Það fer fátt jafnmikið í taugarnar á mér og þegar fólk slengir þeirri firru í andlitið á mér að nám sé ekki vinna. Nám er ekki aðeins vinna heldur er það tvöföld, ef ekki þreföld vinna.

Það fer fátt jafnmikið í taugarnar á mér og þegar fólk slengir þeirri firru í andlitið á mér að nám sé ekki vinna. Nám er ekki aðeins vinna heldur er það tvöföld, ef ekki þreföld vinna. Margir telja mig ef til vill mála skrattann á vegginn í þessum efnum en dokið við. Ég er þekkt fyrir lítið annað en málefnalega umræðu og leiði því fram þrjú sönnunargögn máli mínu til stuðnings:

Sönnunargagn A - Nám spyr ekki um 40 stunda vinnuviku eða reglur EES um hæfilegan hvíldartíma. Námsmaðurinn stritar myrkranna á milli, jafnvel heilu sólarhringana án þess að fá kaffitíma eða klapp á bakið frá yfirmanni sínum. Námsmaðurinn er sinn eigin herra með öllum þeim kostum og göllum sem því fylgir. Hann fær ekki greidda veikindadaga eða fæðingarorlof og verði hann fyrir því óláni að missa af kennslu mun enginn vinna verkið fyrir hann. Námið er sífellt á herðum hins samviskusama námsmanns (held ég - enda geri ég mér ekki alveg grein fyrir því hvort ég falli undir þá skilgreiningu).

Sönnunargagn B - Til að eiga brauð að bíta reynir námsmaðurinn að vinna með námi sínu. Eftir +70 stunda námsviku heldur hann þreyttur - en þó glaður í bragði - inn á vinnustaðinn sinn. Hann tekur við verkefnum þeim sem að honum eru rétt þegjandi og hljóðlaust og vinnur þau samviskusamlega, hratt og örugglega. Ég þori að fullyrða að menn hafa aldrei heyrt námsmenn kvarta yfir lélegri vinnuaðstöðu, þungu lofti eða vondum mat á árshátíð. Námsmaðurinn sættir sig við flest - enda er hann "aðeins" námsmaður.

Sönnunargagn C - Fyrir allt sitt strit má velta því fyrir sér í hvaða formi umbun námsmannsins er. Jú, umbunin er gífurleg - bankastarfsmenn andvarpa þegar námsmaður nálgast, vinnandi fólk telur námsmenn sofa heilu og hálfu dagana og verslunarmenn telja námsmenn níska. Varnaðarorð á ég til þeirra er tilheyra þessum hópum. Einn góðan veðurdag mun hinn síblanki, síþreytti og níski námsmaður verða ríkur og stjórna fjárframlögum á elliheimilið ykkar. Andvarp ykkar verður geymt en ekki gleymt á skuldadögum!

Vel má vera að einhverjar þær mítur sem umlykja námsmanninn séu sannar en annað er þeim mun ljósara, að líf vísitölunámsmannsins er síður en svo tekið út með eintómri sæld. Margan kann eflaust að undra þessa neikvæðni en orð mín má ekki misskilja. Námsmenn eiga sína góðu daga. Bestir þykja mér þó föstudagar. Á föstudögum getur maður ráfað um stórmarkaðina, kýlt vömbina og borðað eins og maður getur í sig látið af góðgæti á kynningum - ókeypis! Lánsamur námsmaður þarf lítið til að gleðjast.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir