— Ljósmynd/Ingi R. Ingason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"ALLT kvikt á vatninu flaug upp og það ríkti ringulreið meðal fuglanna. Þá sá ég risavænghaf mynda skugga yfir okkur," segir Ingi R. Ingason, sem náði ljósmyndum af því í gærdag, þegar tignarlegur haförn sveimaði yfir Helluvatni og Rauðhólum.

"ALLT kvikt á vatninu flaug upp og það ríkti ringulreið meðal fuglanna. Þá sá ég risavænghaf mynda skugga yfir okkur," segir Ingi R. Ingason, sem náði ljósmyndum af því í gærdag, þegar tignarlegur haförn sveimaði yfir Helluvatni og Rauðhólum. Þessi konungur fuglanna hnitaði hringi í loftinu, flaug út eftir Elliðavatni og til baka, tyllti sér á stein og var lengi að spóka sig á svæðinu, að sögn Inga.

Ungir ernir sjást núorðið á hverju ári í nágrenni borgarinnar

Kristinn Skarphéðinsson, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun, segir ljóst af myndunum að dæma, að um sé að ræða ársgamlan örn, sem var merktur í fyrra. "Það voru allir arnarungar sem komust á legg í fyrra merktir. Ungir ernir eru orðnir árvissir hérna í nágrenni Reykjavíkur á veturna og einstaka sinnum sjást fullorðnir fuglar. Þegar vorar hverfa þeir til sinna hefðbundnu heimkynna við sunnan- og norðanverðan Faxaflóa, Breiðafjörðinn og á Vestfjörðum. Mestar líkur eru á að þeir sjáist á tímabilinu frá desember og fram í mars en þetta veltur líka mikið á tíðarfarinu. Það hefur varla verið nokkur vetur og þeir geta því víða leitað sér ætis. Ég geri ráð fyrir að þessi örn hafi verið að voka eftir öndum við Elliðavatn," segir Kristinn.