Höfuðborgarsvæðið | Óskýrður munur á heildarlaunum karla og kvenna sem starfa hjá Reykjavíkurborg er 15%, en 19% þegar undan eru skildir grunnskólakennarar, að því er fram kemur í samanburðarkönnun á launum karla og kvenna hjá Kópavogsbæ.

Höfuðborgarsvæðið | Óskýrður munur á heildarlaunum karla og kvenna sem starfa hjá Reykjavíkurborg er 15%, en 19% þegar undan eru skildir grunnskólakennarar, að því er fram kemur í samanburðarkönnun á launum karla og kvenna hjá Kópavogsbæ.

Launamunur kynjanna reyndist mestur í Reykjavík þegar saman eru borin nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Í Kópavogsbæ er munurinn um 5%, en 9% þegar grunnskólakennarar eru undanskildir, í Hafnarfirði er munurinn 8% og 12%, og í Mosfellsbæ 6% og 12%. Munurinn á Reykjavík og Kópavogi, sem er minnstur, er því 10 prósentustig.

Sigurður Geirdal, bæjarstjóri Kópavogsbæjar, segist ánægður með stöðu jafnréttismála í Kópavogi eins og þau koma fram í könnuninni. "Það væri mikið vanþakklæti ef við værum ekki sáttir við stöðuna, því það kemur í ljós að við erum í algerum sérflokki."

Niðurstöður jákvæðar fyrir Kópavog

Skýrsluhöfundar segja niðurstöðurnar mjög jákvæðar fyrir Kópavogsbæ, og Sigðurður tekur undir það. "Meðaltalið úr hinum ýmsu könnunum sem við höfum séð er um 8%, þar erum við með 9%, og Reykjavík með 19%," segir Sigurður.

Í tilkynningu frá bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar í Kópavogi segir að könnunin sýni að konur og karlar sem vinna hjá Kópavogsbæ njóti ekki sömu launakjara þrátt fyrir yfirlýsta stefnu bæjarins um launajafnrétti. Bæjarfélagið verði að vinna markvisst að því að jafna launamun karla og kvenna.

"Samfylkingin telur nauðsynlegt að kanna stöðuna reglulega eins og jafnréttisáætlunin segir til um og grípa til markvissra aðgerða nú þegar til að vinna bug á launamun kynjanna hjá Kópavogsbæ," segir í fréttatilkynningu flokksins.

Um er að ræða fyrstu samanburðarkönnunina á launum karla og kvenna hjá Kópavogsbæ. Um gerð könnunarinnar sá Viðskiptaráðgjöf IBM og er miðað við launatölur frá nóvember 2002.