X-Faktor
X-Faktor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Síðasta undanúrslitakvöld Músíktilrauna 2004. Kapp öttu saman Melmi, Tvítóla, Hinir eðalbornu, Rýrð, Form áttanna, FeedBack, Haraldur, Driver Dave, Betúel, X-Faktor. Haldið í Tjarnarbíói sl. miðvikudag.

UNDANKEPPNI Músíktilrauna 2004 lauk sl. miðvikudagskvöld þegar tíu sveitir til keppu um síðustu sætin í úrslitum. Líkt og endranær var mikið af gítarrokki, en einn útúrdúr sem menn kunnu vel að meta eins og betur verður komið að síðar.

Melmi reið á vaðið með söngvænt rokk og rólegheit. Fyrsta lagið var prýðilegt en sönglínan þvinguð. Síðara lagið var heldur betra, en trommuleikur óstyrkur.

Næsta sveit þar á eftir, Tvítóla, lék sérkennilega soðgrýlu af rokki sem flutt var af miklum tilfinningahita en lítilli list. Það stakk óneitanlega í eyru hve gítarinn var falskur.

Hinir eðalbornu voru aftur a móti með öll hljóðfæri vel stillt og byrjuðu með forvitnilegu hanastélsrokki, gott lag með fyrirtaks bassaleik en ekki vel sungið. Seinna lag þeirra félaga var áþekkt hinu fyrra, en ekki eins létt yfir því. Hljómborðsleikur var einkar skemmtilegur.

Ekki vantaði dramatíkina hjá Rýrð og textarnir drungalegri, sérstaklega í seinna lagi sveitarinnar. Það var líka mjög skemmtilegt, kannski ekki gott á hefðbundna mælikvarða, en stakk óneitanlega í stúf. Flott lag sem flutt var af mikilli íþrótt.

Tónlistin sem Form áttanna flutti var líka dramatísk þó á annan hátt, hátimbrað tilfinningarokk með prýðilegum söng og gítarleik. Seinna lag sveitarinnar var harla gott, sérstaklega fyrir gítarkeyrsluna.

Í kynningu kom fram að FeedBack léki klassískt trokk og það stóð á endum, klassískt hvað varðaði þétta keyrslu og myljandi gítarsóló, mikið stuð. Seinna lag sveitarinnar var sérdeilis gott hvað gítarsóló varðaði og samspil gítara gott, en söngur var líka pottþéttur.

Haraldur var eina sveit kvöldsins sem ekki beitti sólóum á gítar eða hljómborð og þurfti þess ekki, lék einfalt, áhrifaríkt hart rokk og gerði það vel. Söngurinn var fínn og allt samspil reyndar, mjög skemmtileg sveit.

Annað var uppi á teningnum hjá Driver Dave þegar einfaldleikinn er annars vegar því í tónlist sveitarinnar voru óteljandi skiptingar og tilbrigði. Í fyrra laginu voru menn að teygja sig of langt í stælunum en í því síðara gekk fléttan betur upp í mjög góðu lagi. Söngvarinn fær plús fyrir öskur.

Rétt þegar eyrun voru tekin að þreytast á hamaganginum kom Betúel eins og hressandi norðanandvari. Tvímenningarnir í sveitinni fóru á kostum í húmorískri músík aukinheldur sem látbragð þeirra og framkoma kitlaði hláturtaugarnar. Fyrra lag þeirra félaga var skemmtilegt popp og það síðara ekki síðra en með einkar súrum texta.

Fimmtugasta og síðasta hljómsveitin sem lét í sér heyra á Músíktilraunum að þessu sinni var X-Faktor. Fyrra lag þeirra félaga var fremur þunglamalegt framan af, en leyndi sér ekki hvað sveitin var þétt. Seinna lagið var aftur á móti mjög gott, keyrslan fín og söngvarinn stóð fyrir sínu. Undankeppni Músíktilrauna lauk því eins og hún byrjaði - með þungu rafgítarrokki.

Form áttanna sigraði í sal en dómnefnd valdi Driver Dave áfram.

Árni Matthíasson