— Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sænska krónprinsessan Viktoría kemur hingað í opinbera heimsókn ásamt foreldrum sínum, Karli Gústafi XVI konungi og Silvíu drottningu, í haust.

Sænska krónprinsessan Viktoría kemur hingað í opinbera heimsókn ásamt foreldrum sínum, Karli Gústafi XVI konungi og Silvíu drottningu, í haust. Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir sænska sendiherranum að Viktoría hafi ekki komið áður til Íslands, en það mun ekki vera rétt því prinsessan kom hingað árið 1992 ásamt skólasystkinum sínum, en mikil leynd hvíldi yfir heimsókninni. Viktoría var á fimmtánda ári þegar hún kom hingað, var ekki með neina prinsessustæla og stalst hugsanlega frá lífvörðum sínum niður í miðbæ Reykjavíkur til að kíkja á næturlífið.

Óli Jón Ólason, hótelhaldari í Reykholti, rak á þeim tíma gistiheimili á Miklubraut 1 í Reykjavík, og hefur hann undir höndum innritunarblað fyrir Útlendingaeftirlitið þar sem nafn prinsessunnar, fæðingardagur og heimilisfangið, Drottningholm í Stokkhólmi, kemur fram.

Óli Jón segir að prinsessan hafi verið ánægð með hversu frjáls hún var á Íslandi. "Hún sagði að henni hefði aldrei liðið eins vel. Hún fór í Kringluna og sund og það var enginn að fylgjast með henni." Hann segir að prinsessan hafi ekki talið sig hafna yfir aðra í hópnum. "Þau fengu að þvo af sér og hún þvoði fötin sín sjálf og svona. Það voru engir prinsessustælar í henni." Nefnir hann einnig að lífvörður prinsessunnar hafi verið búinn að velja fyrir hana herbergi, en Viktoría vildi sofa í stóru herbergi með kojum þar sem allar vinkonur hennar sváfu.

Fjölmiðlar máttu ekkert vita

Aðdragandi heimsóknarinnar var nokkuð langur. "Fyrri part vetrar kom kona frá sænskri ferðaskrifstofu til mín og vildi fá að skoða gistiheimilið vegna væntanlegs skólahóps um vorið. Við vorum ekkert óvön slíkum heimsóknum enda vorum við með mikið af Svíum í gistingu hjá okkur. Hún hafði svo seinna samband og bókaði þennan skólahóp, en sagði jafnframt að við yrðum að hugsa mjög vel um þennan hóp. Hann væri svolítið "special". Allir okkar gestir voru og eru "special" og því kipptum við okkur ekkert upp við þessa frétt," segir Óli Jón.

Hann segir að nokkru áður en hópurinn var væntanlegur hafi hann fengið upplýsingar um að einhver úr hópnum kæmi nokkrum dögum á undan til að athuga hvort allt væri í lagi. "Þegar hann kom kallaði hann mig á eintal og kynnti sig sem yfirlífvörð sænsku krónprinsessunnar sem væri í skólahópnum sem væri að koma. Hann sagði að mikil leynd hvíldi yfir þessu og bað mig að láta ekki fjölmiðla eða aðra vita um þetta."

Óli Jón segir að aðeins örfáir hafi vitað af veru prinsessunnar hér á landi, yfirlögregluþjónninn, sænski sendiherrann, stúlka frá Úrval Útsýn og þáverandi forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir. Óli Jón og konan hans ákváðu að láta ekki einu sinni starfsfólkið vita, því erfitt gæti verið fyrir það að segja ekki vinum og fjölskyldu af konunglegu heimsókninni. Þeim var ekki sagt að prinsessan væri meðal gestanna fyrr en morguninn sem hópurinn fór úr landi.

Óli Jón segir að lífvörðurinn hafi undirbúið heimsóknina vel. Hann mældi t.d. ýmsar vegalengdir frá gistiheimilinu, eins og út á Reykjavíkurflugvöll, niður á höfn, að Borgarspítala og Landspítala, sænska sendiráðinu og fleiru. Þá skoðaði hann hvern glugga á gistiheimilinu hátt og lágt og gekk um nágrennið ásamt yfirlögregluþjóninum.

Óli Jón segir að í fylgd hópsins hafi verið nokkrir foreldrar og tvær konur sem voru lífverðir. Alltaf þegar hópurinn fór út í dagsferðir hafi einn lífvörður farið með rútunni og annar í bíl sænska sendiráðsins, sem fylgdi rútunni eftir hvert sem hún fór.

"Þetta var mjög elskulegur hópur ungmenna, kát og fjörug. Þau dvöldu í viku hjá okkur, fóru í ýmsar dagsferðir, í sund, Kringluna og í heimsókn að Bessastöðum. Seinustu nóttina stálust þau út um kjallaraglugga niður í miðbæ Reykjavíkur. Við þóttumst ekkert vita," segir Óli Jón, en hann segist ekki vita hvort prinsessan hafi verið í hópi þeirra sem stálust út. Hann heldur þó að flestir eða allir hafi farið. "Það vissi enginn um það nema við starfsmennirnir sem vorum á næturvakt. Við vorum ekkert að vekja lífverðina, þeir voru orðnir svo rólegir þarna síðustu dagana. Það var ekkert vesen. Þau höfðu frétt að það væri líf í miðbænum og stálust þarna niður eftir."

Þegar hópurinn fór aftur til Svíþjóðar fékk Óli Jón mynd af konungsfjölskyldunni, ermahnappa með ríkismerkinu og kristalsblómavasa. "Ég á þetta allt enn og fer kannski að pússa af því rykið áður en konungsfjölskyldan kemur," segir Óli Jón, sem í dag rekur Hótel Reykholt. Hann hefur áður hýst tigna gesti m.a. Ólafur Noregskonung og son hans Harald, Finnlandsforseta og alla íslensku forsetana að Sveini Björnssyni undanskildum.