SVEITARSTJÓRN Súðavíkurhrepps hefur samþykkt samhljóða viljayfirlýsingu um stofnun fyrirtækis um rækjuveiðar- og vinnslu í Súðavík. Nafn hins nýja fyrirtækis verður Frosti hf. og verða hluthafarnir tveir, Súðavíkurhreppur og Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf.

SVEITARSTJÓRN Súðavíkurhrepps hefur samþykkt samhljóða viljayfirlýsingu um stofnun fyrirtækis um rækjuveiðar- og vinnslu í Súðavík. Nafn hins nýja fyrirtækis verður Frosti hf. og verða hluthafarnir tveir, Súðavíkurhreppur og Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf.

Frá þessu er greint á fréttavef BB í gær. Þar segir ennfremur: "Í viljayfirlýsingunni kemur fram að HG leggur fram eignir tengdar rekstri rækjuverksmiðjunnar. Þær eignir eru eftirtaldar: Varanlegur rækjukvóti 1.956 tonn sem metinn er á rúmar 586,7 milljónir króna eða um 300 krónur á hvert kg. Rækjuveiðiskipið Andey ÍS ásamt fylgihlutum. Matverð skipsins er rúmar 137 milljónir króna. Fasteignir og lóðir í Súðavík sem metnar eru á 130 milljónir króna og vélar og framleiðslutæki sem metin eru á tæplega 99 milljónir króna. Samtals verður því verðmæti fastafjármuna hins nýja félags tæpar 953 milljónir króna. Eignunum fylgja langtímaskuldir að því marki að eigið fjárframlag HG verður 220 milljónir króna. Auk þess mun HG veita hinu nýja félagi víkjandi lán að upphæð 60 milljónir króna.

Þá verða afurða- og rekstrarvörubirgðir tengdar rækjuvinnslu seldar hinu nýja félagi á kostnaðarverði. Súðavíkurhreppur leggur fram hlutafé að upphæð 180 milljónir króna og eignast þannig 45% í félaginu.

Þá er þess getið í viljayfirlýsingunni að skip HG veiði fyrir Frosta hf. þann kvóta sem Andey kemst ekki yfir að veiða á sama verði og greitt er fyrir afla Andeyjar. Skip HG veiða eigin rækjukvóta og leggja upp í verksmiðju Frosta á sama verði og almennt gerist í viðskiptum.

Vörumerkið "Frosti" fylgir ekki með inn í hið nýja félag, en félaginu verður heimil notkun þess samkvæmt nánara samkomulagi. Þá verður gert hluthafasamkomulag á milli aðila þar sem m.a. verður kveðið á um stjórnskipulag félagsins, meiri háttar ákvarðanir um fjárfestingar og sölu eigna og annað sem talið er nauðsynlegt að fjalla um í samkomulagi aðila.

Í framhaldi af samþykktinni lét sveitarstjórnin bóka eftirfarandi: "Markmið sveitarstjórnar með svo mikilli aðkomu sveitarfélagsins, er að tryggja atvinnu og efla rækjuvinnslu og útgerð í Súðavík enn frekar."

Á fundinum kynntu Ómar Jónsson sveitarstjóri og Guðmundur Kjartansson endurskoðandi hreppsins rekstraryfirlit rækjuverksmiðju og rækjuveiða HG fyrir árin 2000-2003 og einnig rekstraráætlun hins nýja félags fyrir árin 2004-2008 ásamt stofnefnahagsreikningi. Ómar Jónsson sveitarstjóri sagði að gert væri ráð fyrir að vinna úr um 5.000 tonnum af hráefni hjá Frosta og að velta þess yrði um einn milljarður króna á ári í fyrstu. Ómar sagði að fyrirtækið yrði formlega stofnað á næstu dögum og væntanlega myndi hið nýja félag hefja starfsemi um miðjan apríl. Hann sagði reiknað með því að fyrirtækinu yrði stjórnað í nánu samstarfi við HG og sami framkvæmdastjóri yrði yfir báðum fyrirtækjunum.