Meiri arðsemi Jón Karl Ólafsson á ráðstefnu Samtaka ferðaþjónustunnar.
Meiri arðsemi Jón Karl Ólafsson á ráðstefnu Samtaka ferðaþjónustunnar. — Morgunblaðið/Golli
JÓN KARL Ólafsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði á aðalfundi samtakanna í gær að tryggja yrði betri arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu þannig að greinin yrði talin áhugaverður fjárfestingarkostur hjá innlendum sem erlendum fjárfestum.

JÓN KARL Ólafsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði á aðalfundi samtakanna í gær að tryggja yrði betri arðsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu þannig að greinin yrði talin áhugaverður fjárfestingarkostur hjá innlendum sem erlendum fjárfestum. "Þetta eru háleit markmið og það er mikil vinna framundan til að tryggja þau," sagði Jón Karl.

Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka, sagði í sínu erindi á fundinum að miðað við núverandi aðstæður væru fjárfestingar í ferðaþjónustu hvorki óeðlilega litlar né miklar. "Ég er [líka] þeirrar skoðunar að þolinmótt fjármagn geti ávaxtast vel í íslenskum ferðageira. Ég er hins vegar ekki sannfærður um að lengi til viðbótar verði unnt að setja samasemmerki á milli fjölgunar ferðamanna og bættrar afkomu í greininni," sagði Hreiðar en áður hafði hann bent á það að fagfjárfestar og stjórnendur fjármagns og sjóða sem ekki væru í einkaeign gætu ekki fjárfest nema von um arðsemi væri eðlileg og áhættan innan eðlilegra marka. Eftir stæðu því fjársterkir einstaklingar sem reiðubúnir væru að setja fjármuni í uppbyggingu sem e.t.v. skilaði arði eftir allmörg ár. "Slíkir menn eru hins vegar vandfundnir - en alltaf jafneftirsóttir!"

Hreiðar sagði einnig að Ferðaþjónustan væri ein af fáum greinum þar sem landsbyggðin hefði enn raunverulega hlutfallslega yfirburði vegna landfræðilegra aðstæðna og í því tilliti nær eini augljósi vaxtarbroddurinn í nær öllum byggðum landsins og hlyti þess vegna að tengjast byggðastefnu stjórnvalda með afgerandi hætti.

Þá sagði Hreiðar að lokum að framtíðin ætti að vera björt en engu að síður væru mörg verkefni óleyst áður en hægt yrði að tala um verulegan kynþokka ferðaþjónustunnar í heild sinni gagnvart fjárfestum, eins og Hreiðar orðaði það í erindi sínu á fundinum.

Tvöföldun gjaldeyristekna

Jón Karl fór í erindi sínu yfir framtíðarsýn Samtaka ferðaþjónustunnar þar sem fram kemur að stefnt er að tvöföldun gjaldeyristekna af ferðaþjónustu fyrir lok árs 2012 og að beinar gjaldeyristekjur verði þá komnar í a.m.k. 80 milljarða króna. Samtökin vilja að hans sögn efla enn samstarf ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila til að styrkja innviði greinarinnar. "Við viljum að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að ímynd byggi á hreinleika, heilsu, öryggi og fegurð landsins okkar. Við viljum líka að nýsköpun og fagmennska í greininni tryggi arðsemi greinarinnar á heilsársgrunni."

Á fundinum var samþykkt tillaga um stofnun nýsköpunarsjóðs og vöruþróunarsjóðs SAF með fyrrgreint að markmiði, sem á að hvetja fyrirtæki innan samtakanna til nýsköpunar og vöruþróunar, með því að veita viðurkenningar fyrir athyglisverðar nýjungar.

Evrópusókn boðuð

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra boðaði markaðssókn inn á meginland Evrópu í erindi sínu á ráðstefnunni. Hann sagði að í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur með Iceland Naturally vestanhafs, samstarfsverkefni Icelandair, Icelandic USA, Iceland Seafood Corp., Bændasamtakanna, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og Ölgerðarinnar, hefði hann verið áhugasamur um að sams konar átaki yrði hleypt af stokkunum í Evrópu enda álfan sem heild mikilvægasta markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu, að sögn Sturlu. "Í ljósi mjög góðs árangurs undanfarin ár af samstarfi ríkis, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila í IN í N-Ameríku hef ég ákveðið að láta kanna á meginlandi Evrópu hvaða þættir það séu líklegastir til að vera sameiginlegir til að koma íslenskri ferðaþjónustu enn frekar en tekist hefur á framfæri á þessu svæði. Í framhaldi af slíkri rannsókn verði hannað slagorð og "logo" í samræmi við niðurstöður með sama hætti og gert er undir merki Iceland Naturally," sagði Sturla.

Til að vinna að gerð þessa verkefnis sagðist Sturla ætla að leita samstarfs við utanríkisráðuneyti, Samtök atvinnulífsins, Þýsk-íslenska verslunarráðið og Fransk-íslenska verslunarráðið. Starfsmaður undirbúningshóps verkefnisins verður Haukur Birgisson, forstöðumaður Ferðamálaráðs í Frankfurt.

Áfram Iceland Naturally

Þá sagði Sturla að til skoðunar í samgönguráðuneytinu væri að gera nýjan samning um Iceland Naturally frá og með 1. janúar nk. og byggja hann á þeirri reynslu sem náðst hefur með núgildandi samkomulagi en í máli Sturlu kom fram að góður árangur hefði náðst með Iceland Naturally. Verkefnið hefur kostað eina milljón dollara á ári. Samgönguráðuneytið hefur bæði stýrt átakinu og lagt fram 70% fjárins.