Við Íslendingar eigum besta vatnið. Sterkustu karlmennirnir eru okkar, ekki má gleyma besta jarðhitanum, grænasta grasinu og fallegustu fjörðunum. Við erum best í flestu, eigum flest af öllu, hvort sem það er gott eða slæmt, og allir kunna að lesa.

Við Íslendingar eigum besta vatnið. Sterkustu karlmennirnir eru okkar, ekki má gleyma besta jarðhitanum, grænasta grasinu og fallegustu fjörðunum. Við erum best í flestu, eigum flest af öllu, hvort sem það er gott eða slæmt, og allir kunna að lesa. Svo sem ekki skrýtið þar sem við fengum nauðug heila matskeið af lýsi upp í munninn frá því á barnsaldri.

Madrídarbúar hafa ekki átt sjö dagana sæla undanfarið. Mikil sorg hefur legið yfir borginni, bílstjórar í umferðarteppum liggja ekki á flautunni, bíða bara rólegir líkt og miðjarðarhafsblóð renni hægar þessa dagana. Samferðamenn mínir í lestinni segja varla orð ... horfa beint fram fyrir sig hugsandi. Trufla þá ekkert þegar ég reyni að troða mér inn eða út og rekst á gjörsamlega alla. Það er meira en vika síðan ég hef vaknað við hróp og köll frá götunni og karlarnir á kaffihúsinu mínu hafa ekkert rifist um fótbolta. Madríd er að jafnaði mjög fjörug og hávaðasöm borg, full af orku og yfirgangi sem oft einkennir stórborgir. Fólk veður áfram og baðar út höndum ef einhver þvælist fyrir því og blótar þér í sand og ösku ef þú ert ekki lagður af stað á gulu.

Rétt um það leyti sem ég var farin að hafa áhyggjur af því að borgin myndi ekki ná að jafna sig, gerðust undur og stórmerki, sólin skein! Fyrsta vorsólin sýndi sig um helgina og hitaði göturnar upp í 25 gráður. Við skriðum út úr íbúðum frá fréttunum og pólitískum rökræðum, nudduðum augun og horfðum undrandi til himins. Jú, lífið heldur áfram, sólin kemur aftur upp og það er víst hægt að gera annað en horfa á CNN, drekka rauðvín og ræða í hringi um afleiðingar kosninga, afturkall hermanna og hvar þessi og hinn var staddur 11. mars síðastliðinn kl. 7.30 að morgni. Stoltir kaffibarþjónar, með svartar þverslaufur, í vestum, röðuðu út borðum og stólum, gítarleikarar dustuðu af nótunum og stilltu fram dós undir peninga og ég, ég skellti mér í einu mussuna sem ekki var krumpuð ofan í kassa og fann opnu skóna frá því í fyrrasumar. Fylgihlutir voru fleiri og stærri en venjulega, eins og vani er í sólríku veðri. Í hinum fullkomna vorbúningi þrammaði ég borgina fram og aftur, brosti mínu breiðasta. Varla heyrði ég minnst á þann hræðilega dag, 11. mars, en þessi dagsetning hefur ómað um borgina síðastliðnar 2 vikur. Mest heyrðust yfirborðskenndar ferðasögur frá síðasta páskafríi og fullkomin ferðaplön fyrir það næsta. Flott tískulína í þessari búð og ný jarðarber í hinni. Kossar og bros flugu um allar götur sem og pils og kjólar í björtum litum og alls staðar sást fólk með rjóð andlit, tapas á borðinu og kaldan bjór í hönd.

Eftir því sem dagurinn leið hugsaði ég til þess að það er eitt enn sem ég hef hingað til haldið að Íslendingar ættu einkaleyfi á; íslensku kýrnar hoppa hæst út úr fjósinu á vorin, rétt eins og íslenska fólkið í fyrstu kvöldsólinni þegar kaffihúsunum virðist aldrei lokað og við sitjum með bláar tær í afrískum sandölum og sötrum rauðvín. En um helgina komst ég að því að spænsku kýrnar hoppa líka ofurhátt. Sólin gleður þær alveg jafn mikið og okkur Íslendingana, og sérstaklega ef tíðin er búin að vera erfið. Kannski eiga þeir líka til orðið "sólskinsbros" eins og við? Ætli það sé ekki bara komið úr spænsku...

Kristín Agnarsdóttir