ÍSLENSKA landsliðinu í handknattleik stendur til boða að leika vináttuleiki m.a. við Evrópumeistara Þjóðverja og Spánverja þegar það býr sig undir þátttöku á Ólympíuleikunum í sumar. Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, segir að ekkert verði farið í að negla niður landsleiki á undirbúningstímanum fyrr en dregið hefur verið í riðla fyrir Ólympíuleikana. Dregið verður í Aþenu árdegis á morgun.

Eina sem ákveðið hefur verið er að taka þátt í æfingamóti í Belgíu 21.-23. maí áður en að leikjunum við Ítala í undankeppni heimsmeistaramótsins kemur. Þetta verður í fjórða sinn sem íslenska landsliðið tekur þátt í mótinu í Belgíu sem nefnt er Flanders Cup. "Það er ljóst að við verðum ekki með okkar sterkasta lið í Belgíu þar sem leikmenn okkar í Þýskalandi verða ekki með. Þýsku deildinni lýkur ekki fyrr en 24. maí og því verða þeir ekki með. Líklegt að landsliðið verði skipað leikmönnum sem spila hér heima auk þeirra leikmanna sem leika á Spáni, í Frakklandi og í Danmörku þar sem deildarkeppni verður lokið á þessum tíma," segir Guðmundur.

Leikið við Grikki og Slóvaka

Strax að loknu mótinu í Belgíu fer hluti liðsins til Grikklands og þá koma leikmenn frá Þýskalandi til móts við landsliðið þegar það býr sig undir fyrri leikinn við Ítalíu í undankeppni HM sem ráðgert er að fari fram á Ítalíu 29. maí. Í Grikklandsferðinni æfir íslenska landsliðið saman auk þess sem það leikur tvo vináttuleiki, við Grikki og að öllum líkindum við Slóvaka, en báðar þjóðir verða þá einnig að búa sig undir undankeppni HM. Síðari leikurinn við Ítala verður háður hér á landi sunnudaginn 6. júní og verður að öllum líkindum leikið í Laugardalshöll.

Eftir seinni leikinn við Ítali fá íslensku landsliðsmennirnir tveggja vikna sumarleyfi áður en undirbúningur Ólympíuleikanna hefst 22. júní. Guðmundur reiknar með að undirbúningurinn standi sleitulaust til 9. ágúst en til stendur að landsliðið haldi til Grikklands 10. ágúst. "Ég reikna ekki með að gefa margra daga frí eftir að við förum í gang 22. júní," segir Guðmundur sem þegar er farinn leita eftir landsleikjum fyrir Ólympíuleikana.

"Við höfum víða leitað eftir landsleikjum á undirbúningstíma Ólympíuleikanna og höfum fengið nokkur vilyrði fyrir leikjum, meðal við Þjóðverja og Spánverja, en við ætlum ekki að ákveða neitt fyrr en ljóst verður með hvaða þjóðum við lendum í riðli á Ólympíuleikunum," segir Guðmundur sem reiknar með að leika níu landsleiki á undirbúningstímanum frá 22. júní til 9. ágúst.

Reiknar ekki með árekstrum við félagslið í Þýskalandi

Vegna undirbúnings Ólympíuleikanna og síðan þátttöku í þeim er ljóst að leikmenn verða ekkert hjá félagsliðum sínum fyrr en í byrjun september og taka því lítinn þátt í undirbúningi næstu leiktíðar sem alla jafna fer fram í júlí og ágúst. Ekki síst á þetta við um atvinnumennina sem þiggja laun frá félögum sínum en verða síðan í vinnu hjá allt öðrum aðila í um tveggja mánaða skeið. Guðmundur telur að ekki eigi að verða neinir árekstrar á milli landsliðsins og félagsliðanna þrátt fyrir þessa löngu fjarveru. "Ég reikna ekki með að það verði eitthvað vandamál í kringum þetta. Þýska landsliðið hefur sinn undirbúning um líkt leyti og við, það er í lok júní. Það æfir síðan saman fram að leikum og þar með tel ég að það eigi ekki að verða neinir árekstrar hjá okkur við þýsku liðin til að mynda eða þau spænsku því Spánverjar verða einnig í Aþenu," segir Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik sem þegar hefur sett niður ítarlega æfingaáætlun fyrir landsliðið vegna leikanna.