Hippabandið í grúví fíling.
Hippabandið í grúví fíling. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
HIPPAFLOKKURINN í Vestmannaeyjum ætlar að halda þriðju hippahátíð sína í Vestmannaeyjum dagana 26. og 27. mars undir yfirskriftinni Ást, friður og tónlist út í Eyjum. Þetta er þriðja hátíðin sem þessi ágæti söngflokkur heldur í Eyjum.

HIPPAFLOKKURINN í Vestmannaeyjum ætlar að halda þriðju hippahátíð sína í Vestmannaeyjum dagana 26. og 27. mars undir yfirskriftinni Ást, friður og tónlist út í Eyjum. Þetta er þriðja hátíðin sem þessi ágæti söngflokkur heldur í Eyjum. Nú er í fyrsta sinn verið að markaðssetja hátíðina á fastalandinu og vonast eftir gestum þaðan.

Um síðastliðna helgi dvaldi hippaflokkurinn í frístundahúsi á Flúðum og æfði tónlist sína og lék einnig á veitingahúsinu Útlaganum. Fréttaritari átti leið fram hjá verslun Samkaupa á Flúðum en þá var hópurinn að syngja fyrir Karlakór Selfoss sem einnig var með sinn árlega æfingadag á Flúðum.

Tóku hóparnir eitt lag saman fyrir viðstadda. Þessi söngflokkur flytur lög frá hippatímanum, þ.e. aðallega frá 1967 til '72. Söngurinn er fagur og fjölbreyttur enda hafa Eyjamenn löngum getað sungið. Ef einhverjir vilja vita nánar um þennan ágæta söngflokk er hægt að að fara inn á slóðina hippinn.eyjar.is.

Hrunamannahreppi. Morgunblaðið.