MARCUS Allbäck, sænski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem leikur með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, hefur fjárfest í íslensku leikmönnunum Jóhanni B. Guðmundssyni og Tryggva Guðmundssyni, sem leika með Örgryte í Svíþjóð.

MARCUS Allbäck, sænski landsliðsmaðurinn í knattspyrnu sem leikur með Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni, hefur fjárfest í íslensku leikmönnunum Jóhanni B. Guðmundssyni og Tryggva Guðmundssyni, sem leika með Örgryte í Svíþjóð. Allbäck er einn af fjórum aðilum sem hafa stofnað hlutafélag og það hefur keypt samninga fimm erlendra leikmanna af Örgryte fyrir samtals 10 milljónir sænskra króna, eða um 95 milljónir íslenskra króna. Það eru samningar Jóhanns og Tryggva og að auki samningar Brasilíumannsins Paulinho Guára og Zambíumannanna Edwin Phiri og Boyd Mwila.

Anders Lundberg, talsmaður Örgryte, skýrði frá þessu nú í vikunni á vef stuðningsmanna félagsins. "Ef einhverjir af þessum fimm leikmönnum verða seldir fær hlutafélagið stærstan hlut af hagnaðinum en Örgryte aðeins lítinn hluta. Þegar að því kemur að hlutafélagið kaupi unga leikmenn af okkur snýst þetta við, þá fær Örgryte stærsta hlutann þegar þeir verða seldir," sagði Lundberg.

Allbäck er annar tveggja einstaklinga sem stofnuðu hlutafélagið en tvö sænsk byggingafyrirtæki eru ennfremur hluthafar. Annað þeirra er í eigu föður hans, Stefans Allbäcks. Allbäck, sem lék um árabil með Örgryte, hefði mikinn hug á að ljúka ferlinum með félaginu.