ÓLAFUR Ingi Jónsson, forvörður hjá Morkinskinnu, segir það hafið yfir allan vafa að mynd, sem eignuð var Jóhannesi Kjarval og til stóð að bjóða upp í næstu viku hjá Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn, sé fölsuð.
Ólafur Ingi skoðaði myndina undir innrauðu og útfjólubláu ljósi í húsnæði forvörsludeildar danska Þjóðminjasafnsins í Kaupmannahöfn í gær. Sagði hann að nokkur atriði gæfu til kynna að ný mynd hefði verið máluð yfir eldra verk. Til dæmis væri augsýnilegt að málað hefði verið yfir undirliggjandi sprungur. Myndmálið væri ólíkt stíl Kjarvals, enda væri myndin afar ófagmannlega unnin, og undirskriftin kæmi ekki heim og saman við verk hans. Undir útfjólubláu ljósi væri litur myndarinnar ennfremur mjög dökkur og einsleitur og án flúrljómunar, sem benti til þess að málningin væri ekki gömul. Að sögn Ólafs Inga stendur til að skoða myndina með röntgentækni innan skamms, en þá ætti upprunalega verkið að koma í ljós undir yfirmálningunni. Hann hyggst einnig taka sýni úr málningunni til að efnagreina bindiefnið í henni og bera saman við gögn Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands er tengjast hinu umfangsmikla fölsunarmáli á Íslandi.
Eftirlíking af slökustu gerð
"Það er mjög dapurlegt að þessi mynd hafi komist í umferð, bæði á Íslandi og í Danmörku," sagði Ólafur Ingi. "Það er ekki hægt að tala um snilli í neinum skilningi í sambandi við þetta verk, ekkert sem lýtur að heiðarlegri glímu við listina. Þetta er augljós eftirlíking og það af slökustu gerð."Eins og áður hefur komið fram í Morgunblaðinu telur Ólafur Ingi að myndin, sem átti að bjóða upp hjá Bruun Rasmussen í lok mánaðarins undir heitinu Pige med harpe, sé eftirlíking af málverkinu Landslag leikið á píanó eftir Kjarval, en það er í eigu Listasafns Íslands. Hætt var við sölu myndarinnar eftir að grunsemdir vöknuðu um að hún væri fölsuð, en Bruun Rasmussen er eitt virtasta uppboðshús Danmerkur. Eigandinn er Dani, sem ekki vill láta nafns síns getið, en sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði keypt myndina á uppboði hjá Galleríi Borg í maí árið 1994, en þar var hún boðin upp undir heitinu Vorkoma. Kvaðst hann mjög áfram um að komist yrði til botns í málinu.
Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.