ÉG er haldin leikhúsbakteríu á háu stigi. Ég fæ fráhvarfseinkenni ef ég kemst ekki reglulega í leikhús. Ég ætla ekki að lýsa fyrir ykkur einkennum en ég er viss um að ég er ekki sú eina sem haldin er þessum "kvilla".

ÉG er haldin leikhúsbakteríu á háu stigi. Ég fæ fráhvarfseinkenni ef ég kemst ekki reglulega í leikhús. Ég ætla ekki að lýsa fyrir ykkur einkennum en ég er viss um að ég er ekki sú eina sem haldin er þessum "kvilla".

Ég hef farið á margar leiksýningar bæði hjá áhugaleikhópum og atvinnumönnum.

Ég hef séð sýningar úti um allar sveitir á Suðurlandi og í Borgarfirði, hjá litlum leikfélögum og skólum og síðan þónokkuð af sýningum stóru leikhópanna hér á höfuðborgarsvæðinu. Nú um síðustu helgi fór ég einmitt á tvær sýningar, aðra í Þjóðleikhúsinu og hina hjá leikhópi í framhaldsskóla. Áhugaverður samanburður reyndar en ég ætla nú kannski ekki að fara nánar út í það hérna. Tilgangurinn með þessum skrifum mínum er nefnilega að vekja athygli á sýningu Fjölbrautaskólans í Garðabæ á Litlu hryllingsbúðinni sem sýnd er í glæsilegum salarkynnum skólans.

Þarna er hreint út sagt glimrandi sýning á ferðinni, hraði, kraftur, músík og söngur svo hrein unun er að njóta. Ef þessi sýning er dæmigerð fyrir kraftinn í unga fólkinu okkar í dag eru góðir tímar framundan. Það er stór hópur ungs fólks sem þarna kemur að, sumir búnir að læra söng, hafa tekið þátt í leiksýningum áður, sumir búnir að læra dans, eða fimleika eða eitthvað annað sem kemur þeim til góða á sviðinu og skilaði sér í reynslu og sjálfstrausti. Aðrir voru að stíga sín fyrstu spor og nutu þá góðs af hinum reynslumeiri og byrja að safna í sinn reynslubrunn.

Fyrst ber að nefna að sjálfsögðu aðalleikarana og þar fer fremstur Pétur Rúnar í hlutverki Baldurs og fer á kostum. Hann er ótrúlega sannfærandi sem feiminn og hrifinn búðardrengur sem lætur glepjast af von um frægð og frama og í von um að ná í draumadísina sína. Alma Guðmundsdóttir í hlutverki Auðar syngur eins og engill og Einir í hlutverki tannlæknisins virðist fíla það hlutverk alveg í botn, hlýtur að hafa verið búinn að stúdera það lengi. Einnig ber að nefna Markús búðareiganda sem leikinn er af Hlyni Hallgrímssyni og ferst það vel úr hendi. Dansarar og söngvarar voru frábærir í hópatriðum svo ekki bar á skugga þar. Að lokum verð ég að nefna plöntuna sem leikin er af lifandi stúlku, Hrefnu Bóel. Alveg hreint frábær hugmynd og ótrúlegt gervi, búningur og förðun. Kraftmikil söngkona þar á ferð og það fór ekki á milli mála að hún á framtíðina fyrir sér.

Það er nú svoleiðis á öllum uppsetningum hjá áhugleikhópum að margar hendur koma að og lyfta grettistaki og í þessari sýningu skilar það sér svo sannarlega. Þeir atvinnumenn sem koma að þessari sýningu eru Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstjóri, Selma Björnsdóttir danshöfundur, Þorvaldur Bjarni tónlistarstjóri og Margrét Eir söngstýra og ég get ekki annað en óskað þeim til hamingju með þetta sem og öllum þeim sem koma þarna að, leikurum, dönsurum, tæknifólki, sviðsmönnum, förðunar- og búningafólki.

Til hamingju með þetta, krakkar, til hamingju með þetta, kennarar og skólastjóri skólans. Þetta er sýning sem á heima í stóru leikhúsunum og ég skora hér með á þau að bjóða þessari sýningu til sín. Ég skora einnig á ykkur öll að fara á þessa sýningu - ef þið hafið gaman af ungu fólki, hraða, músík, söng og dansi - þið eigið ekki eftir að sjá eftir því. Njótið vel og takk fyrir mig.

BRYNJA DADDA

SVERRISDÓTTIR

læknaritari,

Bjarmahlíð 6,

221 Hafnarfjörður.

Frá Brynju Döddu Sverrisdóttur: