Samkór Mýramanna. Einsöngvarar: Steinunn Pálsdóttir sópran og Kristján Magnússon tenór. Hljóðfæraleikarar Dóra Erna Ásbjörnsdóttir á píanó og Steinunn Pálsdóttir á harmonikku. Stjórnandi Jónína Erna Arnardóttir. Laugardagurinn 13. mars 2004, kl. 15.

SAMKÓR Mýramanna er að vinna að upptöku á geisladisk og hélt af því tilefni tónleika í Seltjarnarneskirkju laugardaginn 13. mars. Starf áhugamannakóra af þessu tagi er og hefur lengi verið stór og ómissandi hlutur af okkar menningu og verður vonandi um ókomin ár og mikið af okkar kórtónlist er einmitt samin fyrir slíka kóra. Samkórinn er nokkuð stór en styrkleikahlutfall milli raddanna er dálítið ójafnt. Bassinn er fámennasta röddin og jafnframt sú veikasta og átti til að hverfa, sérstaklega í fyrri hlutanum. Altinn var einnig fullhæverskur í tónstyrk sem gerði að sópraninn og tenórinn héldu uppi styrknum og heildarhljómgun kórsins var þess vegna ekki alltaf í góðu jafnvægi. Sópraninn var stundum fullstífur í tónstöðu sem gerði háu tónana oft óhreina og stífa, en átti líka oft góða spretti. Tenórinn var nokkuð sterkur en því miður ekki alltaf hreinn innbyrðis og átti til að magalenda illa í lokahljómum laga. Þessar tvær raddir hljómuðu stundum eins og þær væru þreyttar. Sennilega hefur nærvera hljóðnemanna gert kórinn dálítið óstyrkan. Allavega hefur undirritaður heyrt til kórsins áður og þá söng hann mun hreinna og betur afslappaður og einnig betur samtaka.

Á efnisskránni voru 16 lög úr ýmsum áttum. Allt voru þetta smálög sem gera ekki miklar kröfur til kórsins og efnisskráin kannski aðeins of einlit þannig að kórinn þreytist fyrr. Meiri skerpa í framburði og betri hendingarmótun hjálpar kórnum í tónstöðunni og gerir allan flutning mun ákveðnari. Blíðasti blær eftir Óðin Þórarinsson var fyrsta lagið og var vel sungið af kórnum, hreint og samtaka með undirleik á píanó og harmonikku. Auk þess voru lögin Vegir liggja til allra átta með fallegri dýnamík og Íslandslag Björgvins Guðmundssonar með einsöng Steinunnar Pálsdóttur þau lög sem kórnum tókst best upp í fyrir hlé.

Eftir hlé tókst kórnum mun betur upp og undirraddirnar komu betur fram og jafnvægið varð betra en nokkur lög voru ennþá mjög óhrein á meðan önnur voru nokkuð góð. Bestu lögin þar voru Alparósin, Þú ert aldrei einn á ferð, Faðmlög og freyðandi vín og Vorið eftir Pétur Sigurðsson þar sem Kristján Magnússon söng einsöng sem því miður leið fyrir að kórinn söng með honum, jafnvel sömu laglínu og söng það sterkt að Kristján kaffærðist á köflum. Dóra Erna Ásbjörnsdóttir lék afbragðsvel á flygilinn og gerði sitt til að hjálpa og styðja við bakið á kórnum. Sömuleiðis var harmonikkuleikur Steinunnar góður. Jónína stjórnaði af mikilli röggsemi og sló taktinn mjög markvisst, kannski um of þar sem sjarmi sumra laganna liggur einmitt í því að laglínan og tempóið fljóti svolítið frjálst, einnig mætti hjálpa röddunum betur þar sem þær eiga erfitt. Mikil sönggleði kórsins setti sinn svip á tónleikana og skapaði ágæta stemningu.

Sinfónískur blástur

Það virðist hafa farið framhjá mörgum að sunnudaginn 14. mars var hér á ferðalagi sinfónísk blásarasveit frá Ameríku sem var á tónleikaferð um Evrópu. Hér var nefnilega alls ekki á ferðinni band sem leikur marsa og hefðbundna lúðrasveitartónlist. Nei, þetta var stór sinfónísk hljómsveit skipuð langt komnum tónlistarnemum úr háskólanum í Wisconsin-River Fall sem lék mjög fjölbreytta og vandaða efnisskrá. Hljómurinn var mjög fylltur, hreinn og mjúkur og leikurinn fágaður en ákveðinn.

Tónleikarnir hófust á ástarsöngnum fræga eftir Bach, If Thou Be Near, þar sem mjúkur hljómurinn gjörsamlega fyllti kirkjuna af hljóm og tónleikagestir voru ekki sviknir í framhaldinu. Af fjölbreyttri efnisskránni má nefna Tvö fanfare þar sem styrkur og fjölbreytni hljómsveitarinnar var kynntur. Rondoið úr Es-dúr hornkonsertinum eftir Mozart í útsetningu eftir Bardeen var hreint frábært en þá komu hornleikararnir sjö fram fyrir og léku saman einleikinn á móti hljómsveitinni svo tandurhreint og silkimjúkt. Tilbrigði Rimsky-Korsakovs yfir stef eftir Glinka í útsetningu eftir McAlister var virkilega vel gert með glæsilegum óbóleik Heather Strutt á móti hljómsveitinni. Síðast lék hljómsveitin verkið Praise to the Lord eftir Vaclav Nelhybel sem byggist á þremur þekktum sálmalögum (Lof sé þér, Guð, þín líkn ei þver, Lofið vorn Drottin og Nú gjaldi Guði þökk) sem öll voru kynnt og síðan leikin og fléttuð saman þar sem stefin hlaupa á milli hljóðfæraflokka og var þetta stórglæsilegur endir á góðum tónleikum. Það fer ekki á milli mála að unnendur góðrar blásaratónlistar sem misstu af þessum tónleikum misstu af miklu.

Jón Ólafur Sigurðsson