Mikil vinna í byggingariðnaði hefur einkennt bæjarlífið í vetur og er hver sá maður sem handleikið getur hamar ákaflega eftirsóttur. Stærstu verkefnin er viðbygging við veiðihúsið Flóðvang í Vatnsdal svo og nýbygging veitingaskála ESSO við...

Mikil vinna í byggingariðnaði hefur einkennt bæjarlífið í vetur og er hver sá maður sem handleikið getur hamar ákaflega eftirsóttur. Stærstu verkefnin er viðbygging við veiðihúsið Flóðvang í Vatnsdal svo og nýbygging veitingaskála ESSO við Norðurlandsveg. Verkefni framundan virðast vera næg ef allt fer sem horfir. Til stendur að byggja um 600 fermetra nýbyggingu við norðurenda iðnaðarhúsnæðisins Votmúla og tengja hana tæplega 800 fermetra iðnaðarsvæði og reka þar ullarþvottastöð í framtíðinni. Með þessu framtaki verða til 10 störf. Væntanlega verður byggð ný þjónustumiðstöð á tjaldsvæði Blönduósinga í Brautarhvammi og lyftuhús á sýsluskrifstofu verður að veruleika í haust.

Dýragarður, garður þar sem íslensk húsdýr verða almenningi til sýnis svo og vinnubrögð í landbúnaði fyrr á tímum, er ekki svo fjarlægur draumur því áhugahópur hefur sent byggingarnefnd Blönduósbæjar hugmyndir sínar þar um. Svæði það sem rætt er um og samræmist fullkomlega skipulagi bæjarins er vestan Hnjúkabyggðar í átt að gamla bæjarhlutanum. Inni í hugmyndinni að húsdýragarði er endurbygging gamla Guðlaugsstaðabæjarins en sá bær er sá hinn sami og tengist hinu fræga kyni sem við hann er kennt og má þar m.a. nefna Björn heitinn Pálsson alþingismann og frænda hans Pál Pétursson, fyrrv. félagsmálaráðherra. Einn af forgöngumönnum húsdýragarðshópsins er hinn landskunni Grímur Gíslason sem nú fetar tíræðisaldurinn af festu og bjartsýni.

Meistarflokkur knattspyrnudeildar Hvatar er á leið í viku æfinga- og keppnisferð til Portúgals og leita knattspyrnumenn allra leiða til að safna farareyri. Meðal annars eru bílar þvegnir og bónaðir og rækjur seldar. Talandi um knattspyrnu eru miklar líkur á því að tveir landsleikir verði á Blönduósvelli í sumar. Opna Norðurlandamótið hjá U21 landsliðum kvenna verður á Íslandi og hefur KSI beðið Hvöt og Blönduósbæ um að taka að sér tvo leiki; Ísland-Svíþjóð og England-Svíþjóð. Ekki er hægt að liggja fram á lappir sínar og þegja þegar minnst er á íþróttir því Blönduósingar hafa verið að gera það gott að undanförnu og nægir að nefna afrek Heiðars Davíðs Bragasonar í golfinu og Sunnu Gestsdóttur í frjálsum íþróttum. Þó svo að þau starfi í félögum utan síns heimahéraðs hikum við Austur-Húnvetningar ekki við að eigna okkur þau.