Corney Dickerson hefur leikið mjög vel með liði Snæfells.
Corney Dickerson hefur leikið mjög vel með liði Snæfells. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
SNÆFELL sigraði UMFN með 91 stigum gegn 89 í þriðja leik í undanúrslitum Intersport-deildarinnar, í Stykkishólmi í gærkvöldi.

SNÆFELL sigraði UMFN með 91 stigum gegn 89 í þriðja leik í undanúrslitum Intersport-deildarinnar, í Stykkishólmi í gærkvöldi. Það má því segja að enn haldi ævintýrið áfram í Hólminum því Snæfell vinnur gamla stórveldið Njarðvík í þriðja leik í undanúrslitum Intersport-deildarinnar og þar með einvígið þrjú núll. Þetta eru úrslit sem fáir körfuknattleiksunnendur á Íslandi bjuggust við, en er engu að síður afar gott fyrir körfuboltann á Íslandi að fá nýtt blóð í toppbaráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

Það var troðfullt hús áhorfenda á leiknum eða rúmlega sex hundruð manns og er það met í húsinu. Vel á annað hundrað Njarðvíkingar fylgdu sínu liði í Hólminn. Það fór ekki fram hjá nokkrum manni að mikil umfjöllun og umræða um þennan leik síðustu daga skapaði mikla yfirspennu hjá leikmönnum Snæfells. Með sigri voru þeir komnir í sjálfa úrslitahrinuna. Njarðvíkingar, eftir tvö töp, voru hins vegar komnir með bakið upp að vegg, urðu að vinna alla þá þrjá leiki sem voru í boði og máttu ekki misstíga sig. Enda voru gestirnir vel einbeittir í upphituninni og létu mikla og skemmtilega umgjörð heimamanna ekki trufla sig.

Leikurinn hófst á mikilli baráttu tveggja sterkra liða, sterkur varnarleikur og lítið skorað framan af leik. Þrátt fyrir að Friðrik Stefánsson fengi sína þriðju villu á fimmtu mínútu leiksins sló það ekki gestina út af laginu. Það var mun meiri kraftur og vilji í Njarðvíkingum en Hólmurum í fyrsta leikhluta enda höfðu þeir forustu 18:24 þegar fjórðungnum lauk. Í öðrum fjórðungi var eins og það væri eingöngu eitt lið á vellinum, þ.e. Njarðvík. Höfðu gestirnir mikla yfirburði, með Brenton Birmingham í fararbroddi og gerðu 26 stig gegn 11 stigum Snæfells í þessum fjórðungi og var munurinn 21 stig gestunum í vil í hálfleik.

Það var fátt sem benti til þess á upphafsmínútum síðari hálfleiks að það ómögulega gæti gerst aftur. Njarðvíkingar héldu áfram af sama krafti og áður og náðu mest 26 stiga forskoti um miðjan leikhlutann. Þá fékk Friðrik Stefánsson fimmtu villuna.Við þetta sáu heimamenn smávonarglætu, hertu á leik sínum og náðu muninum niður í tutugu stig þegar flautað var til loka þriðja fjórðungs. Í byrjun þess fjórða fékk annar Njarðvíkingur, Halldór Karlsson, fimmtu villuna, staðan 59:79 fyrir gestina, rétt rúmar sjö mínútur eftir og Snæfell skipti yfir í maður á mann vörn eftir að hafa leikið um nokkra hríð svæðisvörn.

Loksins fóru heimamenn í gang, eins þeir hafa svo oft gert í vetur í fjórða leikhluta, skelltu í lás í vörninni, juku hraðann í leiknum og hvert skotið á fætur öðru rataði í körfuna. Nú könnuðust Hólmarar við sína menn, kraftur og einbeiting skein úr hverjum leikmanni Snæfells, á sama tíma greip um sig örvænting hjá gestunum, var það að gerast aftur eins og á sunnudaginn, tapa niður miklu forskoti. Já, það var að gerast, þegar ein mínúta lifði leiks jafnaði Snæfell leikinn 86:86, skoraði einnig næstu 5 stig og hafði forystu 91:86 þegar 9 sekúndur voru eftir. Brenton Birmingham minnkaði muninn með þriggja stiga körfu þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Hlynur Bæringsson tók innkast fyrir Snæfell og gaf boltann beint á leikmann Njarðvíkur sem reyndi þriggja stiga skot um leið og flautan gall, en sem betur fer fyrir heimamenn geigaði skotið.

Í liði Snæfells var það helst Edward Dotson, sem hélt liðinu á floti þegar verst gekk. Hlynur barðist af miklum krafti en fann sig ekki eins og hann hefur gert undanfarið, tók "aðeins" 12 fráköst að þessu sinni. Corey Dickerson átti frábæra syrpu í lokahluta leiksins. Sigurður Þorvaldsson lék vel, sérstaklega í þriðja leikhluta, þar til hann lenti í villuvandræðum. Hafþór Ingi Gunnarsson átti stórleik í fjórða fjórðungi, Dondrell Whitmore komst aldrei almennilega inn í leikinn, enda verið veikur síðustu daga.

Hjá gestunum var það Brenton Birmingham sem lék manna best, er óðum að ná sínu fyrra formi og lék vel bæði í vörn og sókn. Páll Kristinsson lék mjög vel lengi framan af leik en týndist svo í fjórða leikhluta eins og reyndar flestir gestanna. Halldór Karlsson, þessi mikli baráttuhundur, fór mikinn í fyrri hálfleik, skoraði grimmt, stal boltum og var drjúgur í fráköstunum. Friðrik Stefánsson lenti fljótt í villuvandræðum og háði það Njarðvíkurliðinu mikið, sérstaklega í vörninni, að hafa hann ekki meira inni í leiknum. Brandon Woustra og William Chavis hafa báðir leikið betur undanfarið, en reyndust þó vel traustir lengi vel.

Ríkharður Hrafnkelsson skrifar