Arsene Wenger hjá Arsenal og Claudio Ranieri hjá Chelsea.
Arsene Wenger hjá Arsenal og Claudio Ranieri hjá Chelsea. — Reuters
CLAUDIO Ranieri, knattspyrnustjóri Chelsea, er bjartsýnn um að lið sitt geti komist í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þrátt fyrir jafnteflið, 1:1, gegn Arsenal á heimavelli í fyrri leik liðanna í fyrrakvöld.

Chelsea hefur gengið vel á útivelli og þetta er ekki búið. Það hefði verið mikilvægt fyrir okkur að sigra, það hefði gefið okkur meira sjálfstraust, en eftir þessa frammistöðu gegn Arsenal eru leikmennirnir sáttir og ég er mjög ánægður með þá. Arsenal hefur verið í sérflokki í vetur og við stöndum þeim að baki. Leikmenn Arsenal eru sigurstranglegir í úrvalsdeildinni, og jafnvel í meistaradeildinni líka, en til að vinna hana verða þeir fyrst að sigrast á okkur," sagði Ranieri.

Stuðningsmenn Chelsea fylktu sér á bakvið Ranieri í fyrrakvöld og sungu nafn hans hvað eftir annað á meðan leikurinn stóð yfir. Talið er öruggt að honum verði sagt upp störfum að þessu keppnistímabili loknu en vinsældir Ítalans meðal áhangenda Chelsea virðast stöðugt aukast.

Ánægður með stuðninginn

"Ég er himinlifandi yfir þessum stuðningi en ég vil að þeir beini stuðningi sínum til félagsins og leikmannanna. Stjórnarmenn og knattspyrnustjórar koma og fara en Chelsea verður ávallt á sínum stað," sagði Ranieri eftir Evrópuleikinn á Stamford Bridge.

Arsenal og Chelsea mætast í seinni Evrópuleiknum á Highbury þriðjudaginn 6. apríl.