FRIÐRIK Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, hefur ákveðið að taka sér frí frá þjálfun í úrvalsdeild karla við lok leiktíðar í vor, en Friðrik hefur þjálfað nokkur af fremstu körfuknattleiksliðum landsins árum saman, m.a.

FRIÐRIK Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, hefur ákveðið að taka sér frí frá þjálfun í úrvalsdeild karla við lok leiktíðar í vor, en Friðrik hefur þjálfað nokkur af fremstu körfuknattleiksliðum landsins árum saman, m.a. Grindavík og Njarðvík hvar hann lék einnig árum saman. Þá var Friðrik um nokkurra ára skeið einnig landsliðsþjálfari en hætti því á síðasta ári. Friðrik sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hann hygðist leggja meiri rækt við verslunarrekstur á næstu misserum og því yrði hann að taka sér eitthvert hlé frá þjálfun en hann væri alls ekki hættur afskiptum af körfuknattleik.

"Ég ætla að taka eitthvert frí og snúa mér að öðrum þáttum. Verð kannski eitthvað tengdur körfunni á annan hátt en hingað til. Ég er að færa út kvíarnar í verslunarrekstri og til að geta sinnt því eins og ætlast er til verður að minnka við sig í körfuboltanum," sagði Friðrik Ingi sem gert hefur bæði Njarðvík og Grindavík að Íslandsmeisturum.