Guðmundur Jón Magnússon fæddist í Reykjavík 18. nóvember 1980. Hann lést af slysförum föstudaginn 5. mars síðastliðinn. Foreldrar hans eru Magnús Ingi Guðmundsson, f. 18. apríl 1961 og Sólrún Lára Reynisdóttir, f. 5. maí 1961. Bræður hans eru Birkir, f. 13. júlí 1983, og Reynir f. 17. september 1985. Guðmundur Jón ólst að mestu leyti upp hjá föðurforeldrum sínum á Dalvík, Guðmundi Jónssyni, f. 3. mars 1940 og Maríu J. Jónsdóttur, f. 27. ágúst 1943.

Unnusta Guðmundar er Agnes Þorleifsdóttir frá Akureyri, f. 22. janúar 1983, þau eiga saman soninn Mikael, f. 12. júní 2003. Guðmundur átti áður soninn Auðun Inga, f. 5. nóvember 2000.

Útför Guðmundar Jóns fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku Mummi minn. Það er kominn tími til að kveðjast í bili.

Það sem mig langaði til að segja þér er, að ég er svo þakklát fyrir tímann sem við áttum saman, og ekki síst fyrir litla sólargeislann okkar, hann Mikael. Allar minningarnar okkar geymi ég vel og það er ekkert sem getur breytt þeim eða eytt.

Við gátum endalaust glaðst saman yfir barninu okkar og þegar hann gerði eitthvað nýtt þá ljómaðir þú allur og gladdist svo mjög. Ég trúi því að við höldum áfram að gleðjast saman yfir barninu okkar.

Nú þarf ég að kveðja góðan vin, unnusta og föður barnsins míns.

Takk fyrir að deila með mér tveim síðustu árunum í jarðnesku lífi þínu.

Þín

Agnes.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Þinn sonur

Auðunn Ingi Guðmundsson.

Sum börn sem gestir koma

sólríkan dag um vor

og brosið þeirra bjarta

býr til lítil spor

í hjörtum sem hljóðlaust fela

sinn harm og djúpu sár

við sorginni er bænin svarið

og silfurlituð tár.

Börn Guðs sem gestir koma

gleymum aldrei því.

Í minningunni brosið bjarta

býr hjarta okkar í.

Það gull við geyma skulum

og allt sem okkur er kært,

við vitum þegar birtu bregður

börn Guðs þá sofa vært.

(Bubbi Morthens.)

Hví var þessi beður búinn

barnið kæra, þér svo skjótt ?

Svar af himni heyrir trúin

hljóma gegnum dauðans nótt.

Það er kveðjan: ,,Kom til mín!"

Kristur tók þig heim til sín.

Þú ert blessuð hans í höndum,

hólpin sál með ljóssins öndum

(Björn Halldórsson í Laufási.)

Guð varðveiti þig, elsku sonur og bróðir.

Pabbi, mamma, Birkir

og Reynir.

Elsku Mummi minn, nú er kveðjustundin komin. Ekki datt okkur afa til hugar að sú stund yrði á undan okkar stund. Þessa miklu erfiðleika fórum við í gegnum og getum jafnframt minnst svo margra góðra stunda sem við áttum með þér á uppvaxtarárum þínum. Í kjallaranum hjá okkur í Böggvisbrautinni var mörgum stundum varið í viðgerðir á hjólum, vélum og hinum margvíslegustu hlutum. Þú og vinur þinn Viðar stóðuð oft sveittir við viðgerðir og þó að lítið kæmi í nothæfu ástandi upp úr kjallarunum aftur.

Við minnumst þess líka þegar þú ásamt vini þínum komuð stoltir til okkar í vinnuna og tilkynntuð okkur að þið væruð búnir að segja upp unglingavinnunni vegna þess að þið ætluðuð að fara að vinna sjálfstætt og leigðuð þá jafnframt af okkur sláttuvélina og nýtt fyrirtæki stofnsett í kjölfarið.

Svona góðar minningar má lengi upp telja og verða þær minningar til að hjálpa okkur í þessari miklu sorg. Svo eigum við tvo sólargeisla eftir þig elsku Mummi minn, drengina þína tvo Mikael og Auðun Inga.

Við látumst skilja lífsins duldu rök

og leitum skammt á meðan værðar njótum

en þegar heyrast voðans vængjatök

í veruleikans myrkri blind við hnjótum

Svo þegar æskublómi burt er kippt

oss brestur þroska Drottins ráð að skilja

en þá fær sorgin hug til hæða lyft, -

í hennar þögn við greinum eilífs-vilja.

(Hjörtur Gíslason.)

Guð blessi þig og varðveiti.

Amma og afi.

Það er með sorg í hjarta og ólýsanlegri eftirsjá sem við kveðjum þig Mummi minn. Þú sem áttir allt lífið framundan og það brosti sínu fegursta við þér ásamt litlu fjölskyldunni.

Gullkornin þín munu lifa um ókomin ár, svo og minningin um góðan dreng.

Farðu í friði vinur minn kær

faðirinn mun þig geyma.

Um aldur og ævi þú verður mér nær

aldrei ég skal þér gleyma.

Svo vöknum við með sól að morgni

svo vöknum við með sól að morgni.

(Bubbi Morthens.)

Elsku Agnes, Mikael og Auðunn Ingi, Guð veiti ykkur styrk og blessun á þessari sorgarstundu.

Hilmar, Kristín, Hanna

Rún og Auður Ósk

Föstudagurinn 5. mars byrjaði eins og allir aðrir dagar, reyndar bjartari og fallegri en verið hefur lengi, vorið liggur í loftinu, bjartsýni fyllir hugann, sumarið fram undan.

En skyndilega hringir síminn og brostin rödd segir "hann Mummi okkar er dáinn". Hvað er að gerast? Hugurinn fyllist kulda og sársauka. Er þetta satt? Nei, Mummi getur ekki verið dáinn. Hressi, káti strákurinn hennar Láru systur, Mummi sem á unnustu, hana Agnesi og litlu drengina sína, Auðun Inga 3ja ára og Mikael sem er ekki einu sinni orðinn eins árs og á alveg eftir að kynnast pabba sínum. Af hverju gerast svona hlutir? Óskapleg sorg rífur og tætir hjarta okkar allra sem elskum Mumma.

Það er ekki svo langt í rauninni síðan þú fæddist, 18. nóvember 1980, rétt farinn að brosa um jól, elsta barn foreldra þinna og kærkomin viðbót í hóp barnabarna ömmu og afa í Álftamýri. Þú varst orkumikill og hress pjakkur, og þegar Birkir bróðir þinn bættist í hópinn þrem árum seinna og síðan Reynir tveim árum eftir það, var nóg að gera. Þú kunnir sko fullt af skemmtilegum hlutum og prakkarastrikum sem þú varst alveg tilbúinn að kenna litlu bræðrum þínum. Það voru svo afi og amma á Dalvík sem tóku uppeldi þitt að sér, örugglega vegna þess að þau hafa einfaldlega ekki tímt að sjá af þér þegar pabbi þinn og mamma fóru að búa. Þú varst hress og skemmtilegur og engin lognmolla í kringum þig. Það var ekki til það við bíla og vélar sem þú vissir ekki um og allt þurftirðu að prófa og oft dróguð þið bræður hina ýmsu parta úr hjólum eða öðru og ætluðuð ykkur að smíða nýtt farartæki. Óskar Björn sonur minn saknar þín sárt núna, þið voruð einhvern veginn á sömu bylgjulengd, enda vélakallar hinir mestu, komust alveg á flug í umræðum um bíla og tæki, maður brosti nú oft í laumi þegar þið voruð að metast um hvor væri nú klárari og vissi meira en alltaf var þetta í góðu, þið virtuð hvor annan.

Ég man góða sögu sem Reynir afi þinn sagði okkur af þér, hann og amma voru komin norður í heimsókn og höfðu fært ykkur strákunum litla bíla, eftir einhverja stund kíkti hann út á ykkur og voruð þið þá, undir sterkri leiðsögn stóra bróður, að kanna styrkleika bílanna með því að láta stóra steina dúndra ofan á þá, grey bílarnir stóðust ekki álagið, en mikið fannst ykkur þetta gaman, eða þegar ég gaf ykkur fjarstýrða bíla í jólagjöf og kom svo að ykkur þar sem þú stóðst á báðum bílunum og Birkir og þú reynduð að keyra þá áfram og Reynir sat og horfði á, en mér tókst að stöðva ykkur áður en illa fór. Já, það var ýmislegt brallað.

Þú lifðir hratt og gerðir mikið á fáum árum, nú skil ég hvers vegna, þú hafðir minni tíma heldur en við hin hér á jörðinni. Sorg Agnesar, foreldra þinna, bræðra, afa og ömmu er mikil, við hin sem stöndum þér nærri, lofum því að gera allt okkar til að styðja þau í sorg sinni. Með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig, elsku vinur, og ég veit að afi og amma í Álftamýri hafa örugglega tekið vel á móti þér. Við Ásdís, börnin okkar og tengdabörn biðjum þér allrar blessunar og megi tíminn milda sár okkar sem eftir lifum.

Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,

sem ung á morgni lífsins staðar nemur,

og eilíflega, óháð því, sem kemur,

í æsku sinnar tignu fegurð lifir?

(Tómas Guðmundsson.)

Guð geymi þig, elsku vinur.

Þinn móðurbróðir,

Bjarni Ómar.

Hinn 5. mars síðastliðnum bárust okkur þær harmafregnir að Mummi okkar er farinn. Við fréttum af þessu hörmulega slysi. Tíminn stóð í stað og við ætluðum ekki að trúa þessu, því hann svo ungur og líflegur strákur.

Við Mummi ólumst upp sem bræður og áttum við margar góðar og skemmtilegar stundir saman og meðan ég sit hér og skrifa rifjast upp margar góðar minningar sem ég mun aldrei gleyma.

Mummi var óttalegur prakkari og valt oft margt skemmtilegt upp úr honum, sögur og annað margt skemmtilegt.

Síðast þegar við sáum Mumma kom hann ásamt Agnesi með litla guttann til okkar á Egilsstaði og áttu þau með okkur ánægjulegar stundir yfir jólin. Við munum ávallt vera mjög þakklát fyrir að fá þessa stund, þennan dýrmæta tíma með honum.

Elsku Mummi, minningarnar munum við varðveita vel og við munum ávallt sakna þín.

Elsku Agnes, Mikael og Auðunn Ingi og aðrir í fjölskyldunni sem um sárt eiga að binda vegna þessa hræðilega slyss, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

María frænka hans vill koma fram þakklæti fyrir allar góðu stundirnar sem hún og Mummi áttu saman heima hjá ömmu og afa.

Hvíl í friði elsku Mummi frændi

Þórir, Þorbjörg, María,

Ástrós og Arnar.

Ohh... ég skil ekki hvað hann þarna uppi ætlar okkur öllum, ég veit að ég þarf ekki að skilja það. Aðeins að treysta að Guð muni sjá um okkur. Hann virðist samt alltaf velja besta fólkið til að koma til sín og Mummi - þú ert sannarlega einn sá besti sem hann velur til að koma, ætli hann þurfi ekki að láta moka hjá sér? Ég veit hinsvegar að ég sakna þín og það er mjög tómlegt hérna án þín. Ég var svo glaður er þú fluttir aftur norður og þá til Akureyrar með Agnesi og Mikael, elskunum þínum. Þá gætum við verið meira saman og það gerðum við og málið snerist um tölvur eða snjósleða, meira um sleða hjá þér, enda vélknúin tæki alltaf í þínu uppáhaldi, gröfur, hjól, bílar og sleðar. Ég man þegar ég keypti skellinöðruna af þér, við vorum alltaf að grúska eitthvað saman þegar við hittumst, stundum það sem við máttum eða máttum ekki. Það var alltaf gaman.

Ég reyni að muna hvenær ég var í fúlu skapi með þér en man ekkert einasta skipti. Þú hefur þennan sjaldgæfa hæfileika til að gleðja mann og þarft ekki einu sinni að reyna það, bara nóg að þú talir þú kemur svo skemmtilegu orði á hlutina og lýsingarnar eru engu líkar, Mummi, ég vil þakka þér fyrir allar stundirnar okkar saman og allt sem þú gafst og kenndir mér.

Takk fyrir að vera ennþá til staðar í hjarta mínu og þar mun ég geyma þig því þar munt þú lifa þangað til að við hittumst aftur á betri stað.

Þú ert engillinn minn á himnum núna og bið ég til þín um styrk fyrir Agnesi, Mikael og Auðun, foreldra þína og bræður Birki og Reyni, ömmur og afa, frænkur og frændur sem hafa misst meistara úr lífi sínu. Guð verndi ykkur öll

Sigurður Óli.

Elsku Mummi minn, að setjast niður og skrifa kveðjuorðin til þín er svo skrýtið og óraunverulegt að engin orð fá því lýst.

Það var haustið '95 að við kynntumst þar sem við gengum saman í 10. bekk í Dalvíkurskóla.

Þetta byrjaði allt með því að við lentum saman í að sjá um skólasjoppuna og þar sem ég var ný í skólanum kveið ég yfirleitt frekar mikið fyrir þessum sjoppustundum með þér þar sem þú varst mjög stríðinn og leiddist það greinilega ekki að sjá hve langt þú kæmist áður en ég yrði brjáluð. Málin þróuðust smám saman og 24. jan. '96 vorum við orðin par. Næstu þrjú árin liðu og vorum við meira og minna sundur og saman bæði á Dalvík, í Grímsey og í Reykjavíkinni. Þeir sem umgengust okkur á þessum tíma geta nú eflaust verið sammála mér um það að við vorum nú einstakir snillingar í að reyna á þolrif hvort annars með ýmsu móti og áttum við jafnvel heimsmet í því, en eitthvað gerði það að verkum að erfitt var að slíta þráðinn alveg.

Að segja það að þú hafir ekki átt þér neinn líkan er sko ekki orðum aukið. Það var alltaf allt á fullu hjá þér og hlutirnir áttu helst að gerast í gær því svo margt var oft að gerast hjá þér. Margar þær hugmyndir sem fæddust hjá þér og þú framkvæmdir voru eitthvað sem engum öðrum hefði dottið í hug.

Þú varst án efa hress og skemmtilegur strákur sem komst alltaf til dyranna eins og þú varst klæddur, aldrei nein tilgerð í kringum þig. Þú varst skemmtilega orðheppinn, sem gerði það að verkum að erfitt var að halda uppi leiðindum við þig og sérstaklega ef einhverjir voru nálægt til að hlæja að svörum þínum. Þá espaðist þú allur upp og áttir erfitt með að hætta því fátt vissir þú skemmtilegra en að láta hlæja að bröndurum þínum. Og veistu, Mummi, eftir þessar hræðilegu fréttir af fráfalli þínu eru vinir mínir og fjöskylda búin að vera dugleg að hringja í mig. Þegar ég hugsa um þessi samtöl þá eiga þau það öll sameiginlegt að allir eiga einhverja skemmtilega minningu um þig og í gegnum tárin er mikið búið að hlæja að gerðum þínum og tilsvörum í gegnum tíðina. Manstu til dæmis þegar ég var nýkomin með bílpróf og amma þín og afi lánuðu okkur litla Twingoinn til að fara í bíó. Við vorum að koma til baka niður hálsinn hjá Dalvík, þá varst þú nú alveg kominn með nóg af þessum keyrslumáta hjá mér og þú hentist því með höndina niður á bensíngjöfina og hættir ekki fyrr en mælirinn var kominn vel yfir leyfilegan hraða. Ég var svo hrædd og óörugg að ég sat bara og öskraði og þorði varla að depla augunum úr hræðslu. En þér, Mummi, var nú bara skemmt við þetta og sagðir að þetta væri nú bara byrjunin í að herða mig aðeins upp.

En svona mætti nú lengi upp telja skemmtilegar sögur af þér, en einhvers staðar verð ég að hætta og nú er sennilega kominn tími til að kveðja. En fyrst vil ég fá að þakka fyrir þann vinskap sem við áttum og síðasta samtalið sem við áttum saman. Þú varst svo glaður og þurftir svo mikið að segja mér hvað líf þitt var orðið gott, þú varst svo ánægður með hana Agnesi þína og sagðir mér að þú ættir sko tvo fallegustu stráka í heiminum sem ég yrði nú bara að fara að sjá. En Mummi minn, hér kveð ég þig með söknuð í hjarta og bið Guð og góðar vættir að taka vel á móti þér á nýja staðnum.

Einnig bið ég góðan Guð að blessa og styrkja allt fólkið þitt og alla þá sem eiga um sárt að binda vegna fráfall þíns.

Guð geymi þig, Mummi minn.

Hittumst aftur.

Þín vinkona

Helga Fríður Garðarsdóttir.