Hörður Guðmundsson
Hörður Guðmundsson
HÖRÐUR Guðmundsson, lögfræðingur hjá KPMG Endurskoðun, segist ekki geta lesið annað úr lögunum en að ef erfingjar gangi frá skiptum á óskiptu búi fyrir 1. apríl þá hljóti eldri lögin um erfðafjárskatt að gilda.

HÖRÐUR Guðmundsson, lögfræðingur hjá KPMG Endurskoðun, segist ekki geta lesið annað úr lögunum en að ef erfingjar gangi frá skiptum á óskiptu búi fyrir 1. apríl þá hljóti eldri lögin um erfðafjárskatt að gilda. Eftirlifandi maki geti hvenær sem er krafist skipta en afgreiðslan geti hins vegar tekið einhvern tíma hjá viðkomandi sýslumanni.

Hörður bendir á að gildistöku laganna hafi verið flýtt í meðförum Alþingis en að sumu leyti hefði verið eðlilegra að gefa mönnum eitthvað lengri aðlögunartíma, tíminn sem fólk hafi til þess að taka tillit til nýrra laga sé ákaflega knappur.

"Segjum að maki sé kominn af stað með að láta skipta búi, sem áður hafi verið óskipt, en nái ekki að ljúka skiptunum fyrir 1. apríl - þá lenda erfingjar væntanlega í að greiða skatt samkvæmt nýju lögunum en það getur verið ósanngjarnt gagnvart erfingjum ef arfur er í formi hlutabréfa. En kannski er enn möguleiki fyrir fólk, ef afgreiðsla hjá sýslumönnum tekur ekki of langan tíma, að drífa í að ljúka skiptum á óskiptu búi. Slíkt getur auðvitað borgað sig ef eignir bús eru að meginstofni til hlutabréf," segir Hörður.

Hörður segir það einnig koma sér á óvart að verðmat miðist við verðmæti eigna við andlát en ekki þegar eignir komi til skipta. Það geti vissulega þýtt, ef gengi bréfa lækkar verulega eða félag verði gjaldþrota frá andlátsdegi til loka skipta, að erfingjar greiði skatt af hærri upphæð en þeir fái í arf.

"Mér finnst í sjálfu sér ekki óeðlilegt að farið sé að miða við markaðsverð hlutabréfa en mér finnst óeðlilegt að miða við verðmæti á dánardegi. Það er eðlilegra að það miðist við skiptalok því oft getur liðið langur tími frá dánardegi að skiptalokum og verðmæti eigna getur hafa breyst verulega á þeim tíma," segir Hörður.