VERÐMÆTI Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur lækkað að undanförnu og er nú 8,2 milljarðar króna að mati Greiningardeildar Íslandsbanka. Miðað við útistandandi hluti í SH er verðmatsgengi SH 5,5.

VERÐMÆTI Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna hefur lækkað að undanförnu og er nú 8,2 milljarðar króna að mati Greiningardeildar Íslandsbanka. Miðað við útistandandi hluti í SH er verðmatsgengi SH 5,5. Verðmatsgengið er 3,5% lægra en gengi í síðustu viðskiptum með bréf SH í Kauphöll Íslands. Greining ÍSB mælir hvorki með kaupum né sölu á hlutabréfum í SH miðað við núverandi gengi á markaði og ráðleggur fjárfestum að markaðsvega bréf félagsins í eignasöfnum sem taka mið af samsetningu hlutabréfa í Kauphöll Íslands.

Í frétt Greiningar ISB segir að afkoma SH á síðasta ári hafi valdið vonbrigðum. "Rekstur OTO gekk illa og afkoma stærstu dótturfélaga, Icelandic USA og Coldwater Seafood í Bretlandi, var lakari en vonir stóðu til. Á hinn bóginn hefur afkoma verksmiðjunnar í Redditch farið batnandi og skilaði hún hagnaði á síðari helmingi ársins eins og vonir höfðu staðið til. Niðurfærsla hlutabréfa í Scandsea og söluhagnaður hlutabréfa í Pescanova einkenndu afkomu liðins árs.

SH keypti rækjufyrirtækið Ocean to Ocean (OTO) í Bandaríkjunum í fyrra. Áhrif þeirrar fjárfestingar og kaup á verksmiðju sem framleiðir kælda tilbúna rétti í Bretlandi árið 2002 skýra 8% vöxt tekna SH á síðasta ári, þrátt fyrir lækkun dollarans sem er mikilvægasti gjaldmiðillinn í tekjum SH. Á þessu ári gerir Greining ÍSB ráð fyrir að tekjur SH vaxi um 9,6% sem skýrist af áhrifum af OTO. Starfsemi OTO og verksmiðjunnar í Redditch er í örari vexti en önnur starfsemi SH og verður vöxtur SH samkvæmt spá Greiningar ÍSB örastur í Bandaríkjunum og Bretlandi á komandi árum. Árið 2005 er áætlað að tekjur SH aukist um 6,6%. Draga mun úr vextinum á komandi árum og verður árlegur vöxtur til framtíðar, samkvæmt spá Greiningar ÍSB, 4%.

Á næstu fjórum árum áætlar Greining ÍSB að álagning (vörusala - kostnaðarverð seldra vara) verði svipuð og á liðnu ári eða 10,1 ¿ 10,3% af vörusölu. Gert er ráð fyrir að álagning hækki smámsaman í 10,6% fyrir lok spátímabilsins en í þeirri spá felast væntingar um bætta afkomu OTO og verksmiðjunnar í Redditch.

Hagnaður SH fyrir afskriftir á þessu ári er áætlaður 2,8% af veltu sem er sama EBITDA-framlegðarhlutfall og í fyrra. Spá Greiningar ÍSB gengur út á að EBITDA-framlegð í rekstri SH hækki á næstu þremur árum í 3,4% og verði til framtíðar. Vænst er hlutfallslegrar lækkunar annars rekstrarkostnaðar en að launakostnaður hækki hlutfallslega lítið eitt.

Í framhaldi af kaupum SÍF á 23% hlut í SH er að mati Greiningar ÍSB líklegt að látið verði reyna á sameiningu SH og SÍF eða samstarf sem fæli í sér sameiningu dótturfélaga á ákveðnum markaðssvæðum.

Síðustu mánuði hefur eignarhald SH verið félaginu til trafala en skort hefur kjölfestufjárfesta til framtíðar. Í þessu verðmati er litið á starfsemi SH eins og hún er í dag og ekki tekin afstaða til sameiningar við SÍF eða önnur fyrirtæki.

Gerð er 14,0% nafnávöxtunarkrafa til eigin fjár SH," segir í hinu nýja verðmati.