Hitzfeld
Hitzfeld
REIKNA má með að leikmenn Bayern München verði að taka á sig 15 til 20% launalækkun þegar þeir framlengja samninga sína við félagið, en tekjur félagsins standa ekki undir útgjöldum.

REIKNA má með að leikmenn Bayern München verði að taka á sig 15 til 20% launalækkun þegar þeir framlengja samninga sína við félagið, en tekjur félagsins standa ekki undir útgjöldum. Þetta er sama staða og fleiri þýsk knattspyrnufélög glíma við og skemmst er að minnast þess að leikmenn Borussia Dortmund samþykktu launalækkun í vetur til þess að létta á útgjöldum félagsins í kjölfar þess að ljóst var að þeir kæmust ekki í Meistaradeild Evrópu.

"Þeir samningar sem eru að renna út verða ekki endurnýjaðir, forsendur þeirra hafa breyst og ljóst að laun leikmanna verða að lækka," segir Karl-Heinz Rummenigge, framkvæmdastjóri Bayern München í viðtali við tímaritið Sport Bild.

Rummenigge segir ennfremur að ekki sé ljóst hver framtíð þjálfara Bayern, Ottmar Hitzfeld, verður, en samningur hans við félagið rennur út eftir rúmt ár. Liðið er fallið úr keppni í Meistaradeildinni og þá séu hverfandi líkur á því að það verði þýskur meistari í vor. Rummenigge segir það ekki sjálfsagt að Hitzfeld haldi áfram verði Bayern í öðru eða þriðja sæti í þýsku deildinni, heldur sé það ekkert víst að sá árangur þýði endilega að þjálfarinn verði að taka hatt sinn og staf.