Sigurlaug Einarsdóttir
Sigurlaug Einarsdóttir
Það er gefandi og lærdómsríkt að vinna með börnum og í leikskólum falla mörg gullkorn á hverjum degi.

Í MÁLEFNUM leikskóla hefur gríðarlega margt áunnist á undanförnum árum. Með lögum frá 1994 er leikskólinn skilgreindur sem fyrsta skólastigið. Áhersla hefur verið á það að auka samvinnu milli leik- og grunnskóla sem byggir á forsendum beggja skólastiganna. Þróunarverkefni hafa verið unnin og stöðugt er verið að horfa til þess að skilin milli þessara skólastiga verði börnunum auðveldari. Það er þó ekki þar með sagt að með því að skilgreina leikskólann sem skólastig eigi börn að læra eftir sömu kennsluaðferðum og eru viðhafðar í grunnskólum. Í leikskólanum er það leikurinn sem er leiðandi afl og er hann í fyrirrúmi sem námsleið barnsins. Það sem vekur undirritaða til að fjalla um umönnun í leikskólum er sú umræða sem er í gangi að skoða beri möguleika á því að börn geti hafið nám í grunnskólum fimm ára gömul. Undirrituð telur þann möguleika varhugaverðan og vill beina umræðunni inn á aðrar brautir þar sem m.a. umræðan um lífsleikni verði efld.

Umönnun í leikskóla

Þrátt fyrir það að börn komi stöðugt yngri í leikskólann í dag á umræðan um umönnun og umhyggju alltaf við hvort sem talað er um yngstu eða elstu börnin í leikskólum eða yngstu börnin í grunnskólum.

Rannsóknir sýna að börn þarfnast stöðugt snertingar, það að faðma, knúsa, strjúka, snerta eða setjast í kjöltuna ákvarðar öryggi þeirra í samskiptum við kennara og kemur til móts við þörf þeirra fyrir vellíðan. Þá gefa rannsóknir vísbendingar um að með því að huga markvisst og meðvitað að snertingu í leikskólastarfi hvenær sem er í hinu daglega starfi stuðli það að betri líðan barna og starfsfólks. Talið er að snerting hafi m.a. mikil áhrif varðandi tengsl barns við móður og aðra umönnunaraðila og virki á móti streitu. Þá hefur snerting áhrif á streituhormónið kortisól en það minnkar hjá þeim sem fær nudd og vellíðunarhormónið oxytocin eykst. Það virðist sem nudd hafi sérstaklega góð áhrif á einstaklinga með hegðunarerfiðleika og sýnt hefur verið fram á að börn sýni merki um meiri árásargirni ef þau fái litla snertingu. Snerting er vandmeðfarinn þáttur og því mikilvægt að starfsfólk sé meðvitað um gildi hennar. Hafa ber í huga að veita því athygli ef barn er t.d. haldið snertifælni og ef verið er að vinna markvisst með létta snertingu þá séu það börnin sjálf sem ákveði hvort þau vilji láta snerta sig eða ekki.

Veturinn 2000 - 2001 var unnið þróunarverkefni í tveimur leikskólum hér á landi um snertingu, jóga og slökun. Starfsfólki var kennd aðferð til að vinna eftir sem stuðlaði að því að skapa meira jafnvægi og ró í leik og umhverfi barnanna yfir daginn. Auk þess sem áhersla var á að vellíðan, traust og öryggiskennd milli barna og fullorðinna. Niðurstöðurnar bentu til þess að ef unnið er markvisst með þessa þætti geti það stuðlað að aukinni vellíðan og meiri ró í umhverfinu.

Daglegar venjur í leikskóla hafa lítið verið til umræðu á opinberum vettvangi en þeim hafa verið gerð góð skil í skólanámskrám leikskóla þar sem fjallað er um þær sem undirstöðuþátt í leikskólastarfi. Mikið nám á sér stað allan daginn í leikskólanum og eru þær stundir sem teljast til daglegra venja ekki síður dýrmætar en aðrar stundir.

Í fataklefanum er markmiðið að börnin læri að klæða sig sjálf og fái hvatningu frá hinum fullorðnu til að gera sem mest sjálf. Þar sem annars staðar er gott tækifæri til málörvunar og að efla félagsþroskann og hjálpsemi. Við matarborðið er lögð áhersla m.a. á stærðfræði og félagsfærni á hverjum degi, börnin leggja á borð og telja í leiðinni hvað eru margir mættir í dag, hvað þurfum við t.d.marga diska og gaffla. Komið er inn á næringarfræði og efnafræði með því að spjalla við börnin um hvað er í matnum sem þau borða og þannig má halda áfram. Til þess að efla skilning barna á vísindalegum hugtökum þurfa þau m.a. að fá tækifæri í gegnum daglegar venjur og leik til að uppgötva, telja, mæla, kanna lögun hluta og rannsaka.

Hraði - streita

Í dag er talað mikið um hraða og streitu og því er gott að staldra aðeins við og kanna hvort leita þurfi jafnvægis að nýju, er samfélagið komið langt frá hinum upprunalegu sammannlegu lífsgildum? Þurfa ekki allir jafnt foreldrar sem og kennarar að leggja í auknum mæli áherslu á lífsleikni með því að huga markvisst t.d. að umhyggju, virðingu, hjálpsemi, kurteisi, samskiptum, snertingu og slökun? Mikilvægt er að virða leikinn sem námsleið barnsins og velta jafnvel upp þeirri spurningu hvort ekki megi auka leikinn sem námsleið í yngstu bekkjum grunnskólans. Það er umhugsunarvert að velta því fyrir sér hvaða rök eru fyrir því að færa elsta árgang leikskólans í grunnskólann og ef það í raun er vilji foreldra og sveitarstjórnarmanna hvort ekki verði fljótlega lögð fram uppeldisfræðileg rök fyrir hugmyndinni. Mikið og gott starf er unnið í leikskólum og ekki hefur verið annað að sjá en að foreldrar séu ánægðir með leikskóla barna sinna, samkvæmt þeim viðhorfskönnunum sem lagðar voru fyrir foreldra í Garðabæ, Hafnarfirði og Reykjavík sl. vor.

Það er gefandi og lærdómsríkt að vinna með börnum og í leikskólum falla mörg gullkorn á hverjum degi. Fimm stúlkur fimm ára gamlar voru að tala saman, fjórar þeirra töluðu við undirritaða um að það væri svo gott að fá nudd á bakið í leikskólanum. Það er svo notalegt sagði ein þeirra og hinar þrjár tóku undir. Sú fimmta sagði ekki neitt dálitla stund, horfði á viðkomandi og sagði "ertu góð við börn". Þessi lokaorð verður hver að túlka fyrir sig.

Sigurlaug Einarsdóttir skrifar um skólamál

Höfundur er leikskólaráðgjafi, M.Ed. í uppeldis- og kennslufræðum.