Gísli Helgason
Gísli Helgason
Hvort er Blindrafélagið undir stjórn núverandi formanns hagsmunafélag blindra og sjónskertra eða fimmta herdeild stjórnvalda sem margsvíkja gefin loforð?

UM helgina kom út sérstakt blað með Morgunblaðinu á vegum félagsmálaráðuneytisins, sem helgað var Evrópuári fatlaðra. Upphaflega átti þetta blað að koma út 3. desember síðastliðinn á alþjóðadegi fatlaðra í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands o.fl. Í ljósi þess að ríkisstjórnin hugðist ekki efna samninginn við Öryrkjabandalagið frá 25. mars í fyrra um aldurstengingu örorkulífeyris, ákváðu öll aðildarfélög bandalagsins að draga efni sitt út úr blaðinu. Í blaðinu nú um helgina mátti sjá nöfn nokkurra félaga Öryrkjabandalagsins. Flest voru þetta minnstu félög Öryrkjabandalagsins. Stærstu samtökin, SÍBS, Gigtarfélag Íslands, Sjálfsbjörg, Geðhjálp o.fl. sniðgengu þetta blað. Á meðal félaganna sem birtu efni í blaðinu var Blindrafélagið, eitt af stofnfélögum Öryrkjabandalags Íslands og reyndar einnig Daufblindrafélag Íslands.

Þrautseigja bandalagsins og aðildarfélaganna skilaði öryrkjum talsverðum árangri um síðustu áramót þótt einungis hafi verið staðið við hluta samningsins áðurnefnda að hálfu ríkisstjórnarinnar.

Þá má ekki gleyma þeim árangri sem náðist í undangengnum tveimur dómsmálum.

Birting efnis í þessu blaði sem félagsmálaráðuneytið gaf út er eins og rýtingsstunga í bak móðursamtakanna. Öryrkjabandalag Íslands hefur marglýst því yfir að samstarf um Evrópuár fatlaðra hafi verið rofið. Þá hefur bandalagið ákveðið að gefa út sérstakt, vandað kynningarrit um félög bandalagsins næsta haust. Ætlar Blindrafélagið að vera með í því blaði? Hvort er Blindrafélagið undir stjórn núverandi formanns hagsmunafélag blindra og sjónskertra eða fimmta herdeild stjórnvalda sem margsvíkja gefin loforð? Hvort þjónar heldur tilgangi að standa við bakið á samtökum sem ástunda virka hagsmunabaráttu eða skríða undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar? Heitir ekki slíkt þrælsótti?

Það er kominn tími til að Sigurjón Einarsson, núverandi formaður stjórnar Blindrafélagsins, svari eftirtöldum spurningum:

1. Hvað hefur stjórn Blindrafélagsins gert á síðasta ári til að efla hag félagsmanna?

2. Hvernig hefur stjórnin og þá sérstaklega formaðurinn, stuðlað að aukinni einingu innan félagsins?

Vegna ráðstefnu, sem félagsmálaráðuneytið hyggst efna til á föstudaginn kemur, 26. mars og á að marka lok Evrópuárs fatlaðra, tel ég rétt að birta bréf sem framkvæmdastjórn Öryrkjabandalagsins hefur sent öllum aðildarfélögum bandalagsins og fleirum. Þessa ráðstefnu bauðst Öryrkjabandalagið til að halda með stjórnvöldum ef hún yrði ekki haldin undir merkjum Evrópuárs fatlaðra. Ekki var fallist á það af hálfu stjórnvalda.

Ég vona að félagsmenn Blindrafélagsins taki a.m.k. ekki þátt í þeirri ráðstefnu né heldur þeir sem vinna að málum blindra og sjónskertra. Þá yrði höfuðið bitið af skömminni.

Eftirfarandi er umrætt bréf framkvæmdastjórnar Öryrkjabandalagsins:

Reykjavík, 18. mars 2004.

AÐ ÍTREKAÐ GEFNU TILEFNI!

Vegna Evrópuárs fatlaðra og ráðstefnuboðunar undir merkjum þess.

Vegna ráðstefnu þeirrar sem stjórnvöld hafa boðað til þann 26. mars n.k. undir merkjum Evrópuárs fatlaðra sér stjórn Öryrkjabandalags Íslands sig knúna til að minna á eftirfarandi:

Vegna þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að standa ekki að fullu við það samkomulag sem gert var í aðdraganda kosninganna s.l. vor samþykkti aðalstjórn ÖBÍ einróma þann 10. desember s.l. að halda ekki áfram samstarfi við stjórnvöld um Evrópuárið nema ákvörðun yrði tekin um að efna til fulls áðurnefnt samkomulag - samkomulag sem var alger forsenda þess að bandalagið treysti sér til að halda Evrópuárið hátíðlegt með stjórnvöldum. Í bréfi frá ÖBÍ þann 21. janúar s.l. var skýrt tekið fram að þrátt fyrir þetta myndi bandalagið "eftir sem áður halda áfram fullu samstarfi um öll þau mikilsverðu mál sem nauðsynlegt er að hafa gott samstarf um, einungis með því skilyrði - og því skilyrði einu - að stjórnvöld reyndu ekki að færa sér í nyt nafn Evrópuárs fatlaðra."

Í stað þess að virða þennan sáttavilja og efna sameiginlega til áðurnefndrar ráðstefnu hafa stjórnvöld kosið að hunsa heildarsamtök fatlaðra og efna einhliða til hátíðlegrar dagskrár undir merkjum Evrópuárs fatlaðra. Þessi afstaða er ekki aðeins umhugsunarverð í ljósi samningsefndanna sl. haust heldur einnig í ljósi þeirrar staðreyndar að eitt helsta markmiðið með Evrópuári fatlaðra var að tryggja að fullt samráð yrði haft við samtök fatlaðra í allri umfjöllun um málefni þeirra, að rödd þeirra og sjónarmið fengju að njóta sín til fulls, rétt eins og eðlilegt er talið þegar fjallað er um málefni kvenna og annarra frjálsborinna borgara.

Á dagskrá þeirri sem dreift hefur verið vegna fyrirhugaðrar ráðstefnu má sjá nöfn hinna mætustu einstaklinga, enda mjög ólíklegt að þeim hafi verið að fullu kunnug afstaða fatlaðra þegar þeir léðu máls á þátttöku sinni.

Af dagskránni er augljóst að stjórnvöldum hefur ekki aðeins mistekist að rjúfa samstöðu þeirra fjölmörgu landssamtaka fatlaðra sem samanlagt mynda 20 þúsund manna bandalag, heldur hefur einnig mistekist að finna fatlaða einstaklinga sem reiðubúnir eru til að leggja nafn sitt við þetta illa grundaða uppátæki.

Öryrkjabandalag Íslands fer þess vinsamlega á leit við það góða fólk sem léð hefur máls á þátttöku í þessum svokallaða "lokaviðburði" að það endurskoði afstöðu sína í ljósi málavaxta. Þá hvetur bandalagið alla þá sem fengið hafa boð um að sitja ráðstefnuna að sýna mannréttindabaráttu fatlaðra þá virðingu að ganga heldur til sinna daglegu starfa þann 26. mars næstkomandi. Mikilvægast er að það góða fólk sem atvinnu sína hefur af umönnun fatlaðra sýni réttindabaráttu fatlaðra þann skilning að fara hvergi.

Með vinsemd og virðingu,

Öryrkjabandalag Íslands.

Gísli Helgason skrifar um málefni Blindrafélagsins

Höfundur er ritari stjórnar Öryrkjabandalags Íslands og fulltrúi Blindrafélagsins í stjórn þess.