Guðmundur Þ. Jónsson
Guðmundur Þ. Jónsson
Þeir samningar sem nú er verið að greiða atkvæði um eru því samningar um stöðugleika.

Í MORGUNBLAÐINU sl. miðvikudag fer Þórir N. Kjartansson fram með órökstuddar og illa grundaðar yfirlýsingar um nýgerða kjarasamninga Flóabandalagsins og Starfsgreinasambandsins. Í grein Þóris felst mikill misskilningur. Þessir samningar eru fyrst og fremst samningar um aukinn, stöðugan og vaxandi kaupmátt almenns launafólks á næstu fjórum árum. Þessu til viðbótar er tekið á tveim veigamestu málum sem snerta launafólk - ekki síst láglaunafólk en þar er um að ræða að styrkja lífeyri okkar og fræðslumál launafólks til framtíðar.

Það sem Þórir kallar samninga um áframhaldandi sjóðasöfnun eru samningar um aukið framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði og fræðslusjóði launafólks. Til þess að efla réttindin þurfum við sjóði. Þrátt fyrir að Lífeyrssjóðakerfi okkar er almennt talið það besta sem völ er á er þörf á að styrkja það enn frekar og með þessum samningum er verið að tryggja að svo verði áfram öllu almennu launafólki til hagsbóta á efri árum.

Með framlagi til fræðslumála er í fyrsta sinn verið að leggja varanlegan grundvöll að möguleikum á aukinni hæfni og þekkingu launafólks, sérstaklega þeirra sem hafa minnsta menntun fyrir og eiga því mesta möguleika á að bæta kunnáttu sína og færni. Starfsmenntasjóðir skapa þannig grundvöll þess að framleiðslufyrirtæki geti þróað tækni sína og framleiðslu, ekki síst til þess að geta skapað betur launuð störf og haldið framleiðslufyrirtækjum hér í landi. Fjöldi launafólks og fyrirtækja hefur notið ávinnings að starfi starfsmenntasjóða á síðasta samningstímabili en með komandi samningi er þessi ávinningur innsiglaður.

Sú gagnrýni að við hlustum ekki á grasrótina er einnig byggð á miklum misskilningi. Við höfum bæði í skoðanakönnunum og á fundum með félagsmönnum leitað eftir skoðunum þeirra á hvora leiðina ætti að velja, háar prósentuhækkanir launa eða hægt stígandi kaupmátt. Félagsmenn hafa ekki verið í neinum vafa. Þeir hafa kosið kaupmáttinn, bæði í samningunum árið 1997 og árið 2000.

Þeir samningar sem nú er verið að greiða atkvæði um eru því samningar um stöðugleika, vaxandi kaupmátt í samræmi við vaxandi hagvöxt, samningar um bætta hæfni og þekkingu launafólks og samningar um aukna velferð til framtíðar.

Þórir leggur áherslu á að við hefðum átt að semja um skattamál. Það er mál sem ríkisstjórnin hefur lofað launafólki og ber að standa við án atbeina okkar.

Ég vil skora á Þóri að kynna sér efni samninganna betur. Félög Flóans hafa gefið út vandað kynningarefni um öll helstu efnisatriði en við erum líka tilbúin að bjóða honum í heimsókn til félagsins og ræða málin til að eyða þeim mikla misskilningi sem hér er á ferðinni.

Guðmundur Þ. Jónsson svarar Þóri N. Kjartanssyni

Höfundur er 2. varaformaður Eflingar.