[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Plötur Bonnie Prince Billy - Greatest Palace Music Will Oldham, sem notar helst listamannsnafnið Bonnie Prince Billy, bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamennirnir.

Plötur

Bonnie Prince Billy - Greatest Palace Music

Will Oldham, sem notar helst listamannsnafnið Bonnie Prince Billy, bindur bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamennirnir. Meðal fjölmargra nafna sem hann hefur notað yfir afurðir sínar er Palace-nafnaröðin, en áratugur er síðan fyrsta skífan kom út sem bar slíkt nafn, Palace Brothers platan There Is No-One What Will Take Care of You. Af því tilefni tók Oldan sig til og hljóðritaði upp á nýtt helstu Palace-lögin og færði í leið í kántrýbúning með mandólínum, fetilgíturum, fiðlum og tilheyrandi, svona rétt til að undirstrika uppruna sinn en hann er frá Kentucky.

Fleetwood Mac - Rumours

Það þótti sumum merkilegt þegar breska blúsrokksveitin Fleetwood Mac varð allt í einu að vinsælustu rokkhljómsveit heims með plötunni Rumours. Miklu réð um það vitanlega nýr mannaskapur á skútunni, aðallega bandaríska parið gítarleikarinn og söngvarinn Lindsey Buckingham og söngkonan Stevie Nicks. Fyrsta platan með þeim innan borðs hét einfaldlega Fleetwood Mac og var vísir þess sem koma myndi og Rumours, sem kom út í febrúar 1975, varð síðan metsöluplata, svo mikil reyndar að lengi vel var hún söluhæsta poppskífa allra tíma. Nú er skífan endurútgefin mjög aukin og endurbætt. Þannig hefur einu lagi, smáskífulagi, verið bætt við upprunalega plötu, og með fylgir diskur með átján aukalögum, þar á meðal tveimur óútgefnum lögum, prufuupptökum og ámóta.

David Byrne - Grown Backwards

David Byrne er með merkilegri tónlistarmönnum síðustu ára og þá ekki bara sem frumkvöðull í listaspírupoppi með Talking Heads heldur einnig fyrir ötult starf við að kynna tónlist frá öðrum heimsálfum og sem sólólistamaður eins og þeir vitna um sem sáu tvenna framúrskarandi tónleika hans hér á landi fyrir nokkrum árum. Nú kemur út ný sólóskífa Davids Byrnes sem fengið hefur fyrirtaks dóma víðast. Á plötunni fléttar hann saman ólíkum stefnum og straumum eins og honum er einum lagið, suður-amerískum straumum, mjúku poppi og framúrstefnurokki.

Josh Ritter - Hello Starling

Bandaríski tónlistarmaðurinn Josh Ritter vakti talsverða athygli fyrir fyrstu sólóskífu sína, Golden Age of Radio, og varð meðal annars poppstjarna á Írlandi. Það ætti svo sem ekki að koma á óvart því Ritter er bæði mjög lipur laga- og textasmiður og svo er hann líka framúrskarandi flytjandi, gítarleikari og söngvari, þykir ekki minna svo lítið á Bob Dylan og fleiri listamenn sömu sortar. Ný plata hans, Hello Starling, sem kemur út um þessar mundir, hefur ekki vakið minni athygli en fyrri platan, enda þykir mönnum sem hann sé enn að styrkja sig sem tónlistarmaður á henni, lögin sterkari og textarnir dýpri svo dæmi séu tekin.

Bækur

Donna Leon - Doctored Evidence

Donna Leon er fræg fyrir bækur sínar um feneyska lögreglumanninn Brunetti og þá ekki bara fyrir persónuna Brunetti og glæpamálin sem hann upplýsir heldur einnig fyrir það hve sterka og lifandi mynd hún dregur upp af Feneyjum og lífinu þar. Iðulega eru brotalamir í ítölsku þjóðfélagi, spilling og skipulags- og kæruleysi, áberandi í bókunum og jafnvel í aðalhlutverki. Í bókinni nýju glímir Brunetti við mál sem virðist liggja ljóst fyrir, gömul kona er myrt af þjónustu sinni, en smám saman kemur sannleikurinn í ljós.

Ursula K. Le Guin - Changing Planes

Einn helsti höfundur vísindaskáldsagna er bandaríski rithöfundurinn Ursula K. Le Guin sem hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín. Lítið hefur komið út eftir Le Guin síðustu ár og því þykir vísindaskáldsagnavinum fengur að því að fá í hendurnar nýja bók eftir hana þótt ekki sé sú mikil að vöxtum. Í bókinni leikur Le Guin sér með ferðir í tíma og rúmi, því söguhetjan kemst að því þar sem hún situr og bíður á flugvelli að hún getur ferðast hvert sem er hvenær sem er. Bókinni hefur verið lýst sem samsteypu af ferðum Gullivers og The Hitchhiker's Guide to the Galaxy, enda ekki bara skemmtisaga heldur einnig vangaveltur um tíðarandann og mannfólkið.

Richard Morgan - Market Forces

Margir muna eflaust eftir bókinni Altered Carbon eftir Richard Morgan sem hrinti af stað einskonar vakningu í vísindaskáldsagnaheiminum enda óhemju hugmyndarík og spennandi saga. Síðan sú kom út hefur Morgan skrifað laustengt framhald af henni og svo nú nýja bók sem gerist einnig í framtíðinni, sömu framtíð og sagt er frá í Altered Carbon. Í Market Forces segir frá því hvernig viðskiptalíf er orðin eiginleg barátta upp á líf og dauða, sérstaklega þar sem fyrirtækið sem aðalpersónan vinnur hjá þrífst á því að spá fyrir um hvar næsta stríð eigi eftir að brjótast út og hverjir eigi eftir að sigra í því stríði því þá má selja þeim vopn og verjur gegn prósentuhlut af stríðsgóssi. arnim@mbl.is