Fyrsti hluti | eftir Knút Hafsteinsson Í svefnrofunum skaut því upp í huga hennar að hún hefði gleymt einhverju. Hún spratt upp úr fletinu, teygði sig í sígarettuna og reyndi að róa taugarnar.
Fyrsti hluti | eftir Knút Hafsteinsson
Í svefnrofunum skaut því upp í huga hennar að hún hefði gleymt einhverju. Hún spratt upp úr fletinu, teygði sig í sígarettuna og reyndi að róa taugarnar. Það var hægara sagt en gert að koma kyrrð á hugann og reyna að hugsa skýrt. Hugsanirnar þvældust hver fyrir annarri og atburðarásin virtist ekki ganga upp. Hún sá fyrir sér skæri, það glampaði á skeið í huga hennar og einhvers staðar í hugskotinu mátti heyra gler brotna. En hvaðan kom allt þetta prúðbúna fólk? Og var þetta blóð á fingrum hennar? Hún reyndi að standa á fætur en uppgötvaði um leið að hún kannaðist hvorki við fötin sem hún var í né drungalegt og daunillt herbergið sem mótaði fyrir í skímunni.
Annar hluti | eftir Kristin Kristjánsson
Skærin, dropinn, fötin. Skeiðin í glasinu sem brotnaði þegar hún varðist. Blóðið sem kom þegar hún stakk með skærunum í hvíta skyrtuna. Hver var það sem hafði hjálpað henni út úr húsinu, lofað að brenna blóðug fötin og sagt henni að hér gæti hún falið sig til að byrja með? Hana klæjaði undan peysunni sem hún var í, hún var of þröng og hafði ekki verið þvegin nýlega. Af henni var súr lykt. Pilsið var síðara en hún var vön að klæðast og liturinn var rangur. Sígarettan hjálpaði henni að hugsa skýrar. Hún tók stóran smók en fékk um leið heiftarlegt hóstakast. Hún stóð upp, var reikul í spori en náði að vaskinum í dyrunum. Þegar hún var hálfnuð að þvo blóðið af fingrunum var tekið í hurðarhúninn.