VÍSITALA verðs á sjávarafurðum hefur lækkað um 3,5% í íslenzkum krónum talið frá því í desember til loka febrúar. Mælt í SDR er hins vegar um örlitla hækkun að ræða.

VÍSITALA verðs á sjávarafurðum hefur lækkað um 3,5% í íslenzkum krónum talið frá því í desember til loka febrúar. Mælt í SDR er hins vegar um örlitla hækkun að ræða. Sé litið lengra aftur í tímann, allt til fyrsta september 2001, er lækkunin í einstökum afurðaflokkum á bilinu 13 til 23%. Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva, segir þetta þyngja rekstur sjávarútvegsfyrirtækja verulega, einkum meðal stórra og smárra fiskvinnslustöðva og einhver þeirra hafi komizt í þrot.

"Þetta er vissulega erfitt fyrir útveginn, en þetta gerðist í aðdraganda kjarasamninga. Við erum búnir að horfa upp á þessa þróun í dálítinn tíma og hún tengist að verulegu leyti styrkingu íslenzku krónunnar. Þetta kemur við allar útflutningsgreinar," segir Arnar.

Á stjórnafundi Samtaka fiskvinnslustöðva í gær var farið yfir áhrif kjarasamninga á afkomu fiskvinnslufyrirtækja, meðal annars með hliðsjón af þessari þróun. Arnar sagði að styrking krónunnar hefði valdið því að skilaverð til framleiðenda hefði farið lækkandi. Verð hefði sumstaðar haldið fyllilega í erlendum myntum. Þetta ætti t.d. við í saltfiskinum, þar sem evran hefði verið að styrkjast. "Þannig hefur saltfiskverkunin staðið betur að vígi, þar sem hann er að mestu leyti seldur í evrum," sagði Arnar.

Arnar segir að sé horft til lengri tíma, til dæmis til baka til september 2001, og verðvísitölur settar þá á 100 og öllu breytt í íslenzkar krónur, sé lækkunin allveruleg. "Á þessum tíma hefur skilaverð á landfrystum afurðum lækkað um 23%, verð á mjöli og lýsi hefur lækkað um 16%. Verð á saltfiski hefur lækkað um 14% og rækjan hefur farið niður um 13% en þá var verðlækkunin á rækju erlendis að miklu leyti komin fram. Þarna er fyrst og fremst um styrkingu krónunnar að ræða, en afurðaverð erlendis hefur einnig lækkað."

Fyrirtækin fækka starfsfólki

Arnar segir að gengi krónunnar ráðist af markaðslegum aðstæðum að langmestu leyti. Nú gildi ekki sömu lögmál og áður í þeim efnum. "Það sem fyrirtækin hafa verið að gera, og halda sjálfsagt áfram, er að laga framleiðsluna sífellt að því sem bezt er að vinna, en það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að gera í þeim efnum. Það má heldur ekki gleyma því að fyrirtækin hafa verið að ná niður kostnaði með því að fækka starfsfólki og auka tæknivæðingu. Það eru auðvitað takmörk fyrir öllum þessum hlutum. Þetta er mjög þungur rekstur í dag og maður verður mjög var við það hjá minni og miðlungsfyrirtækjum, sem hafa verið að miklu leyti háð fiskmörkuðum að það hefur verið mjög þungt fyrir fæti síðustu mánuði," segir Arnar.