[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Pan ('03), er nýjasta kvikmyndagerð ævintýrsins um titilpersónuna frægu sem aldrei verður fullorðin. Pétur Pan heimsækir þrjú ung systkin og heldur með þau til Hvergilands, þar sem styrjöld við skúrkinn Krók sjóræningjakaptein er í uppsiglingu.

"Þegar fyrsta barnið hló í fyrsta skipti, splundraðist hláturinn í þúsund mola sem skoppuðu út um allar jarðir og þannig urðu álfarnir til."

Eitthvað á þessa leið hljóðar setning í Pétri Pan, einni víðfrægustu álfasögu heimsbókmenntanna sem heldur upp á aldarafmælið um þessar mundir. Fá ef nokkur ævintýri hafa verið kvikmynduð jafnoft og klassíkin hans J.M. Barries, skoska rithöfundarins sem skrifaði leikritið Peter Pan rétt eftir aldamótin 1900. Fyrst var það fært upp á sviði í Lundúnum árið 1904 og vakti stormandi lukku. Síðan hófst frægðarferill ævintýrsins á prenti, en bókin hefur verið gefin út í tugmilljónum eintaka í flestöllum þjóðlöndum veraldar. Ekki einu sinni heldur margoft og í fjölbreyttum útfærslum.

Eitt frægasta ævintýriÐ

Mikið er vandað til afmælismyndarinnar sem er unnin í sameiningu af tveim kvikmyndaverum í Hollywood, Universal og Columbia Pictures. Myndin, sem er stjórnað af Ástralanum P.J. Hogan (Muriel's Wedding), er nálægt því að vera sú 25. sem byggð er á Pétri Pan ef aðeins eru taldar kvikmyndir og sjónvarpsmyndir í fullri lengd. Barnabókin hans Barries, eða Sir James Matthew Barries (f. í Kirriemuir í Forfashire í Skotlandi 1860, l. 1927), var fyrst kvikmynduð af Paramount árið 1924, þannig að saga þess á tjaldinu er hvorki meira né minna en 80 ára gömul. Þekktust af nokkrum sjónvarpsmyndum er bandaríska útgáfan frá 1960, söngva- og dansamynd með Mary Martin í titilhlutverkinu. Önnur umtöluð sjónvarpsmynd var gerð 1976 með Miu Farrow í hlutverki Péturs og og Danny Kaye, af öllum mönnum, holdgerði sjóræningjaskipstjórann.

Víðfrægust kvikmyndanna er tvímælalaust teiknimyndin frá Walt Disney, sem kom á markaðinn jólin 1953. Barnastjarnan Bobby Driscoll talsetti titilpersónuna og myndin varð óhemjuvinsæl um allar jarðir.

Dýrasta útgáfan er Kobbi krókur, eða Hook, sem Steven Spielberg sendi frá sér 1991. Dustin Hoffman fer með hlutverk Króks kapteins, sem myndin dregur nafn sitt af, en Robin Williams er utangátta sem Pétur. Líkt og margir aðrir heillaðist Spielberg af ævintýrinu á barnsaldri og ætlaði að gera því ógleymanleg skil en útkoman er tilgerðarleg bruðlmynd, best gleymd og grafin.

Íslensk og ensk talsetning

Pétur Pan verður sýnd bæði með íslenskri talsetningu undir leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar og í upprunalegri útgáfu. Leikararnir sem raddsetja helstu hlutverkin eru: Áslákur Ingvarsson (Pétur Pan), Agnes Björt Clausen (Vanda), Baldur Trausti Hreinsson (Georg Darling/Kobbi krókur), Elva Ósk Ólafsdóttir (María Darling), Óskar Völundarson (Jói Darling), Sigurður Þórhallsson (Mikki Darling) og Margrét Ákadóttir (Málfríður frænka). Auk þess leggja þeir til raddir sínar Þröstur Leó Gunnarsson, Þór Túliníus, Valdimar Flygenring o.fl. Sögumaður er Jóhanna Vigdís Arnardóttir.

saebjorn@mbl.is