Ég fór að sjá Píslarsögu Krists á dögunum. Myndin nær að vera nokkuð raunsæ og að fylgja frásögn guðspjallanna. Að vísu fattaði ég ekki endalausan gervihlátur rómversku hermannanna sem hlógu samfellt og án tilefnis. Það minnti mig á Dr.

Ég fór að sjá Píslarsögu Krists á dögunum. Myndin nær að vera nokkuð raunsæ og að fylgja frásögn guðspjallanna. Að vísu fattaði ég ekki endalausan gervihlátur rómversku hermannanna sem hlógu samfellt og án tilefnis. Það minnti mig á Dr. Evil í Austin Powers-myndunum. Þegar þeir voru búnir að hlæja samfellt í 20 mínútur var ég satt best að segja kominn með örlítinn bjánahroll. Mér fannst það tilgerðarlegt og hefði alveg mátt sleppa því. Svo var hann kannski aðeins of stoltur. Dauði Frelsarans er ekki eins og þegar hinn tignarlegi fíll fellur fyrir byssukúlu veiðimannsins og hnígur niður heldur miklu fremur eins og saklaust lamb sem er slátrað og brytjað niður á ruddafenginn hátt.

Svo er það útlit Jesúsar. Af hverju þarf Jesús alltaf að vera einhver einhver Hollywood-hönk? Hann lítur alltaf út eins og fyrirsæta og talar eins og sögumaður í útvarpsleikriti. Erum við búin að gera mynd hans heilaga? Hinn myndræni Frelsari er yfirleitt smáfríður, síðhærður og grannur og jafnvel bláeygður. Af hverju? Það eru engar heimildir í guðspjöllunum um útlit Jesúsar. Það er allt seinni tíma tilbúningur. Ég held að hann hafi verið mjög kraftalega vaxinn. Hann starfaði sem smiður löngu fyrir tíma hleðsluborvéla og vökvalyfta. Hann hefur líka örugglega verið sólbrenndur. Hann var örugglega ekki með sítt hár, því slíkt var óhæfa á þeim tímum.

Ég held að hann hafi ekkert verið neitt ólíkur lærisveinum sínum í útliti. Og þar er komin skýringin á því af hverju Júdas þurfti að benda á hann. Ég held að Jesú hafi verið mjög svipaður Ragnari skjálfta í útliti, bara lágvaxnari. Það er reyndar guðlast að halda fram einhverju einu útliti fram yfir annað sem hinu "rétta útliti". Á ekki Jesús meira sammerkt með hinum sjúku, "ljótu" og smáðu en hinum fallegu, tignarlegu og gáfuðu? Og ef Jesús er fallegur þá er djöfullinn ljótur. Þetta viðhorf hefur kannski orðið til að auka fordóma gegn "ljótu fólki" eins og til dæmis svertingjum.

Samkvæmt sagnfræðingnum Jósefusi Flavíusi sem fæddist rúmum 30 árum eftir Krist þá var Jesús mjög ófríður. Victor Húgó notaði seinna lýsingu hans til að móta eina af persónum sínum; hringjarann í Notre Dame. Það er ekkert "eitt rétt" útlit til á Jesú. Hann er þvert á móti allt útlit. Hann er fallegur og ljótur, svartur og hvítur, feitur og mjór, Kínverji og Grænlendingur en fyrst og fremst góður...eins og Quasimoto.

Jón Gnarr