Það er vont að tapa í handknattleik og það venst illa. Þetta fengu Íslendingar nýlega að reyna er strákarnir okkar fengu heldur illa útreið á Evrópumótinu í Slóveníu.

Það er vont að tapa í handknattleik og það venst illa. Þetta fengu Íslendingar nýlega að reyna er strákarnir okkar fengu heldur illa útreið á Evrópumótinu í Slóveníu. Umsjónarmaður fylgdist með hluta af leik Íslendinga gegn Ungverjum og las umfjöllun um viðureignina daginn eftir. Leikur strákanna var eins og allir vita hvergi nærri gallalaus og sama má segja um umfjöllun fjölmiðla um hann. Nú skal vikið að nokkrum atriðum úr henni.

Fæstir munu velkjast í vafa um merkingu lýsingarorðanna hlutdrægur (óhlutdrægur) og vilhallur (óvilhallur). Það er varla einleikið hve oft við Íslendingar megum þola það að hlutdrægir dómarar spilli eða jafnvel eyðileggi allt fyrir strákunum okkar. Slíkir dómarar dæma með andstæðingum okkar, dæma þeim í vil, draga taum þeirra, draga fram hlut þeirra eða dæma á okkar menn svo að dæmi séu nefnd. Í leik Íslendinga og Ungverja var svipað uppi eins og svo oft áður og í umfjöllun um leikinn rakst ég á eftirfarandi setningu: ?Þegar við bættist óvilhöll dómgæsla þá var á brattann að sækja. Hér virðist lo. óvilhallur notað í merkingunni ‘hlutdrægur', þ.e. í þveröfugri merkingu við það sem við eigum að venjast. Trúlega er það forskeytið ó- sem veldur þessu klúðri. Flest lo. sem hefjast á ó- eru neikvæðrar merkingar (ójafn, ósanngjarn, óheiðarlegur) enda er merking stofnorðanna (jafn, sanngjarn, óheiðarlegur) þá jákvæð. Sé merking stofnorðs hins vegar neikvæð kallar forskeytið ó- hins vegar fram jákvæða merkingu, t.d. óvilhallur (‘hlutlaus'). Enn fremur má benda á að lýsingarorðið óhultur er jákvæðrar merkingar (‘öruggur').

Þótt strákarnir hafi ekki sýnt góðan leik brá þó ýmsu því fyrir sem gladdi augað. Um þetta mátti lesa: ?... truflaði sóknir Ungverja sem vissu ekki hvernig á sig stóð veðrið. Hér mun vafalaust hafa átt að standa ... vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið en það orðatiltæki vísar til þess er menn eru svo ruglaðir að þeir átta sig ekki einu sinni á vindáttinni hvað þá meir.

Að leik loknum gengu Íslendingar hnípnir af velli sagði í einni umfjölluninni. Hér er ritháttur nokkuð á reiki, oftast er ritað hnipinn en stundum hnípinn. Þeir sem rita hnipinn benda á að um sé að ræða lh.þt. af glataðri sögn (hnípa-hneip-hnipum-hnipinn ‘lúta höfði'). Þessu til stuðnings má kannski vísa til dæmis úr öðrum kafla Gunnlaugs sögu: ... álftin sat eftir hnipin mjög og dapurleg.

Fjölmiðlar fjölluðu ekki einungis um leiki okkar manna. Í einum leiknum þóttu Þjóðverjar standa sig vel og um það sagði: ?Þjóðverjar ... hristu svo sannarlega af sér slyðruorðið þegar þeir kjöldrógu Pólverja í D-riðlinum. Hér er um að ræða samslátt fastra orðasambanda, þ.e. ?hrista af sér slyðruorðið er myndað á grundvelli orðasambandanna hrista af sér slenið og reka af sér slyðruorðið.

Með sögninni reka eru kunn ýmis föst orðasambönd, t.d.: reka af sér bleyðiorðið (Örvar-Odds saga), reka af sér ámælið (Grettis saga), reka af sér ragmælið (Eyrbyggja saga) og reka af sér slyðruorðið (17. öld). Hugsunin er sú að e-m er lagt bleyðiorð á bak (‘borið á brýn að hann sé hugleysingi') og undir slíku ámæli vilja menn ekki liggja, kjósa að reka það af sér.

Nafnorðið slen vísar til deyfðar eða sljóleika. Í Grettis sögu (14.k.) segir frá því að Ásmundur, faðir Grettis, fól honum löðurmannlegt verk. Hann átti að strjúka bak Ásmundar. Ásmundi þótti Grettir lítt duga við verkið og sagði: ‘Nú muntu verða að draga af þér slenið, mannskræfan.' Í síðari alda máli er myndin ávallt hrista af sér slenið.

Að gefnu tilefni

Í lok síðasta árs skrifaði Víkverji pistil í Morgunblaðið þar sem hann fjallaði m.a. um orðasambandið rauð jól. Þar kemur fram að hann telur það fráleitt að lýsa snjólausum jólum sem rauðum og segir: ‘Sú tíð er auðvitað ekki "rauð". Hún gæti allt eins talist "græn" eða einfaldlega "myrk".' Enn fremur segir hann: ‘Hér hefur samsláttur átt sér stað í heilabúinu og síðan étur hver upp eftir öðrum. Forðum var sú alþýðuspeki þekkt að snjóaði um páska yrðu jólin snjólaus og öfugt. "Hvítir páskar, auð jól," sagði fólkið gjarnan. "Auð" en ekki "rauð". R-ið í "páskar" hefur sýnilega runnið saman við orðið sem á eftir fer".

Sá sem þetta ritar er afar ósammála Víkverja um þetta efni. Í fyrsta lagi sýnist mér að sú skýring Víkverja að r-ið í rauð jól megi rekja til r-sins í páskar sé í meira lagi hæpin. Í ritmálsskrá Orðabókar Háskólans er að finna eftirfarandi dæmi: Ef jól eru rauð, verða hvítir páskar (frá miðri 19. öld) og Rauð jól, hvítir páskar (1904) en hvergi hef ég fundið dæmi Víkverja: Hvítir páskar, auð jól. Nú kann vel að vera að það megi finna einhvers staðar en trúlega er þá um að ræða afbökun eða misskilning á dæmum eins og þeim sem finna má í ritmálsskrá Orðabók Háskólans. Í öðru lagi er að finna næg dæmi þess að litarorðið rauður sé notað til að vísa til þess að jörð sé snjólaus. Þannig dæmi er t.d. að finna í þjóðsögum frá miðri 19. öld: öðru megin árinnar var rauð jörð, en hinu megin alhvít af snjó. Dæmi um hliðstæða notkun lýsingarorðsins auður eru fá og miklu yngri en dæmi um rauða jörð.

Í pistli sínum sneiðir Víkverji svolítið að veðurfræðingum, telur að þeir tímar séu liðnir er íslenskir veðurfræðingar voru annálaðir fyrir þekkingu sína á íslenskri tungu. Hér skal ósagt látið um annálaða þekkingu veðurfræðinga en þess skal getið að ég hef mjög lengi fylgst með veðurfregnum í sjónvarpinu og tel að þar á bæ leggi menn sig fram um að vanda málfar sitt og tala skýrt. Víkverji hvetur veðurfræðinga til að hætta þessu bulli um rauð jól en ég hvet þá til að halda háttum sínum eins og sagt er.

jonf@hi.is