarins og getur nú haldið áfram að grúska og grufla og vinurinn að nappa stöku tónlist af Netinu. Þá er bara að fá sér öflugri tengingu ... Sem vinurinn og gerði. Hann trítlaði niður í netþjónustufyrirtækið sitt, sem er af smærri kantinum, þar sem hann er nú svo mikill smákapítalisti og smáborgari, og pantaði sér svonefnt ADSL samband.

Fékk drengurinn umsvifa- og möglulaust í hendur kassa með svonefndum beini og ýmsu snúrufargani. Hljóp hann glaður heim á leið og tengdi. Jújú, netið virkaði fínt, en hvað er þetta? Músíkstuldarforritið er með leiðindi. Vinurinn hringir í Víkverja, sem hringir umsvifalaust í netþjónustufyrirtækið smáa og biður um hjálp. Hann vill grufla sig inn í beininn og stilla hann svo vinurinn geti auðveldar ruplað tónlistinni. "Humm, humm" heyrist í símtólinu. Ekki er tæknimaðurinn hrifinn. Hann ráðfærir sig við annan tæknimann og Víkverji heyrir setninguna: "DC plús plús? Heyrðu, hann á ekkert með að vera að nota svoleiðis hugbúnað, það er ólöglegt að deila mússík á internetinu." Fýkur þá í Víkverja. "Hans lögbrot eru hans einkamál," segir hann. "Þið eigið að tryggja honum fyrsta flokks netaðgang og ekkert múður!" Víkverji sver að hann roðnaði við þessa furðulegu röksemd. Aldrei hefði hann trúað slíkri firru upp á sig. En tæknimaðurinn tók þetta í mál og gaf Víkverja lykilorðið að beininum, þó með þeirri viðvörun að nú sigldu þeir vinirnir hjálparlaust og allar breytingar væru á þeirra ábyrgð. Nema hvað? Enda elskar Víkverji grúskið sitt.