Músíktilraunum 2004, hljómsveitakeppni Tónabæjar og Hins hússins, lýkur í kvöld, en þetta er í 22. sinn sem keppnin er haldin.

Músíktilraunum 2004, hljómsveitakeppni Tónabæjar og Hins hússins, lýkur í kvöld, en þetta er í 22. sinn sem keppnin er haldin. Að þessu sinni var keppnin haldin á einni viku og hafa fimmtíu hljómsveitir keppt um sæti í úrslitum frá því síðastliðinn fimmtudag.

Keppnin í kvöld hefst kl. 19:00, en þá leika Dáðadrengir, sigursveit síðasta árs, nokkur lög. Í lok keppninnar, á meðan atkvæði eru talin og dómnefnd ræður ráðum sínum, leikur síðan hljómsveitin Leaves.

Verðlaun Músíktilrauna eru ekki af verri endanum og hafa víst aldrei verið veglegri. Fyrstu verðlaun eru 20 tímar í Sundlauginni, hljóðveri Sigur Rósar, með upptökumanni og myndband við eitt lag að auki sem Filmus gefur, gjafabréf frá 12 tónum og hljóðnemi og standur frá Pfaff. Önnur verðlaun eru 20 tímar í Sýrlandi með hljóðmanni og gjafabréf frá 12 tónum. 3. verðlaun verða 20 hljóðverstímar í Thule með hljóðmanni og gjafabréf frá 12 tónum. Athyglisverðasta hljómsveitin fær að auki fulla upptökustjórn og -mennsku við vinnslu á einu lagi, gerð frumeintaks og álíka frá Tíma. Efnilegasti hljómborðsleikarinn/forritarinn fær úttekt hjá Tónastöðinni, efnilegasti trommuleikarinn úttekt hjá Hljóðfærahúsinu, efnilegasti gítarleikarinn úttekt hjá Rín, efnilegasti bassaleikarinn úttekt hjá Tónastöðinni og efnilegasti söngvarinn fær Shure-hljóðnema frá Tónabúðinni.