STJÓRNENDUR fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins (SA) hafa mikinn áhuga á því að koma á annarri skipan á fimmtudagsfrídögum á vorin. Hannes G.

STJÓRNENDUR fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins (SA) hafa mikinn áhuga á því að koma á annarri skipan á fimmtudagsfrídögum á vorin. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir fyrirtækin telja að fríin dragi úr framleiðni og afköstum í íslensku efnahagslífi. Hann á von á því að ákvæði um að flytja þessa frídaga til verði sett inn í fleiri samninga en við Starfsgreinasambandið og Flóabandalagið, sem greint var frá í blaðinu í gær. Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ, telur það ekki sjálfgefið að svona ákvæði verði í fleiri samningum, þetta sé og hafi verið umdeilt mál.

Hannes segir útlendinga og þá sem stunda erlend viðskipti vera mjög undrandi á því fyrirkomulagi að hafa þessa frídaga á fimmtudögum. Þjóðfélagið lamist verulega á þessu tímabili á vorin. Einnig sé óánægja meðal fyrirtækja með sumarlokun leikskóla og vetrarfrí grunnskólanna.

"Það eru tveir kostir í stöðunni að okkar mati. Annaðhvort að færa frídagana að helgi eða að fella þá niður og gera þá að hluta af öðru orlofstímabili á öðrum árstíma. Frídögum er ójafnt skipt yfir árið. Þeir eru margir á fyrri hluta ársins en engir á haustin. Rætt hefur verið um orlof á haustin eða fyrri hluta vetrar en þá þyrftu allir að koma að því máli, einkum stéttarfélög opinberra starfsmanna eins og kennarar. Við höfum viljað færa þessa óvinsælu fimmtudagsfrídaga inn í þann farveg en við eigum langt í land með að ná heildarsamstöðu í þjóðfélaginu um þetta. Með því að fá þetta ákvæði inn í samninginn við Starfsgreinasambandið erum við að halda málinu á dagskrá. Þarna hafa fyrstu skrefin verið stigin," segir Hannes.

Mismunandi viðhorf

Grétar Þorsteinsson segir ASÍ ekki hafa tekið formlega afstöðu til flutnings frídaga. Vitað sé um deildar meiningar innan landssambanda ASÍ.

Með ákvæðinu í samningi stærsta landssambandsins sé verið að skapa ákveðið fordæmi en ekki sé sjálfgefið að flutningur frídaganna verði tekinn upp í öðrum samningum. Málið ráðist af viðhorfum manna í hverju landssambandi fyrir sig. Áhuginn sé greinilega mikill hjá atvinnurekendum að knýja þetta í gegn. "Þetta hefur borið á góma æði oft undanfarin ár og þá hefur komið í ljós að viðhorfin hafa verið mismunandi. Ég tel að það sé óbreytt," segir Grétar.