Halldór Jónasson fæddist á Akranesi 26. nóvember 1943. Hann andaðist á St. Franciskusspítala Stykkishólms 3. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Clara Jenný Sigurðardóttir, f. 20. ágúst 1920 á Melum í Árneshr. Str., d. 22. desember 2000, og Jónas Halldórsson, f. 30. júní 1921 í Bolungarvík, d. 16. október 2001. Systkini Halldórs eru María Jenný, f. 1. nóvember 1945, Sigurður, f. 2. mars 1953 og Jónas, f. 7. maí 1961.

Hinn 27. apríl 1968 kvæntist Halldór eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigríði Theodóru Pétursdóttur, f. 25. júlí 1945, í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Jóna Karólína Breiðfjörð Kristinsdóttir, f. 8. mars 1923 og Pétur Guðmundur Jóhannsson, f. 7. október 1917, d. 16. október 1999.

Kjörsonur Halldórs, sonur Sigríðar, er Eggert Bergmann, f. 30. júní 1965. Hann á tvö börn. Saman eiga þau svo þrjú börn: 1) Þórir, f. 9. febrúar 1968. Sambýliskona hans er Ann Linda Denner, f. 7. ágúst 1968 og eiga þau einn son. 2) Erla, f. 7. janúar 1975. Sambýlismaður hennar er Ívar Sigurður Kristinsson, f. 20. júní 1974 og eiga þau tvær dætur. 3) Gyða Stefanía, f. 16. nóvember 1977. Sambýlismaður hennar er Hafliði Ingason, f. 10. ágúst 1974 og eiga þau eina dóttur.

Þau Halldór og Sigríður stofnuðu heimili sitt í Stykkishólmi 1966 og hafa búið þar og starfað æ síðan. Lengst af var Halldór útgerðarstjóri Þórsness.

Útför Halldórs verður gerð frá Stykkishólmskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku Dóri afi, ég sakna þín.

Ég er að hugsa um jólin þegar ég opnaði pakka með þér, bæði síðustu jól í Hólminum og jólin þar áður þegar þú komst til mín. Alltaf last þú á pakkana.

Ég er að hugsa um skiptin þegar við borðuðum saman.

Kveðja, þín

Sara.

Ég veit að enginn fær umflúið dauðann, en sjaldnast er maður sáttur þegar hann ber að garði svona nærri manni.

Halldór Jónasson, í dag kveð ég þig, elskulegan bróður minn. Ég sit hnípin eftir og með söknuði rifjast upp fyrir mér minningar æskuára okkar á Siglufirði. Þú varst tveimur árum eldri en ég og því kom það í þinn hlut að gæta mín, litlu systur þinnar, á meðan fullorðna fólkið sinnti daglegum störfum sínum. Á þessum árum var síldin í algleymingi og iðandi mannlíf um allan bæ. Ég fylgdi þér eftir eins og skuggi og tók þátt í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Ég tók þátt í leikjum þínum og lék mér við félaga þína og fékk jafnvel á mig orð um að vera strákastelpa. Á sumrin sóttum við mest í að dorga niðri á bryggju, þrátt fyrir að það væri illa séð af fullorðna fólkinu, en á veturna sóttum við í brekkurnar fyrir ofan bæ og renndum okkur á skíðunum sem pabbi smíðaði fyrir okkur. Þegar við svo komum heim að loknum leik og tókum af okkur óhreina gallann, þá var ég alltaf vön að skilja hann eftir þar sem ég fór úr honum víðsvegar um hús. Og ekki brást þú mér út af þeim vana sem þú tileinkaðir þér. Þú gekkst á eftir mér og hirtir leppana upp eftir mig og gekkst tilhlýðilega frá mínum föggum eins og þínum. Þannig varst þú, hirðusamur og skipulagður í hvívetna. Þessi mynd er mér svo skýr og í huga mér mun ég ávallt varðveita hana.

Mér þykir sárt að kveðja þig hér, en þú munt lifa áfram í hjarta mínu um ókomna tíma.

Megi Guð styrkja konu þína, börnin ykkar og fjölskyldur þeirra.

María Jenný.

Lítill drengur hljóp eftir Aðalgötunni á Siglufirði og vakti athygli hóps myndatökumanna frá Svíþjóð sem þar var staddur einhverra erinda. Hann var svo ótrúlega lítill, aðeins 9 mánaða gamall og farinn að hlaupa um allt. Þetta var Halldór frændi, elsti sonur móðursystur minnar og barnabarn og nafni læknisins á staðnum, svona einstaklega kraftmikill strákur. Þeir mynduðu hann í bak og fyrir svo kannski er 60 ára gömul upptaka í leynum einhvers staðar í Svíaveldi. Þessa sögu sagði móðir mín mér fyrir margt löngu.

Ég man hvað ég var hreykin af þessum fallega frænda mínum þegar ég dvaldi 15 ára gömul hjá honum og Siggu konu hans í Stykkishólmi þeirra erinda að passa strákana þeirra, Eggert og Þóri. Halldór aðeins 26 ára en passaði vel upp á táninginn frænku sína.

Eitt sinn fékk ég að fara í partí en aðeins vegna þess að það var í sama húsi og þau bjuggu í, Norska húsinu sem er núna safn, og aðeins þunnur veggur á milli. En frændi var kominn að sækja skvísuna innan klukkutíma, hefur eflaust fundist of mikill hávaði og ekki alveg treyst minni. Annað atvik er mér minnisstætt. Þá langaði mig á ball. Allir krakkarnir máttu fara. Á sveitaball. En Halldór sagði þvert nei. Það væru alltaf brjáluð slagsmál á þessum sveitaböllum, Hólmarar, Grundarar og Ólsarar að berast á banaspjótum. Það tók mig Norðlendinginn mánuð að átta mig á að hann var að tala um íbúana í Stykkishólmi, Grundarfirði og Ólafsvík en ekki einhverjar ættir. Auðvitað hafði hann rétt fyrir sér, þarna logaði allt í slagsmálum. Ekki skorti hann ábyrgðarkenndina þótt ungur væri.

En ég minnist þessa sumars með mikilli gleði, ég held að það hafi verið sól allan tímann, svo vel leið mér hjá Halldóri og Siggu. Oft sátum við Sigga á kvöldin að bródera eins og gamlar konur. Ég tek á hverjum jólum fram jólalöberinn sem Sigga gaf mér og ég saumaði þetta sumar.

Elsku Sigga, börn, tengdabörn og barnabörn, því miður verðum við systur erlendis þegar Halldór er jarðsettur. Við sendum innilegar samúðarkveðjur. Guð geymi Halldór frænda.

Hinsta kveðja.

Klara (Didda) Sigurðardóttir.

Halldór Jónasson í Þórsnesi, eins og hann var jafnan kenndur við, er fallinn frá langt um aldur fram. Ég kynntist Halldóri vel og þekkti mannkosti hans. Fyrstu kynni okkar Halldórs urðu er hann varð náinn samstarfsmaður minn og starfaði sem skrifstofustjóri hjá Stykkkishólmshreppi. Síðar varð hann umsvifamikill atvinnurekandi eftir að hann tók við sem framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Þórsness í Stykkishólmi þar sem hann starfaði til dauðadags. Ég kannaðist við Halldór áður af afrekum hans í íþróttum á héraðsmótum HSH á Snæfellsnesi. Það leyndi sér ekki á íþróttavellinum að hann var mannkostamaður og í raun afreksmaður í íþróttum sem sýndi með framgöngu sinni að þar fór drengur góður sem lagði sig allan fram við hvert það viðfangsefni sem hann tókst á hendur. Þegar leiðir okkar lágu saman síðar á skrifstofu Stykkishólmshrepps kynntist ég nákvæmnismanninum töluglögga sem lifði sig af áhuga inn í veröld reiknisskila og skipulegra vinnubragða við fjármálstjórn. Halldór naut þess að fást við bókhald og setti sig vel inn í allt er varðaði reiknisskil sveitarfélaga. Hann tók því sem keppnismaður þegar ákveðið var að umturna bókhaldi sveitarfélagsins og taka upp samræmd reiknisskil sem þá var verið að innleiða hjá sveitarfélögunum. Halldór hafði metnað fyrir samfélagið og tók þátt í því ævintýri sem ungir ofurhugar í sveitarstjórnarmálum tókust á við á áttunda áratugnum í Stykkishólmi. Sá hópur var hvattur áfram af öflugu stuðningsmannaliði sem trúði á framtíð bæjarfélagsins. Það var mikil vissa um að efla mætti samfélagið sem byggði á gömlum merg en hafði verið slegið doða um hríð. Á þeirri hraðferð var ekki ónýtt að hafa traustan mann við skrifstofuhaldið.

Eftir að Halldór tók við stjórnartaumum í útgerð og fiskvinnslu Þórsness hf. gekk hann inn í nýja veröld þess harða heims að reka fyrirtæki sem miklar kröfur eru gerðar til í litlu samfélagi. Það starf Halldórs var farsælt. Þegar ég lít yfir vegferð þeirra Þórsnessmanna verður mér ljóst hversu mikil gæfa það var atvinnulífi staðarins og eigendum Þórsnessins að Halldór skyldi söðla um og takast á við það með félögum sínum að byggja upp útgerðarfélagið sem hann sem ungur maður hafði veðjað á og gerst hluthafi. Á þeim tíma var útgerðin áhætturekstur sem ekki var auðvelt að fá fjármagnseigendur til að fjárfesta í. Með varfærni og hyggindum hefur Þórsnesi hf. verið stýrt um brim og boða í þá farsælu höfn sem fyrirtækið hefur verið í hin síðari ár þrátt fyrir margháttuð áföll sem útgerðin við Breiðafjörð hefur orðið fyrir, ekki síst þau fyrirtæki sem veðjuðu á veiðar og vinnslu hörpudisksins. Veikindi Halldórs settu mikið mark á framgöngu hans síðustu misserin og fá tækifæri gáfust til þess að spjalla saman eins og við gerðum jafnan þegar styttra var á milli okkar.

Um leið og ég minnist góðs vinar og samstarfsmanns með þakklæti og virðingu sendi ég fjölskyldu Halldórs samúðarkveðjur.

Sturla Böðvarsson.

Látinn er í Stykkishólmi Halldór Jónasson, framkvæmdastjóri Þórsness ehf., eftir erfiða baráttu við illvígan sjúkdóm. Við hjónin viljum með nokkrum orðum minnast hans.

Samstarf mitt og Halldórs stóð í nær 20 ár en hans og Guðnýjar öllu lengur. Í hugann kemur upp langur vinnudagur því þá voru alvöru vertíðir, mikill fiskur og bátar oft seint í landi. Mikið um vökur fram eftir nóttum. Halldór fylgdist vel með öllum þáttum, bæði veiðum og vinnslu. Allan þann tíma sem við unnum saman bar aldrei skugga á samstarfið. Þar var ekki æsingur eða stóryrði og aldrei heyrði ég Halldór hallmæla nokkrum manni og það sem hann lofaði var staðið við.

Ég segi það fyrir hönd okkar beggja að betri yfirmann er vart hægt að hugsa sér.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höfundur ók.)

Við Guðný kveðjum Halldór Jónasson með söknuði og sendum Siggu, börnum og öðrum ættingjum innilegar samúðarkveðjur.

Steinar.

Þó að fregnin um andlát Dóra hafi ekki komið á óvart bregður manni alltaf illa við þegar slík högg koma. Ósjálfrátt, næstu daga, rifjast upp margar minningar, úr leik og starfi, sem tengjast þessum dagsfarsprúða manni og góðum vini og félaga. Dóri, sem aldrei tranaði sér fram og sýndi í samskiptum við alla hlýtt viðmót og fágaða framkomu, var vinsæll af félögum og samstarfsmönnum. Fljótlega eftir að hann kom í Stykkishólm tókst með okkur vinátta gegnum íþróttir, fótbolta og körfubolta, og saman lékum við í liði Snæfells, sem fetaði sín fyrstu spor á Íslandsmóti í körfu fyrir knöppum fjórum áratugum. Mörg korn eru runnin í stundaglasið síðan og þá bjuggju menn við frumstæðar aðstæður, en litla íþróttahúsið dugði vel og allir þrír boltarnir sem Snæfell átti að ógleymdum gamla vellinum, Wembley, öllum í bylgjum, þar sem sprett var úr spori á sumrin. En Dóri var einnig afburða frjálsíþróttamaður og keppti m. a. í hástökki á landsmótum og stóð sig ávallt með prýði, því samhliða líkamlegu atgervi hafði hann mikið keppnisskap og var einbeittur og viljasterkur, sem nýttist vel í einstaklingsgreinum. En leiðir okkar áttu, sem betur fer, eftir að liggja víðar saman í Hólminum. Árið 1972 stofnuðum við bókhaldsfyrirtæki sem við rákum saman í 15 ár, seinustu árin í samvinnu við annan. Fyrstu árin unnum við tveir við fyrirtækið, og þá bara í frítímum, og voru allar helgar og hátíðisdagar nýttir. Oft voru miklar tarnir teknar og kynntist ég þá hve afkastamikill og vandvirkur bókhaldsmaður Dóri var. Hann var alla tíð mjög töluglöggur og fljótur að átta sig á hlutunum og einstök reglusemi og snyrtimennska voru honum í blóð borin og vitnuðu um störf hans og dagfar. En ekki er síður kært að minnast þess hve ánægjulegt og gott var að eiga hann að samstarfsmanni og meðeiganda, aldrei kom til árekstra eða misklíðar okkar í milli, þótt hvorugur væri skaplaus, gagnkvæmt traust og vinátta sat í fyrirrúmi.

Dóri starfaði um tíma á skrifstofu Stykkishólmshrepps og var þar m. a. staðgengill sveitarstjóra. Hann var vel liðinn á þeim vettvangi en margir þurftu að eiga við hann samskipti eins og gengur. Fyrstu árin mín í hreppsnefnd miðlaði hann mér af reynslu sinni og var það veganesti mikils virði.

Dóri tengdist Þórsnesi hf. mjög snemma og byrjaði að færa bókhald þess fyrirtækis fljótlega eftir að hann kom í Hólminn. Honum var þá þegar umhugað um rekstur Þórsnessins, þess vegna kom það ekki á óvart er hann var ráðinn þar í fullt starf sem skrifstofumaður og síðar sem framkvæmdastjóri. Og svo samofinn var hann fyrirtækinu að hann var oft kenndur við það, Halldór í Þórsnesi. Ég veit af mörgum samtölum okkar, sumum löngum, hve ábyrgðartilfinning hans var mikil gagnvart fyrirtækinu og velferð þess og starfsfólksins. Í útgerð og fiskvinnslu skiptast ávallt á skin og skúrir og oft hefur blásið á móti og reynt á stjórnandann og ég er viss um að eðlislag Dóra, yfirvegun og æðruleysi, hefur oft hjálpað að svo vel tókst til sem raun ber vitni. Einnig var hann prinsippmaður, vildi hafa alla hluti á hreinu og standa í skilum. Þegar hrun hörpudisksstofnins í Breiðafirði var orðin staðreynd var ljóst að Stykkishólmur fengi mikinn skell og stór hætta yrði á alvarlegu bakslagi í atvinnulífi og íbúaþróun. Dóra var mikið niðri fyrir um þessi mál enda framtíð okkar allra háð því hvernig okkur tækist að setja mál okkar fram við stjórnvöld. Hann hafði ákveðnar skoðanir í þessu máli og stóð fastur á sínu og með samstilltu átaki margra tókst nokkuð farsællega að lenda þessum málum og ég vissi að vini mínum létti mikið þegar niðurstaða var fengin. Þarna eyddi hann sínum síðustu kröftum.

Á kveðjustund vil ég þakka Dóra ánægjulega samfylgd í Hólminum alla tryggð og vináttu. Þegar Dóri, innfæddur Reykvíkingurinn, kom til starfa í Kaupfélagi Stykkishólms fyrir um fjörutíu árum grunar mig að hann hafi ekki hugsað sér að gera langan stans, enda tækifærin í þéttbýlinu syðra mörg fyrir hæfan og vel menntaðan mann. En reyndin átti eftir að verða önnur. Hann kunni strax mjög vel við sig í Hólminum og batt við hann órofa tryggð og eftir að þau Sigga stofnuðu heimili hér var aldrei spurning hvar skyldi lifað, starfað og dáið og Stykkishólmur eignaðist í Halldóri Jónassyni einn sinn besta son.

Kæra Sigga og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur, megi minningin um góðan dreng styrkja ykkur í sorginni.

Ellert.

Hann hefir nú lokið hérvistarskeiði sínu og það með sóma. Það voru engin læti í kringum hann, en vinátta hans var trygg og varanleg. Öll sín störf innti hann af höndum með sérstakri árvekni og samviskusemi og loforð þau sem hann gaf stóðu.

Þannig er hann í huga mínum og ásamt fleirum sakna ég hans. Ég veit líka að starfsfélagar hans finna hversu sæti hans verður vandskipað.

Hann lét ekki mikið á sér bera, en var þá því meiri vinur vina sinna og alltaf var hann hress og ljúfur þegar ég mætti honum á vegi eða við starf.

Ég kynntist honum fljótt eftir að hann kom til Stykkishólms fyrir 40 árum. Fann strax að þarna var traustur maður á ferð, sem myndi vinna Stykkishólmi gagn og það fundu fleiri. Enda kom það á daginn. Stykkishólmi vann hann af alúð. Ég vil því minnast góðs drengs í þessum fáu línum með þakklæti fyrir hlý handtök og alúðlegt viðmót, hvenær sem leiðir okkar lágu saman.

Góður guð blessi hann og verndi og styrki fjölskyldu hans.

Árni Helgason, Stykkishólmi.

Við bekkjarsystkinin, sem brautskráðumst frá Samvinnuskólanum að Bifröst vorið 1963, sjáum nú á bak enn einum bekkjarfélaga okkar Halldóri Jónassyni.

Í svo litlu skólasamfélagi, þar sem allir þurftu að vinna saman, mynduðust náin tengsl milli allra nemenda, sem höfðu sig mismikið í frammi. Margt var brallað á þessum árum, mjög sterkt félagslíf þjappaði hópnum saman og úr varð ein stór fjölskylda nemenda og kennara.

Halldór, þessi prúði og hægláti drengur, setti talsvert mark á það fjölbreytta starf sem skólalífið hafði í boði. Á þessum árum var kennari á Bifröst sjálf ólympíustjarnan Vilhjálmur Einarsson og hafði hann umsjón með útivist og tómstundastarfi nemenda. Meðal annars kom hann á innanhússmótum í alls kyns stökkgreinum og fóru þau fram að hluta til á göngum skólans, því atrennu þurfti til þeirra, en litli íþróttasalurinn nægði ekki. Halldór var svo sannarlega stolt okkar bekkjarfélaganna, því hann stóð Vilhjálmi fyllilega á sporði í nokkrum greinum og skiptust þeir gjarnan á vinningum, nema kannske þrístökkinu þar sem silfurhafinn hafði vinninginn. Þessi mót voru ótrúlega spennandi og við fylltumst aðdáun á afrekum Halldórs.

Að námi loknu hélt þessi stóri hópur út í atvinnulífið og hver hélt sína leið.

Tengslin rofnuðu, sérstaklega við þá sem fóru til starfa á landsbyggðinni.

Samskipti okkar Halldórs eftir að námi lauk urðu ekki mikil, en þó átti ég þess kost að heimsækja hann nokkrum sinnum í Hólminn og voru það ávallt ánægjustundir.

Við kveðjum góðan bekkjarfélaga og sendum ástvinum innilegustu samúðarkveðjur. Minningin lifir um góðan dreng.

Gylfi Gunnarsson.