Jón Jónasson fæddist á Ytri-Kotum í Skagafirði 13. júlí 1909. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks fimmtudaginn 4. mars síðastliðinn. Foreldrar hans voru Stefanía Sigurðardóttir, f. 27.5. 1877, d. 30.7. 1965, frá Skagafirði og Jónas Kristjánsson, f. 15.3. 1880, d. 9.8. 1964, frá Skagafirði. Jón átti fimm systkini, þau eru: Egill, f. 1902, látinn, Ágústa, f. 1904, Snorri, f. 1905, d. 1987, Brynhildur, f. 1911, Magnús Þórir, f. 1921, d. 2002.

Hinn 22 .júní 1941 kvæntist Jón Oddnýju Bergsdóttur frá Kolsstöðum í Hvítársíðu, f. 5.10. 1915, d. 17.1. 2004. Foreldrar hennar voru Kristín Þorkelsdóttir, f. 20.6. 1894, d. 25.11. 1981, frá Reykjavík og Bergur Sæmundsson, f. 14.12. 1888, d. 27.12. 1915, frá Heiði á Langanesi, fósturfaðir Sigurður Guðmundsson, f. 8.4. 1888, d. 14.7. 1982, bóndi á Kolsstöðum í Hvítársíðu. Jón og Oddný eignuðust fimm börn. Þau eru: 1) Sigurður, f. 1944, d. 1944. 2) Margrét, f. 1946, d. 1946. 3)Stefanía Kristín, f. 1947, maki Gylfi Eiríksson, f. 1945, þau eiga þrjú börn, þau eru: a) Sigríður, maki Hannes Hauksson, þau eiga þrjú börn; b) Sverrir Jón; c) Eiríkur Óli, sambýliskona Jóhanna Dögg Olgeirsdóttir. 4) Ágústa Sigrún, f. 1950, hún á þrjú börn, þau eru: a) Jón Oddur; b) Þorgerður Eva, á hún eitt barn; c) Þóra Björk, sambýlismaður Orri Hreinsson. 5) Þorbjörg, f. 1956, maki Gísli Jón Sigurðsson, f. 1954, þau eiga þrjú börn, þau eru: a) Orri Sigurður, sambýliskona Guðrún Halldórsdóttir, þau eiga tvö börn; b) Arnar Þór, sambýliskona Silja Ósk Birgisdóttir; c) Erna Oddný.

Jón ólst upp í Skagafirði, sem ungur maður var hann lengi vinnumaður á Víðivöllum í Blönduhlíð, fluttist síðan á Sauðárkrók og bjuggu þau Oddný á Freyjugötu 44 þar til þau fóru á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks árið 2002. Jón starfaði lengst af í Mjólkursamlaginu á Sauðárkróki, síðan sem umsjónarmaður við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Jafnframt störfum sínum var hann alla tíð með búskap og lengst af með hesta.

Útför Jóns fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 11.

Þó sorgin sé sár,

og erfitt við hana að una.

Við verðum að skilja,

og alltaf við verðum að muna

að Guð hann er góður,

og veit hvað er best fyrir sína.

Því treysti ég nú,

að hann geymi vel sálina þína.

Þótt farinn þú sért,

og horfinn ert burt þessum heimi.

Ég minningu þína,

þá ávallt í hjarta mér geymi.

Ástvini þína, ég bið síðan

Guð minn að styðja ,

og þerra burt tárin,

Ég ætíð skal fyrir þeim biðja.

(Bryndís Jónsdóttir.)

Elsku pabbi minn, þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig, alltaf svo ljúfur og góður.

Þú varst einstakur afi og er það góð minning fyrir börnin mín hvað þú varst viljugur og vildir allt fyrir þau gera. Þakka þér fyrir allar góðu stundirnar og hvað við vorum alltaf velkomin til ykkar.

Ég kveð þig með söknuði.

Þín

Þorbjörg.

Á Sauðárkróki er látinn tengdafaðir minn Jón Jónasson. Góður og traustur vinur hefur yfirgefið þessa jarðvist. Hann var búinn að skila sínu ævistarfi, þreyttur en sáttur við allt og alla. Þegar Oddný eiginkona hans lést í janúar síðastliðnum, sáum við sem til þekktum að stutt yrði á milli þeirra heiðurshjóna.

Á tímamótun sem þessum leita margar góðar minningar á hugann. Ég kynntist Jóni fyrir tæpum þrjátíu árum. Ég var þá að hefja sambúð með Þorbjörgu, dóttur hans. Jón tók mér með hlýju handtaki, ungum og óreyndum manni. Við tókum tal saman, ræddum landsins gagn og nauðsynjar og fengum okkur í nefið. Þegar afabörnin komu til sögunnar þótti honum gaman að þau fengju í nefið og fylgdu því alltaf smá skemmtilegheit og sagði hann við þau að það væri hraustleikamerki að taka í nefið. Ég fann fljótt að Jón var vel lesinn, hafði ákveðnar skoðanir og var fastur fyrir. Hann var prúður maður og snyrtilegur, vildi hafa allt í röð og reglu. Bjó konu sinni og dætrum gott og hlýlegt heimili, reyndist dætrum sínum mildur og góður faðir. Á heimili þeirra var ætíð gestkvæmt og höfðinglegar móttökur biðu allra sem þangað komu jafnt í mat og gistingu.

Jón hafði gaman af búskap og var með kindur og hesta á húsi. En síðari ár átti hann einungis hesta og hafði mikla ánægju af þeim. Þessu fylgdi heyskapur sem okkur þótti sjálfsagt og gaman að taka þátt í. Margar ferðir voru farnar upp á Heiði þar sem hestarnir voru í sumarhaga. Var með ólíkindum hvað hrossin þekktu Jón úr mikilli fjarlægð, það var nóg að flauta og láta skrjáfa í brauðpoka, hann kallaði til þeirra og nánast á sama andartaki voru þau komin til hans. Þessi minning er mér ógleymanleg.

Jón var mikill og góður spilamaður. Hann spilaði bridge til margra ára, bæði í keppni og leik. Á seinni árum var það mikil dægrastytting hjá þeim hjónum að spila við sína nánustu og við hvort annað.

Genginn er góður vinur, góður tengdafaðir, góður afi og þakka ég honum samfylgdina og hlýju til fjölskyldu minnar alla tíð.

Ég vil votta fjölskyldunni mína dýpstu samúð. Lifið í Guðs friði.

Gísli Jón Sigurðsson.

Elsku afi minn, nú er komið að kveðjustundinni. Þú kveður aðeins einum og hálfum mánuði á eftir ömmu. Það var svo gott að koma til ykkar, þið voru svo hlý og góð. Ég ólst upp að hluta hjá ykkur og mér þótti svo vænt um þegar þú sagðir kvöldið sem amma var jörðuð að þið ættuð svo mikið í mér og ykkur þætti svo vænt um mig. Þið vilduð allt fyrir mig gera og hjá ykkur átti ég herbergi sem var alltaf tilbúið á vorin. Þú varst mér meira en bara afi, þú varst mér faðir þegar ég dvaldi hjá ykkur. Stundum kom ég í rútu til ykkar og þá sóttir þú mig í Varmahlíð. Það fór aldrei á milli mála að þú varst kominn því þú keyrðir Löduna þína alltaf í fyrsta eða öðrum gír. Oft fór ég með þér upp í Heiði þar sem þú geymdir hestana þína og þá kom Ljóska alltaf hlaupandi því hún þekkti hljóðið og flautið í bílnum þínum. Hún vissi að þú komst með brauð og rúgbrauð að gefa þeim. Hestarnir þínir voru vel aldir og þú varst stoltur af þeim. Þú varst stoltur þegar sögð var sagan um hestinn Stjörnu en hún var valin sem brúðargjöf til Danadrottningar frá íslensku þjóðinni á sínum tíma. Þú áttir líka kindur og fór ég oft með þér út á tún að gefa þeim og heyja. Þér fannst gaman að spila og snemma kennduð þið amma okkur að spila vist. Eftir að ég eignaðist mína fjölskyldu fór ég reglulega til ykkar og eiga Guðlaug Edda og Stefanía Ýr góðar minningar um þig og ömmu. Þú sást Ívar Andra, litla strákinn minn, í fyrsta skipti nú í janúar. Hann tók í puttana á þér og lék sér í þeim og þú brostir og talaðir um að hann væri myndarstrákur.

Elsku afi, ég vil þakka þér fyrir allar stundirnar sem við áttum saman og ég mun varðveita minningar mínar um þig í hjarta mínu. Hvíldu í friði, elsku afi minn.

Þín

Sigríður.

Elsku afi, ég vil þakka þér hvað þú varst alltaf góður við mig og hafðir alltaf tíma fyrir mig. Alltaf þegar ég kom fórum við saman í hesthúsin að gefa hestunum og í Kaupfélagið að kaupa ýmislegt fyrir ömmu. Ég hlakkaði alltaf til að koma til ykkar og vera hjá ykkur. Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Guð geymi þig, elsku afi minn.

Þín afastelpa,

Erna Oddný.

Elsku afi, mig langar að minnast góðu stundanna sem við áttum þegar ég kom norður, þú tókst alltaf rosalega vel á móti mér. Við fórum upp í hesthús eða upp á heiði að kíkja á hestana. Við fengum alltaf brauð hjá ömmu til að gefa hestunum en við stálumst líka til að taka nýtt rúgbrauð með okkur og svo var keyrt upp á heiði á Lödunni þinni. Þegar þangað var komið þá flautuðum við bara og hestarnir þekktu hljóðið í bílnum og komu hlaupandi til þín. Ég man líka eftir því þegar ég fékk að fara með hestana frá gamla sýslumannshesthúsinu og út á tún hjá þér, hvað mér þótti það gaman að fá að teyma hestana þína í gegnum bæinn. Ég heyjaði svo með þér spítalabrekkuna og ekki þótti mér það leiðinlegt en erfitt var það því hún var mjög brött. Svo voru nú mörg kvöldin sem fóru í spilamennsku, við spiluðum oftast vist og þá spiluðum við tveir saman og svo spiluðum við líka marías.

Guð geymi þig, afi, og megið þið amma hvíla í friði saman.

Sverrir Jón Gylfason.

Elsku langafi. Ó, hvað ég sakna þín sárt. Nú eruð þið langamma bæði dáin. Það var alltaf svo gaman þegar ég sat á hnjánum á þér og þú sagðir: Þú ert Tralli, en þá sagði ég nei, þú ert Tralli. Ég man þegar ég kom á Sauðárkrók á Freyjugötuna og fór í róluna og ég hló og hló. Hvíldu í friði. Hér er bæn til þín frá mér.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson.)

Hittumst uppi á himnum.

Þín

Guðlaug Edda.