HÁFELL ehf. verður 25 ára 31. mars næstkomandi og verður haldið upp á afmælið á Kaffi Reykjavík í kvöld kl. 20-22.30.

HÁFELL ehf. verður 25 ára 31. mars næstkomandi og verður haldið upp á afmælið á Kaffi Reykjavík í kvöld kl. 20-22.30. Háfell var stofnað sem samvinnufélag og starfaði aðallega sem vélaleiga fyrsta árið en fljótlega upp úr því fór fyrirtækið að taka þátt í útboðum. Um áramót 1985-1986 urðu kaflaskipti í sögu Háfells þegar Eiður Haraldsson og fjölskylda hans yfirtóku allan rekstur fyrirtækisins og var skráningu þess þá breytt úr samvinnufélagi í einkahlutafélag.

Háfell ehf. hefur nánast eingöngu starfað á útboðsmarkaði upp frá því. Fyrirtækið hefur á þeim tíma aðallega unnið fyrir opinbera aðila, þ.e. Vegagerðina, Reykjavíkurborg, Kópavogskaupstað, Hafnarfjarðarbæ o.fl. Einnig vann Háfell ehf. alla jarðvinnu við álver Norðuráls hjá Grundartanga.

Hjá fyrirtækinu starfa nú að jafnaði u.þ.b. 50 manns í margvíslegum verkefnum. Árið 1998 byggði Háfell ehf. verkstæðis- og skrifstofuhús yfir starfsemi sína á Krókhálsi 12 í Reykjavík og hafa höfuðstöðvar fyrirtækisins verið þar síðan.