Stefán Jón Hafstein
Stefán Jón Hafstein
Virkjanir og stíflur í laxveiðiám eru vissulega einn þeirra þátta sem raskað geta lífríki með afdrifaríkum hætti.

ORRI Vigfússon skrifar óvandaða grein um Elliðaárnar í Mbl. fimmtudaginn 11. mars. Sem formaður samráðshóps sem starfað hefur um hríð um málefni ánna verð ég að gera nokkrar athugasemdir við grein Orra, þó brýnna sé að láta verkin tala.

Verkin tala reyndar gegn þeirri fullyrðing Orra að Umhverfis- og heilbrigðisnefnd Reykjavíkur hafi ,,tafið raunhæfar aðgerðir til að endurreisa lífríki Elliðaánna". Þvert á móti tala nú verkin á ósasvæðinu þar sem gagngerar breytingar til hins betra hafa átt sér stað, ekki síður fyrir tilstuðlan þeirra stofnana sem fylgja eftir stefnumótum borgaryfirvalda en annarra. Samráðshópurinn sem nú starfar um málefni ánna var upplýstur um það í lok nóv. síðastliðinn að enn væru frárennslismál frá fyrirtækjum á svæðinu óviðunandi þótt vissulega horfði til bóta. Í framhaldi af því skrifaði ég sem formaður til viðkomandi stofnana eftir áramót og bað um að tryggt yrði að nauðsynlegar umbætur yrðu komnar fyrir vorið þegar seiði halda til sjávar og lax gengur í árnar. Í kjölfar hef ég átt viðræður við fulltrúa Umhverfisstofu, gatnamálastjóra og eins af þeim fyrirtækjum sem koma við sögu. Hin almenna niðurstaða er þessi: Ástand hefur batnað mjög á ósasvæðinu, en úrbóta er enn þörf. Markmið samráðshópsins er að knýja á um lok þessa verkefnis og um það er ekki deilt. Orri á auðvitað að fagna þessu en ekki láta eins og engu skipti.

Raforkuvinnslan og vatnsrennsli

Samtímis hefur samráðshópurinn fjallað um aðrar breytingar sem varða raforkuvinnslu í ánum. Það er ótvíræð stefna borgaryfirvalda að hagsmunir lífríkis séu í forgangi, raforkuvinnslan víkjandi. Allt er þar í góðri samvinnu fulltrúa Veiðimálastofnunar, Orkuveitunnar og Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Á sama hátt og fyrirtækin við ósasvæðið hafa breytt og bætt umgengi við árnar á liðnum misserum hefur Orkuveitan gert það. Dæmi eru um mjög slæm mistök í þessu efni frá liðnum árum, alveg eins og hjá fyrirtækjum á ósasvæðinu sem skaðað hafa lífríkið. Úrbætur eru samt greinilegar á áhrifasvæði virkjunarinnar. Hópurinn mun á næstunni kynna tillögur um þetta efni, sérstaklega er varðar þann mikilvæga þátt sem Orri nefnir, rennslisbreytingar vatns. Rétt er að upplýsa Orra og aðra áhugamenn um laxinn að undanfarin ár hefur afkoma seiða í Elliðaánum verið best á áhrifasvæði virkjunarinnar: Neðan Elliðavatnsstíflu. Þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til svo nægu vatni sé miðlað um búsvæðin hafa skilað árangri, þær tillögur sem nú eru í burðarliðnum munu enn betur tryggja þennan árangur. Lykillinn að þeirri velgengni er hæfilegt vatn í kvíslum ánna og að sveiflur (af mannavöldum) skaði ekki lífríkið; mælanleg viðmið og reglubundið eftirlit eiga að sjá til þess.

Hvað veldur utan áhrifasvæðis virkjunar?

Það sem mikilli áhyggju veldur er hins vegar sú staðreynd að langt ofan við áhrifasvæði virkjunarinnar, á hrygningarsvæðum í Suðurá og Hólmsá, hafa nær engin seiði komist á legg hin síðari ár, meðan seiðin dafna mun betur neðan Elliðavatnsstíflu. Það getur ekki verið virkjuninni að kenna og er mál sem allir hljóta að láta sig varða. Það er því rangt hjá Orra að hið eina rétta svar um málefni Elliðaánna blasi við.

Meginmálið: Laxinn og lífríkið

Laxinn í Elliðaánum er í hættu. Verndun hans er sameiginlegt áhugamál fjölmargra borgarbúa og þar eigum við Orri marga samherja. Ef ég hefði sem borgarfulltrúi sannfæringu fyrir því að bann við raforkuvinnslu í ánum með þeim hætti sem hún er nú stunduð myndi bjarga laxinum væri ég löngu búinn að leggja það til. Því miður er málið ekki svo einfalt. Virkjanir og stíflur í laxveiðiám eru vissulega einn þeirra þátta sem raskað geta lífríki með afdrifaríkum hætti. Því teljum við í samráðshópnum brýnt að setja skýrar reglur um starfsemi og miðlun til virkjunarinnar í Elliðaám í góðu samráði umhverfisverndarsinna, virkjunarmenn og fiskifræðinga. Betur að svo væri gert víðar. Eitt stærsta miðlunarlón landsins er Þingvallavatn, en þar er steypt stömpum vegna Sogsvirkjana með síbreytilegu rennsli sem hugsanlega veldur tjóni á viðkomu laxa. Að minnsta kosti minnkar fiskigengd þar. Við Orri eigum báðir það áhugamál að endurreisa laxastofninn í Laxá í Aðaldal þar sem orðið hefur hrun í formannstíð Orra (án þess að neitt samband sé þar á milli!). Því miður heyrðist lítið frá formanni NASF, Verndarsjóði villtra laxa, í nýlokinni orrahríð um hækkun stíflu í Laxá. Grein sem Orri Vigfússon skrifaði fyrir nokkrum misserum í Mbl. um skaðsemi virkjunarlóna fyrir lífríki laxveiðiáa gefur þó tilefni til ítrekunar ábendinga um það efni. Það gagn sem Orri hefur gert fyrir umræðuna um náttúruverndarmál er þakkarvert, við erum margir samherjar sem viljum vernda laxinn - nær og fjær. Ég hef trú á því að sá árangur sem náðst hefur í ýmsu efni við Elliðaárnar muni skila sér, og þau áform sem nú eru uppi muni gera enn betur. Hættan er samt ekki liðin hjá og málefnaleg hjálp Orra Vigfússonar eins og annarra vel þegin.

Stefán Jón Hafstein svarar Orra Vigfússyni

Höfundur er borgarfulltrúi.