Stjórn Hollvinasamtaka Gufubaðs og smíðahúss framan við smíðahúsið sem fyrst þjónaði sem íþróttahús Héraðsskólans og Íþróttaskóla Björns Jakobssonar til 1945. F.v. Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Einarsson, Tryggvi Guðmundsson, Bjarni Finnsson, Ragnar Sær
Stjórn Hollvinasamtaka Gufubaðs og smíðahúss framan við smíðahúsið sem fyrst þjónaði sem íþróttahús Héraðsskólans og Íþróttaskóla Björns Jakobssonar til 1945. F.v. Ólafur Örn Haraldsson, Kristján Einarsson, Tryggvi Guðmundsson, Bjarni Finnsson, Ragnar Sær — Morgunblaðið/Kári Jónsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Laugarvatn | Ráðgerð er gagnger endurbygging gamla gufubaðsins á Laugarvatni á komandi árum. Farið hefur fram frumhönnun á lóð gufubaðsins og stefnt að því að bjóða verkið út í haust.

Laugarvatn | Ráðgerð er gagnger endurbygging gamla gufubaðsins á Laugarvatni á komandi árum. Farið hefur fram frumhönnun á lóð gufubaðsins og stefnt að því að bjóða verkið út í haust. Hollvinasamtök Gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni héldu aðalfund sinn sl. laugardag.

Gengið hefur verið frá samkomulagi við menntamálaráðuneytið um yfirtöku Hollvinasamtakanna á 8.798 fermetra lóð, þar af 3.436 fermetra í vatninu framan við gufubaðið. Helsta markmið félagsins er að bjarga menningarverðmætum sem liggja í sögu húsanna við vatnið og að bæta aðstöðu fólks til að njóta baða og slökunar í heilsusamlegu umhverfi og hreinni náttúru staðarins.

Á fundinum var kynnt ný vefsíða félagsins www.gufa.is sem opnuð verður nú í vikunni. Oddviti Bláskógabyggðar, Sveinn Sæland, sagði frá áformum sveitarfélagsins um að leggja þrjár milljónir á næstu þremur árum til uppbyggingar Íþróttamiðstöðvar Íslands sem rekið hefur gufuna undanfarin ár. Hann sagði sveitarfélagið einnig muni koma að hreinsun og uppbyggingu strandarinnar og næsta nágrennis lóðar gufubaðsins. Hollvinasamtökin stefna að stofnun eignarhaldsfélags um framkvæmdirnar við gufuna og smíðahúsið.

Oddur Hermannsson landslagsarkitekt og fyrirtæki hans Landform á Selfossi sjá um hönnun og teikningar gufubaðsins og lóðarinnar ásamt strandlengjunni framan við gufuna þar sem gert er ráð fyrir bátabryggju, vaðlaugum og heitum pottum. Heildarkostnaður við þessi áform er um 100 milljónir króna.

Búist er við að gestum fjölgi tífalt víð endurbæturnar, fari úr fjögur þúsund í fjörutíu þúsund gesti á ári.

Ýmsar endurbætur hafa þegar verið gerðar til að halda starfseminni gangandi þar til framkvæmdir við nýbygginguna geta hafist. Má þar nefna annan heitan pott sem settur hefur verið upp, lagfæring á sturtum, hreinlætisaðstöðu o.fl. smálegu sem snýr beint að gestunum. Öll vinna Hollvinasamtakanna sem og aðila sem fyrir þau vinna hefur verið sjálfboðavinna hingað til.