ERFIÐ deila er komin upp í Beethoven-sinfóníuhljómsveitinni í Bonn í Þýskalandi en 16 fiðluleikarar krefjast þess að fá kauphækkun. Ástæðan er sú, að þeir spila miklu meira en félagar þeirra með blásturshljóðfærin.

ERFIÐ deila er komin upp í Beethoven-sinfóníuhljómsveitinni í Bonn í Þýskalandi en 16 fiðluleikarar krefjast þess að fá kauphækkun. Ástæðan er sú, að þeir spila miklu meira en félagar þeirra með blásturshljóðfærin. Í hljómsveitinni eru alls 106 manns en fiðluleikurunum finnst sem verið sé að níðast á þeim.

Michael Horn, aðstoðarstjórnandi hljómsveitarinnar, segir, að þetta vandamál sé ekki nýtt af nálinni enda sé hlutverk strengjahljóðfæra í klassískum verkum yfirleitt miklu meira en blásturshljóðfæra. Sumir eigi því oft náðuga daga en aðrir sveitist blóðinu á hverjum tónleikum.

Súpa og sjúklingar

FRESTA hefur orðið nokkrum mikilvægum skurðaðgerðum á sjúkrahúsi í Nottingham á Englandi vegna alvarlegra afglapa og ólíðandi framferðis læknisins, sem átti að framkvæma þær. Heitir hann Terence Hope og er kunnur sérfræðingur í taugaskurðlækningum en í einu matarhléinu gerði hann sér lítið fyrir og fékk sér aftur á súpudiskinn án þess að borga fyrir það. Raunar segist hann aðeins að hafa verið að næla sér í nokkra brauðteninga í súpunni en söm er gjörðin og agabrot er agabrot. Vegna þess hefur hann verið sendur í frí meðan sjúkrahússtjórnin fjallar um málið. Skaut hún því fyrst til heilbrigðisráðuneytisins en þar var málinu vísað frá.

Maður eða tákn?

HJÓNUM nokkrum í Georgíuríki í Bandaríkjunum varð heldur betur sundurorða er þau fóru að sjá kvikmynd Mel Gibsons um þjáningu Krists. Hélt deilan áfram eftir að sýningu lauk og er heim var komið létu þau hendur skipta og skæri til áhersluauka. Var þeim þá stungið í steininn en konan sagði, að misklíðin hefði snúist um það hvort guð, faðir almáttugur í heilagri þrenningu hefði verið maður eða táknræn mynd. "Annað var það nú ekki," sagði konan.

Aukin kurteisi

ÍBÚAR Parísarborgar hafa lengi haft orð á sér fyrir hroka og tillitsleysi en nú er ekki annað að sjá en þessi þjóðlegi siður sé að deyja út. Þeir eru farnir að slökkva á farsímunum sínum á veitingastöðum og spyrja jafnvel viðstadda hvort þeir megi reykja. Og ekki nóg með það. Þeir eru líka farnir að þrífa upp saurinn, sem hundarnir þeirra skilja eftir á gangstéttum og annars staðar.

Sagt er, að í Frakklandi séu gæludýrin jafnmörg mannfólkinu og áætlað er, að hundarnir einir séu um átta milljónir. Það er því ekkert lítið, sem þeir láta frá sér. Meginskýringin á auknum þrifnaði er hins vegar sú, að nú sér fjölmenn sveit manna um ekkert annað en að fylgjast með hundaeigendum og sektin við því að skíta út gangstéttirnar getur verið allt að 40.000 ísl. kr.

Ljótt að svindla

ÞAÐ er grafalvarlegt mál að svindla á prófi en óvíða eins og á Indlandi. Þegar 500.000 námsmenn gengust undir próf í Bihar-ríki á dögunum gættu þeirra 5.000 lögreglumenn auk kennaranna og árvökul augu þeirra létu ekkert fram hjá sér fara. Komst upp prófsvindl hjá 168 námsmönnum og hafa þeir nú verið fangelsaðir.