Ragnheiður Björnsdóttir fæddist 25. júlí 1933 á Vötnum í Ölfusi. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 2. mars síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðný Gísladóttir, f. 4. ágúst 1890, d. 24.3. 1984, og Björn Sigurðsson, f. 26.10. 1900, d. 13.4. 1978, bændur á Vötnum í Ölfusi. Systkini Ragnheiðar voru Aldís, f. 7.7. 1928, og Eyjólfur, f. 1.9. 1930.

Hinn 26. desember 1965 giftist Ragnheiður eftirlifandi eiginmanni sínum, Hilmari Andréssyni, f. 1.9. 1933. Foreldrar hans voru Úlfhildur Hannesdóttir, f. 3.12. 1897, d. 4.3. 1982, og Andrés Jónsson, f. 18.10. 1896, d. 21.11. 1978. Fyrir hjónaband átti Ragnheiður börnin 1) Guðnýju Sólveigu Sigurðardóttur, f. 27.3. 1952. Sambýlismaður hennar er Óðinn Kalevi Andersen, f. 28.3. 1960. Synir hennar eru: a) Ragnar Heiðar Sigtryggsson, f. 21.1. 1974, kvæntur Aðalbjörgu Valdimarsdóttur, f. 12.4. 1973. Synir þeirra eru Gísli, f. 6.12. 1999, og Pálmi, f. 30.8. 2002. 2) Gísli Heiðberg Stefánsson, f. 2.3. 1958. Með Hilmari átti Ragnheiður börnin 3) Björn Heiðberg, f. 26.7. 1965, kvæntur Brynju Sverrisdóttur, f. 16.6. 1970. Þeirra synir eru a) Hilmar Freyr, f. 28.4. 1987, og Sverrir Leó, f. 4.8. 1996. 4) Úlfhildi Jónu, f. 2.3. 1967, sambýlismaður hennar er Ástgeir Ástgeirsson, f. 20.1. 1970. Börn Úlfhildar af fyrra hjónabandi eru Andrea Pálmadóttir, f. 9.6. 1985, og Eyþór Pálmason, f. 10.11. 1985. 5) Kolbrúnu Hilmarsdóttur, f. 1.4. 1968, gift Magnúsi Gíslasyni, f. 31.3. 1963. Börn þeirra eru a) Guðrún Heiða, f. 4.2. 1989, b) Ragnheiður Sif, f. 2.10. 1994, c) Gísli Magnússon, f. 23.8. 1996, d) Andrea Karen, f. 24.7. 2002, e) Óskírð Magnúsdóttir, f. 19.1. 2004.

Ragnheiður ólst upp á Vötnum í Ölfusi. Hún fluttist í Smiðshús á Eyrarbakka þegar hún kynntist eiginmanni sínum og bjuggu þau þar öll sín hjúskaparár. Ragnheiður vann lengst af við fiskvinnslustörf ásamt því að stunda búskap með manni sínum.

Útför Ragnheiðar verður gerð frá Eyrarbakkakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Ragnheiður, nú skilur leiðir en einungis um stund.

Er sárasta sorg okkur mætir,

og söknuður huga vorn grætir,

þá líður sem leiftur úr skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(Hallgr. J. Hallgr.)

Hvíl þú í friði.

Hilmar Andrésson.

Elsku besta mamma, þakka þér fyrir þá ást og umhyggju sem þú sýndir okkur í gegnum árin. Það var gott að eiga styrka stoð til að halla sér að en nú hefur þú kvatt þennan heim og látið undan baráttunni við veikindin.

Af eilífðar ljósi bjarma ber,

sem brautina þungu greiðir.

Vort líf, sem svo stutt og stopult er,

það stefnir á æðri leiðir.

Og upphiminn fegri´ en augu sér

Mót öllum oss faðminn breiðir.

(Einar Ben.)

Minningarnar munum við geyma í hjörtum okkar alla tíð.

Kolbrún, Magnús og börn.

Elsku mamma, við munum seint gleyma öllum þeim yndislegum stundum sem við áttum í Smiðshúsum. Það hafa verið forréttindi að fá að búa með þér öll þessi ár.

Í gegnum árin höfum við getað stólað á að þú værir til staðar að aðstoða okkur í daglegu amstri. Það mæddi oft mikið á þér en aldrei tölduð þið pabbi eftir ykkur að gæta strákanna eða aðstoða okkur. Þín er sárt saknað.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum

lífsins degi,hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem

gleymist eigi,og gæfan var það öllum, er fengu að

kynnast þér.(Ingibjörg Sig.)

Minning þín er ljós sem lifir í hjarta okkar.

Björn og Brynja.

Gefðu mér gullin í svefni,

gættu að óskum og þrám,

minntu á máttinn í sálu,

minning er fegurri en tár.

(Sigm. Ernir Rúnarsson.)

Blessuð sé minning þín, elsku amma.

Guðrún Heiða.

Elsku amma mín, nú ert þú látin og ég sakna þín.

Ég vil að þér líði vel hjá guði og að hann verði góður við þig

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Bless, elsku amma mín.

Sverrir Leó.

Kynni okkar Ragnheiðar hófust er hún giftist Hilmari bróður mínum og þau hófu búskap í Smiðshúsum með tengdaforeldrum hennar. Þau bjuggu á efri hæðinni en foreldrarnir niðri. Hún var fljót að samlagast þessu heimili, þar sem bæði voru kýr, kindur og fleiri húsdýr enda hún sjálf alin upp í sveit, á Vötnum í Ölfusi.

Þau eignuðust fljótlega þrjú myndarleg börn, Björn, Úlfhildi og Kolbrúnu. Þau urðu strax hænd að afa sínum og ömmu. Afi og amma voru alltaf til staðar þegar ungu hjónin voru að vinna úti. Það var sameiginlega borðað og drukkið niðri, og alltaf einhver heima er komið var úr skóla eða leik. Og þau voru einkar handgengin þeim og góð. Ragnheiður var hörkuduleg kona og gekk í hvaða verk sem var, og þar var aldrei neitt vol eða væl þar sem hún var, alltaf hress og smitaði frá sér vinnugleði og húmor. Hún virtist oftar hafa meiri ánægju af heyskap, fiskvinnslu eða vera með hesta og kindur en vera inni í bæ. Hún var einstaklega lagin við lömbin og að koma þeim á lappirnar þegar sauðburður var í hámarki, og natin við allar skepnur. Hún keyrði bíl, traktor, rakstrar- og snúningsvélar eftir því sem með þurfti og gaf þar karlmönnum ekkert eftir nema síður væri. Hún var ekki að ergja sig út af smámunum, þeir voru bara til að yfirstíga og gera gott úr öllu með sinni léttu lund. Hún vann í tugi ára hjá sama fyrirtækinu sem þeir bræður Bjarni og Jóhann Jóhannssynir áttu og ráku á Eyrarbakka. Og hún bar þeim sérlega gott orð og þakkaði oft fyrir það hvað þeir hefðu komið vel fram við hana öll þessi ár sem hún vann hjá þeim fram undir seinustu ár er hún hætti sökum þess að heilsan var farin að gefa sig. Hún stóð fast á sínu þegar þess þurfti með, vildi réttlæti og jöfnuð sem mestan, en gaf lítið fyrir stjórnmál og stjórnmálamenn, sagði sama rassinn undir þeim öllum þegar til ætti að taka. Ragnheiður átti tvö börn fyrir er hún kom í Smiðshús, þau Gísla og Guðnýju, en þau ólust upp hjá afa og ömmu á Vötnum, héldu alltaf mjög góðu sambandi við móður sína og þau öll í Smiðshúsum. Þau fóru út að Vötnum og hjálpuðu þar við heyskap og slögtun, einnig var farið austur í Landeyjar þar sem Gísli býr ásamt móðursystur sinni Aldísi sem er komin nokkuð á aldur og heilsa hennar ekki of góð. Sem ungur drengur var ég tvö sumur á bænum Þúfu sem er næsti bær við Vötn og þar bjuggu þá afi og amma Ragnheiðar, þau Sigurður Eyjólfsson og Ragnheiður Björnsdóttir, stóru og vel stæðu búi. Og ég man það alltaf hvað nafna hennar var einstaklega góð og hlý kona. Í Smiðshúsum var nokkur búskapur er hún kom þar, 12 kýr og nokkuð af kindum. Allt þetta kallaði á mikla aukavinnu og það var ekki komið að tómum kofunum þar sem hún lagði hönd að verki. Hún fylgdist vel með því sem var að gerast í þorpinu, gaman og gott að geta talað við hana og fengið fréttir af því hvernig lífið gengi á bernskuslóðunum. Hvernig kunningjarnir hefðu það, hverjir væru burtu fluttir og hverjir komnir í staðinn og í hvaða hús og svo framvegis. Hún var á nokkuð fjölmennum vinnustað og átti þar marga vini og kunningja og þar var margt rætt og spjallað. Þó hún sjálf tæki ekki mikinn þátt í lífshlaupinu þarna þá var alltaf hægt að fá fréttir hjá henni. Og það var nú svo með okkur hjónin að í hvert sinn er við fórum í sumarfrí eða annað upp á fastalandið, þá var alltaf komið við og gist í Smiðshúsum og notið þar hlýju og góðgerða. Þar var alltaf mikið af fólki, börn og fullorðnir svo manni fannst stundum nóg um, en það var ekki svo hjá þeim, þau vildu hafa fólk í kringum sig og það hentaði báðum fjölskyldunum og þessi siður hefur haldist þar enn. Og það kom upp sama munstrið og áður því nú búa þau Björn og Brynja uppi á efri hæðinni og þau Ragnheiður og Hilmar flutt niður. Ég veit að söknuðurinn er mikill og amma horfin úr eldhúsinu þar sem hún var ávallt tilbúin að sinna þeim og hjálpa.

Ragnheiður var alla tíð sérlega hraust þar til tvö seinustu árin er hún veiktist og leiddi að síðustu snöggt til dauða. Það er ekki langt síðan að ég talaði við hana í síma og lá þá nokkuð vel á henni og alltaf jafn bjartsýn um að þetta væri nú heldur í betri áttina, en því miður var svo ekki. Við höfum nokkur síðustu árin alltaf haft samband vikulega og getað fylgst með því hvernig gengi á Bakkanum.

Við hjónin þökkum ánægjulega samfylgd og einlæga vináttu gegnum árin og vitum að hún fær góða heimkomu. Hilmar á sérstaka þökk fyrir það hvað hann hugsaði vel um hana og hjálpaði til hinstu stundar. Honum, börnum þeirra, ættingjum og vinum sendum við bestu kveðjur og vottum þeim samúð okkar.

Dóra og Sigmundur Andrésson.