óLI bJÖRN, aNNA OG gESTUR.
óLI bJÖRN, aNNA OG gESTUR. — Morgunblaðið/Golli
Allir þekkja útskriftarsýningar Listaháskóla Íslands, sem hafa getið sér gott orð hvort sem um er að ræða myndlistar- og hönnunarnema eða leiklistardeildina.

Allir þekkja útskriftarsýningar Listaháskóla Íslands, sem hafa getið sér gott orð hvort sem um er að ræða myndlistar- og hönnunarnema eða leiklistardeildina. Núna hefur einn viðburður bæst við sem vert er að veita athygli og það eru útskriftartónleikar tónsmíðanema. Fimm nemendur eru í þessum fyrsta útskriftarárgangi en þrír þeirra standa fyrir tónleikum í Salnum í Kópavogi í kvöld af þessu tilefni. Tónleikarnir hefjast klukkan 20 og er athygli vakin á því að aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Flutt verða verkin Upplausn eftir Ólaf Björn Ólafsson, Morula eftir Gest Guðnason og - sundrung - eining eftir Önnu S. Þorvaldsdóttur.

"Þetta eru útskriftartónleikar tónsmíðadeildar LHÍ. Við erum fyrsti árgangurinn sem er að útskrifast af þessari braut. Þarna verða flutt þrjú frumsamin tónverk fyrir kammersveit," segir Óli Björn sem tekur að sér að svara fyrir hópinn en um 7-15 hljóðfæraleikarar taka þátt í flutningnum. Flestir hljóðfæraleikaranna eru samnemendur en einnig koma atvinnumenn við sögu.

Raftónlist fyrir hljóðfæri

Óli Björn útskýrir verk sitt nánar en hann spilar á tölvu í því. "Ég er að búa til einn hljóðheim úr hljómsveitinni og rafhljóðum. Rafhljóðin eru tilkomin frá hljómsveitinni en það er ekki undirbúið efni heldur gerist í rauntíma. Ég spila hljóðin síðan til baka eftir fyrirfram ákveðnum aðferðum. Það sem hljómsveitin er að spila er eins og raftónlist sem er skrifuð fyrir hljóðfæri. En það sem tölvan er að spila er eins og hljóðfæratónlist sem aðeins tölva getur spilað," segir hann en verkin eru öll á milli 15 og 20 mínútur að lengd.

"Það er spennandi við þetta að við erum að gera þetta alveg sjálf. Þetta er okkar verkefni. Hluti af því sem við þurfum að gera til að útskrifast er að standa fyrir svona tónleikum. Þetta verða "grand" tónleikar."

Kemur úr rokkinu

Námið tekur þrjú ár og segir Óli Björn þetta búið að vera lærdómsríkan tíma. Hann dvaldi á þessum tíma líka sem skiptinemi í Berlín og hefur hug á að fara í meira nám. Hann er búinn að vera í tónlist lengi, kemur úr rokkinu en hafði alltaf áhuga á tónsmíðum og að skrifa fyrir stærri samsetningar.

Óli Björn lofar skemmtilegum tónleikum í kvöld. "Þetta verður skemmtilegt. Fólk hefur oft ákveðnar hugmyndir um nýja tónlist, að hún hljóti að vera óaðgengileg. En allavega mitt verk er "manifesto", ekki til að afsanna það, heldur hljómar það ekki þannig. Þetta er fyrst og fremst tónlist sem fólk hlustar á og vonandi hreyfir við því. Það er mín persónulega skoðun."

ingarun@mbl.is