Suharto er sagður hafa stolið frá sinni eigin þjóð allt að 2.500 milljörðum ísl. kr.
Suharto er sagður hafa stolið frá sinni eigin þjóð allt að 2.500 milljörðum ísl. kr.
SUHARTO, fyrrverandi forseti Indónesíu, er efstur á lista yfir spilltustu menn fyrr og síðar. Áætlað er, að hann hafi stolið frá sinni eigin þjóð allt að 2.500 milljörðum ísl. kr.

SUHARTO, fyrrverandi forseti Indónesíu, er efstur á lista yfir spilltustu menn fyrr og síðar. Áætlað er, að hann hafi stolið frá sinni eigin þjóð allt að 2.500 milljörðum ísl. kr.

Kemur þetta fram í skýrslu, sem samtökin Transparency International, IT, hafa birt en í henni er sýnt fram á hvernig pólitísk spilling og mútuþægni halda sumum þróunarríkjum í fátæktargildru. Sagði frá þessu á fréttavef BBC, breska ríkisútvarpsins, í gær.

"Í þágu almannahagsmuna"

Næstur á eftir Suharto kemur Ferdinand heitinn Marcos, forseti Filippseyja, en þýfið hans er áætlað upp undir 720 milljarðar kr. Þá kemur Mobutu Sese Seko, forseti Zaíres, en hann er sagður hafa stolið allt að 360 milljörðum kr. eða 40% af þeim 864 milljörðum kr., sem ríkið fékk í erlenda aðstoð í 32 ára valdatíð hans.

Þeir 10 efstu á spillingarlistanum eru ýmist látnir eða ekki lengur við völd en á eftir þeim nokkrir núverandi valdhafar.

Meðal þeirra má nefna Jose Eduardo Dos Santos, forseta Angóla; Teodoro Obiang, forseta Miðbaugs-Gíneu, og Nursultan Nazarbajev, forseta Kasakstans. Var það raunar fyrir slysni, að upp komst, að hann hafði flutt 72 milljarða ísl. kr. á bankareikninga erlendis "í þágu almannahagsmuna".