ARSENE Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að mark Eiðs Smára Guðjohnsens fyrir Chelsea í leik liðanna í meistaradeildinni í fyrrakvöld hafi verið mjög vel gert.

ARSENE Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að mark Eiðs Smára Guðjohnsens fyrir Chelsea í leik liðanna í meistaradeildinni í fyrrakvöld hafi verið mjög vel gert. Eiður komst þá fyrir Jens Lehmann, markvörð Arsenal, sem hljóp út fyrir vítateig til að spyrna knettinum frá, náði valdi á boltanum og sendi hann í tómt markið.

"Lehmann líður illa vegna marksins. Spurningin er hvort hann hefði átt að fara út úr teignum eða ekki, en við hvetjum til þess að hann sé framarlega á vellinum og tilbúinn til að fara út úr teignum þegar með þarf. Stundum kemur það í bakið á okkur. Eftir að hafa skoðað markið betur í sjónvarpi er ljóst að Guðjohnsen gerði mjög vel að skora úr þessari stöðu," sagði Wenger í gær.

"Þetta mark kveikti verulega í leikmönnum Chelsea og þeir fengu fleiri marktækifæri í kjölfarið. Það sló okkur jafnframt út af laginu og við þurftum virkilega að sýna okkar styrk til að jafna metin. Nú erum við með sálfræðileg undirtök í einvíginu því það var mikið áfall fyrir Chelsea að okkur skyldi takast að svara fyrir okkur með marki. Úrslitin, 1:1, eru góð fyrir okkur," sagði Wenger.