Sanngjarnt og eðlilegt virðist að túlka framgöngu forsetans á þann veg að hún feli sér viðleitni til að fá embættinu tilgang og merkingu í nútímanum.

Óneitanlega er forvitnileg niðurstaða skoðanakönnunar, sem Fréttablaðið birti á miðvikudag. Þar kváðust átta af hverjum tíu telja "rétt að forseti Íslands eigi að hafa vald til að skjóta umdeildum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu" eins og spurningin var, heldur klunnalega, orðuð. Þessi niðurstaða sýnist til marks um að málflutningur Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, á undanliðnum vikum eigi mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar.

"Málskotsrétturinn" svonefndi hefur verið nokkuð til umræðu í lýðveldinu að undanförnu. Ólafur Ragnar Grímsson hefur haldið því fram að sá réttur sé ótvíræður og hefur skýrt frá því að hann hafi tvívegis íhugað að beita þessu valdi forseta. Um þennan rétt og tengsl hans við þingræðið deila virtir lögfræðingar og stjórnmálamenn hafa séð ástæðu til þess að tjá sig um málið.

Nú hefur Ólafur Ragnar Grímsson boðað að hann hyggist efna til "samræðu við þjóðina" um forsetaembættið. Í þessum orðum forsetans sýnist felast að hann hyggist kynna sjónarmið sín í þessu deilumáli fyrir þjóðinni og hann hefur látið að því liggja að það verði gert á fundum með kjósendum komi til forsetakosninga í sumar. Ólafur Ragnar Grímsson hefur lagt áherslu á að forsetinn sé sá forustumaður Íslendinga, sem kjörinn sé beinni kosningu. Hann og fleiri líta á forseta Íslands sem eins konar "öryggisventil", eins konar sérlegan "þjóðarfulltrúa", sem gripið geti inn í hyggist stjórnmálamennirnir með einhverjum hætti hundsa vilja almennings í umdeildum stórmálum.

Forsetinn hefur nefnt að til greina kæmi að beita þessu umdeilda valdi kæmi einhverju sinni til þess að ráðamenn íslenskir hygðust leiða þjóðina inn í Evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar að því kemur að Íslendingar taki afstöðu til Evrópusambandsaðildar, sem trúlega gerist á næstu 7 til 12 árum, er fræðilega mögulegt að ráðamenn hyggist hundsa kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu. Slík krafa kom fram af nokkrum þunga þegar Íslendingar gerðust aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu enda fól sú þátttaka í sér umtalsvert fullveldisafsal. Aðild að Evrópusambandinu fæli á hinn bóginn í sér svo risavaxið skref að afar hæpið verður að telja að til þess kæmi að forseti sæi sig neyddan til að virkja "málskotsréttinn".

Vigdís Finnbogadóttir, forveri núverandi forseta, sagði einhverju sinni að hún gæti hugsað sér að beita þessu valdi þjóðhöfðingjans og nefndi sem dæmi að það myndi hún gera hygðust ráðamenn hér á landi innleiða dauðarefsingar. Þetta tilbúna dæmi er augljóslega fráleitt.

Við flestum þeim, sem búa yfir sæmilegri meðvitund, blasir að forsetaembættið skortir inntak og merkingu. Sá tilbúni hátíðleiki, sem einkennir það, er í litlu samhengi við nútímann og samfélag sem, blessunarlega, hefur tekið allnokkrum breytingum á undanliðnum árum. Hirðvæðing embættisins á síðustu 20 árum eða svo hefur einnig orðið til þess að margir hafa endurskoðað hug sinn til þess.

Svo virðist sem Ólafur Ragnar Grímsson geri sér þetta ljóst enda fer þar ágætlega jarðtengdur maður. Framganga hans, sem vakið hefur deilur, sýnist mótast af tilraunum til að gefa embætti þessu inntak og merkingu umfram það, sem falist hefur í ræðum um meira og minna viðtekin sannindi og þátttöku í opinberum athöfnum, sem fáir hafa áhuga á. Um aðferðir hans og rökstuðning má vitanlega deila en sanngjarnt og eðlilegt virðist að túlka framgöngu forsetans á þann veg að hún feli sér viðleitni til að fá embættinu tilgang og merkingu í nútímanum.

Vandinn í þessu viðfangi blasir við. Forsetanum er ætlað að vera "sameiningartákn þjóðarinnar". Vissulega er það ákveðið rannsóknarefni að einhver vilji taka að sér að sinna því hlutverki en mikilvægara er þó að "sameiningartáknið" getur, eðli málsins samkvæmt, ekki tjáð sig um umdeild mál í samfélaginu. Geri viðkomandi það er forsetinn, bæði efnislega og röklega, dæmdur til að ganga gegn hlutverki sínu. Þess vegna er forseti Íslands dæmdur til að hafa engar skoðanir og getur í raun ekki tjáð sig um neitt umfram sjálfgefin og viðtekin sannindi. "Sameiningartákninu" er þannig gert að vera utan og handan samfélagsins, sem því er í senn ætlað að sameina og vera fulltrúi fyrir.

Þetta er vitanlega fráleit og óþolandi aðstaða.

Til eru þeir, sem leggja vilja þetta embætti niður. Sú niðurstaða væri á allan veg hin heppilegasta. Á hinn bóginn er það svo að þeir, sem eru þessarar hyggju, mynda jaðarhóp í samfélaginu. Því fer fjarri að meirihlutastuðningur sé við þessa afstöðu og afar ólíklegt má telja að breyting verði þar á í fyrirsjáanlegri framtíð.

Á hinn bóginn hljóta menn að hugsa til þeirrar stöðu, sem skapast kann í lýðveldinu nú í sumar fari svo að Ólafur Ragnar Grímsson efni til funda í því skyni að kynna hina umdeildu sýn sína til embættisins og valds forseta. Munu þeir stjórnmálamenn og lögfræðingar, sem eru á öndverðri skoðun, sjá sig knúna til að andmæla forsetanum í miðri kosningabaráttu?

Nauðsynlegt sýnist að stjórnarskrá lýðveldisins verði endurskoðuð sem fyrst m.a. í þeim tilgangi að eyða óvissu um hvert vald, hlutverk og verksvið forseta skuli vera þar sem þjóðin er greinilega þeirrar skoðunar að viðhalda beri því embætti.

Eftir Ásgeir Sverrisson asv@mbl.is