Rjómskipsliðar opna sýningu í Skaftfelli á laugardag og bjóða alla jarðarbúa velkomna.
Rjómskipsliðar opna sýningu í Skaftfelli á laugardag og bjóða alla jarðarbúa velkomna.
Seyðisfjörður | Sýningin Rjómskip verður opnuð í menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði á laugardag.

Seyðisfjörður | Sýningin Rjómskip verður opnuð í menningarmiðstöðinni Skaftfelli á Seyðisfirði á laugardag.

"Þetta er fjórða árið í röð sem hópur af útskriftarnemum Listaháskóla Íslands ásamt erlendum gestanemum heldur sýningu, sem er afrakstur tveggja vikna listsköpunarvinnu á vinnustofunni Seyðisfirði," segir Sólveig Alda Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Skaftfells. "Vinnustofan gefur nemendum tækifæri á að nýta sér þær aðstæður og umhverfi sem bærinn býður upp á ásamt því að vera í samstarfi við nokkur af fyrirtækjum bæjarins, eins og Tögg, Netagerðina, Stálstjörnur og Tækniminjasafnið, ásamt því að þiggja aðstoð hinna ýmsu handverksmanna."

Sýningin ber heitið Rjómskip og segir Sólveig Alda að nafnið þyki hæfa þessum glænýju aðstæðum ungu listamannanna, þar sem þeim finnst beinlínis dekrað við sig á Seyðisfirði. Einnig megi benda á að rjómskip þýðir geimskip á norsku, en í þessu mikilfenglega umhverfi virðast litlu borgararnir eins og nýlentar geimverur. "Rjómskipslingar eru hressir með lífið og tilveruna og þeir hlakka til að bjóða gestum upp á hin fínustu listaverk. Margt mun verða á seyði, sérstaklega á opnunardaginn og ýmsar uppákomur af því tilefni."

Undarlega mörg yrkisefni

Sýnendur eru Carl Boutard, Maja Nilsen, Markus Öhrn, Indíana Auðunsdóttir, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir, Gunnar Már Pétursson, Sarah Deboosere, Röðull Reyr Kárason, Elín Anna Þórisdóttir og Isabel Navarro. Sýningarstjóri og umsjónarmaður hópsins er Björn Roth.

Um verkin á sýningunni segir Sólveig Alda að Carl Boutard hvetji sýningargesti sérstaklega til að taka með sér handklæði af ástæðu sem ekki verður gefin upp hér og Markus ætli að blanda sænskum skógi saman við þann íslenska. "Málverk Isabel sækja áhrif sín í umhverfi Seyðisfjarðar og Þóra Sólveig vinnur að innsetningu þar sem efniskenndin skiptir aðalmáli. Sarah reynir að breyta skynjun okkar á "inni-úti" og fótboltaáhugamaðurinn Röðull Reyr segir "Áfram Huginn!" Ella hjálpar sýningargestum að rata á miðin, á meðan Gunni sullar í vatni. Maja býr til sína eigin sögu úr því sem hún hefur heyrt hér á Seyðisfirði og Indíana segist vera alvarlegur laptoplistamaður og muni að öllum líkindum missa sig yfir í einhvers konar yfirkeyrðan töffaraskap."

Opnunin verður kl 16:00 laugardaginn 27.mars í sýningarsalnum í Skaftfelli og allir jarðarbúar eru velkomnir.